Hver kannast ekki við setninguna: „Æ, það bara vantar allt „chemistry“ á milli okkar!“?
Vangaveltur um ástina og þetta svokallaða „chemistry“ sem fólk talar um að finna sín á milli, eða ekki, er gott efni í viðtal.
Þegar stórt er spurt getur eitthvað verið um svör og Benjamín Ragnar Sveinbjörnsson, dósent í efnafræði á verkfræði- og náttúruvísindasviði við Háskóla Íslands, svarar spurningum um ástina, lostann og hvað gerist þegar fólk laðast hvert að öðru.
Í stórum dráttum má segja að „chemistry“ á milli einstaklinga sé ekki eitthvað eitt, heldur margir þættir sem spila saman, hvort sem þeir eru líkamlegir eða sprottnir úr umhverfinu.
„Það er margt sem getur spilað inn í áhuga fólks hvort á öðru og menning getur jafnvel haft áhrif. Ef við hugsum þetta út frá líffræðilegri þróun þá er markmiðið að viðhalda genamenginu okkar og þess vegna leitum við oft að einhverjum sem getur hjálpað okkur sem best við það,“ segir Benjamín um hvernig tveir einstaklingar laðast hvor að öðrum.
Hann bætir við að þetta kunni að hljóma þurrt og sé ákveðin einföldun, en að öðru leyti sé manneskjan skemmtilega flókin sem kryddi ástarleitina og gerir hana meira spennandi.
„Þessi löngun í að viðhalda genunum veldur því að við leitum oft ómeðvitað að merkjum hjá einstaklingi sem getur hugsanlega gefið okkur og framtíðarbörnum bestu möguleikana á að lifa af.“ Og tekur hann sérstaklega dæmi um líkamsbyggingu og andlitsfall sem vísbendingu um getu til að eignast heilbrigð börn. Fólkið með réttu hlutföllin verði því oft ómeðvitað meira aðlaðandi.
„Áhugavert nokk, þá eru þetta t.d. andlitshlutföll sem eru í meðallagi í samfélaginu samkvæmt sumum rannsóknum, en þau eru oft nálægt gullna hlutfallinu (fí).“
Vitaskuld geta persónuleiki og sameiginleg lífsgildi einnig skipt sköpum enda sé t.d. fólk með góðan húmor og góða samskiptahæfni líklegra til að mynda gott tengsla- og öryggisnet, skapa góða starfsmöguleika og gefi einnig von um að geta veitt börnum gott uppeldi, að sögn Benjamíns.
Þá geta aðrir samfélagslegir þættir spilað stóra rullu og Benjamín veltir fyrir sér hvort fólk horfi í hluti eins og aðgang mögulegs maka t.d. að heilbrigðisþjónustu, sem annars myndi vera of dýr.
„En þetta eru pælingar sem ég varð var við hjá nokkrum þegar ég bjó í Bandaríkjunum.“
„Ein af áskorununum við stefnumótaforrit, sem og að sjá einhvern úr fjarlægð án þess að þekkja viðkomandi, er að ímyndunaraflið okkar er svo öflugt. Við getum því fljótt farið að búa til sögu í huganum um hvernig manneskjan er og hvernig tilhugalífið sé með þessari manneskju. Ef manneskjan reynist ekki vera sú sem við bjuggum til í huganum, þá gæti áhuginn breyst snögglega, þótt hún sé frábær, bara ekki endilega á þann hátt sem við höfðum ímyndað okkur.“
Benjamín segir það einnig áhugavert að skoða kynferðislegan áhuga mannskepnunnar annars vegar og dýra hins vegar. Hann nefnir dæmi um að hjá nagdýrum skipti lyktin öllu máli fyrir kynhvötina. Hjá sumum bavíanategundum virðast sjónrænir þættir mikilvægastir í að vekja kynferðislegan áhuga karldýranna á meðan lykt hefur ekki eins afgerandi áhrif.
„Mannfólkið er áhugavert að því leyti að ímyndunaraflið eitt og sér getur dugað til að vekja upp kynhvötina.“
Þó séu aðrir þættir sem einnig hafi áhrif.
„Rannsóknir hafa sýnt að okkur getur fundist ákveðnar svitalyktir meira spennandi en aðrar og það getur verið háð genunum okkar. Einnig var gerð rannsókn þar sem fylgst var með fólki á næturklúbbi og karlmenn voru þar mun líklegri að reyna við konur sem sýndu meira bert hold eða meira af brjóstunum sínum.“
Það er einnig áhugavert að heyra Benjamín segja frá því að lærð hegðun fólks geti einnig haft áhrif á hvað veki upp spennu. Í því samhengi nefnir hann rannsóknina um „Bjöllu Pavlovs“ eða þessa uppgötvun um klassíska skilyrðingu. Sé það svo yfirfært á manneskjuna; þegar ákveðin hegðun manneskju vekur upp spennu hjá einstaklingi sem getur talist eins konar skilyrt viðbragð.
Þá skiptir framleiðsla kynhormóna einnig máli fyrir kynhvötina, segir Benjamín og tekur dæmi um estradíól og testosterón og andrógen.
Samkvæmt Benjamín eru nokkur efni, eða hormónar, sem geta haft mikil áhrif þegar fólk verður ástfangið og talar heilinn við mismunandi hluta af sér í gegnum efnaskipti.
„Þegar við verðum ástfangin þá eykst framleiðsla á dópamíni í heilanum og ýtir undir að við viljum eyða tíma með manneskjunni sem við erum ástfangin af.“
Hormónið serótónín segir einstaklingnum að „allt sé í lagi“ sem gerir það að verkum að þeim líði vel. Benjamín vísar í rannsókn frá 2012 sem sýndi að ástfangnir karlmenn voru með lægra serótónín í blóði miðað við konur sem voru ástfangnar. Hann veltir upp þeirri spurningu hvort bæði óvenju hátt serótónín magn hjá ástföngnum konum og lágt serótónínmagn hjá ástföngnum körlum valdi aukinni hugsun um ástina.
Adrenalín á þátt í auknum hjartslætti og einnig í þeirri spennu sem fylgir því að verða ástfanginn, að sögn Benjamíns.
„Ástarhormónið oxýtósín er mikilvægt efni þegar kemur að því að mynda tengsl við aðra. Við framleiðum þetta efni t.d. þegar við föðmum aðra eða kúrum saman og mæður framleiða þetta við brjóstagjöf sem styrkir ástina á barninu. Þetta efni eykur traust okkar til annarra og er líka talið geta aukið tryggð í sambandi.“
Spurður um líkamlega nánd og hvaða hlutverki hún gegni í ástarsamböndum segir Benjamín að hún ýti undir framleiðslu á dópamíni og oxýtósíni, sem svo aftur eykur ást eða löngun tveggja einstaklinga til hvors annars.
„Ýmislegt getur haft áhrif. Það að hjálpa hvort öðru, opna sig gagnvart hvort öðru og styðja við hvort annað í lífinu er líka talið geta hjálpað.“
En getur þetta „chemistry“ minnkað eða aukist með tímanum?
„Fjölmörg dæmi sem maður sér í lífinu virðast gefa það til kynna að þetta „chemistry“ geti minnkað. Án þess að styðjast við rannsóknir ímynda ég mér að hugsanleg ástæða sé ef framleiðsla á áðurnefndum hormónum, sem ýta undir vellíðunar- og öryggistilfinningu með maka, hefur minnkað.
Benjamín bendir á að minni samvera, færri faðmlög eða kúr o.þ.h. gætu leitt til minni framleiðslu á oxýtósíni. Eins ef eitthvað annað kemur upp sem veldur vanlíðan í sambandinu þá geti framleiðsla á dópamíni minnkað og líkaminn fær ekki lengur sömu „dópamínverðlaun“ af samverunni.
„Það gæti þá minnkað hvatann til að leita í þessa samveru og „chemistry-ið“ minnkar.“
Benjamín veltir einnig upp hinu gagnstæða, þ.e. hvernig „chemistry“ þróist þegar einstaklingar hafa verið vinir, komist úr „friendzone-inu“, og sambandið þróast í ástarsamband hjá þeim sem upphaflega voru „bara vinir“.
„Verður maður ekki að halda í vonina að ástin geti vaxið og orðið æ sterkari með tímanum,“ segir hann að lokum.