Hin 23 ára gamla Reykjavíkurmær, Júlía Dagbjört Styrmisdóttir, var ekki í ástarleit þegar hún hélt út til Bandaríkjanna, nánar tiltekið Georgíu, í háskólanám á fótboltastyrk árið 2021.
En fljótt skipast veður í lofti eins og sagt er á góðri íslensku.
Á fyrstu önn hennar við Emmanuel University kynntist hún ungum manni, nemanda við skólann, Kyle C. Lloyd, og tókst fljótlega mikill vinskapur með þeim og ekki leið á löngu þar til ástarguðinn Amor hitti þau í hjartastað.
Júlía Dagbjört útskrifaðist nýverið með B.S.-gráðu í viðskiptafræði frá Emmanuel University og stundar núna MBA-nám við University of West Alabama.
Unga parið hefur komið sér vel fyrir í huggulegri íbúð og á lítið loðbarn sem það elskar að dekra við.
Hvernig kynntust þið?
„Við kynntumst í skólanum á fyrstu önninni minni. Kyle var herbergisfélagi kærasta vinkonu minnar og það var hún sem kynnti okkur.
Við Kyle fórum á nokkur „double-date“ með þeim og eftir nokkur slík fórum við að eyða tíma saman, bara við tvö, og eftir það var ekki aftur snúið.”
Var þetta ást við fyrstu sýn eða var þetta lengi að gerast?
„Nei, ég get nú ekki sagt það.
Þar sem ég var gífurlega upptekin hafði ég lítinn tíma til að hugsa um ástina. Ég og Kyle fórum því hægt af stað, byrjuðum aðeins að spjalla á Snapchat og ég „ghost-aði“ hann í fyrstu, alls ekki viljandi, ég hafði bara engan tíma, námið og fótboltinn átti hug minn og hjarta.
En vinkona mín hvatti mig til að halda áfram að tala við hann og koma á „double-date“. Ég var mjög þrjósk í fyrstu og það tók vinkonu mína rúman mánuð að sannfæra mig um að segja já. En mikið sem ég er ánægð með að hafa gert það.”
Hvernig vissir þú að hann væri sá rétti?
„Ég vissi að hann væri sá eini rétti þegar ég veiktist rétt fyrir lokaprófin. Ég var rúmliggjandi í heila viku og hann vék varla frá mér. Hann keypti mat og flensulyf handa mér og hugsaði bara ótrúlega vel um mig. Á þessum tíma vorum við búin að vera að hittast í mánuð.
Ég sá fljótt hve góðan mann hann hafði að geyma og vissi að ég hefði dottið í lukkupottinn.”
Hver er lykillinn að góðu sambandi (í ykkar tilfelli að minnsta kosti)?
„Eftir þrjú yndisleg ár saman og sambúð tel ég lykilinn að farsælu sambandi vera að tala saman og vera óhræddur við að segja það sem manni finnst.
Ég og Kyle erum alls ekki oft ósammála en þegar það gerist þá ræðum við hlutina og finnum sameiginlega lausn. Það hefur virkað vel fyrir okkur, allavega hingað til.”
Hvað finnst þér bestu kostir maka þíns?
„Mér finnst bestu kostirnir hans vera hvað hann er góður við mig og umhyggjusamur. Hann hugsar um mig þegar ég er lasin eða þreytt og lætur mig ekki lyfta fingri ef ég þarf þess ekki. Hann vill alltaf bera töskurnar og pokana inn og opna allar dyr fyrir mér, eins og sönnum herramanni sæmir.
Kyle er líka með svo rólega nærveru sem hefur verið ómetanleg í gegnum námið og fótboltann."
Hver er rómantíski aðilinn í sambandinu (og af hverju)?
„Það fer svolítið eftir því hvað fólki finnst vera rómantískt. Við erum ekki mjög rómantísk, ekki á kvikmyndaskala, en við eigum okkar „love language“.
Ég sýni gjarnan ást mína með því að gefa gjafir, ég elska að gefa honum gjafir og eða elda góðan mat handa honum. Kyle tjáir ást sína meira með gjörðum en orðum. Ég myndi því segja að við værum jöfn þegar kemur að rómantíkinni. Við pössum vel saman að því leyti.“
Hvað gerið þið þegar þið farið á stefnumót eða viljið þið gera vel við ykkur?
„Okkur finnst mjög gaman að fara út að borða og skoða í búðir. Uppáhaldsveitingastaðirnir okkar eru Sonny´s BBQ, Carrabba´s og Texas Roadhouse til að nefna nokkra. Okkur finnst líka mjög skemmtilegt að fara á nytjamarkaði og versla í „second-hand”-búðum eins og Goodwill og Plato´s Closet. Mér finnst samt fátt betra en að tjilla bara heima, elda góðan mat, og horfa síðan á bíómynd eða góða þætti.“
Hvernig sjáið þið framtíðina?
„Ég mun útskrifast úr MBA-náminu í maí 2026 og sé alveg fyrir mér að búa áfram í Bandaríkjunum í einhver ár, en ég vil þó á einhverjum tímapunkti flytja aftur heim til Íslands. En núna erum við bara sátt að lifa í núinu, það sem gerist, gerist.”