Almennt er talið að lykillinn að andlegri vellíðan sé að setja öðrum skýr mörk. En hvað skal gera ef fólkið sættir sig ekki við mörkin sem maður setur?
Chloe Laws rithöfundur segir frá sinni reynslu í pistli sínum á The Stylist.
„Það er mikilvægt að skilja hvernig þú getur búið til umhverfi þar sem ákveðin tegund hegðunar er ekki liðin. Ég hef hins vegar lært það að mörk verða aðeins virt ef maður setur þau á vissan hátt, í vissu samhengi og af réttum hvötum,“ segir Laws.
„Eftir að hafa varið mörgum árum í að skilja mín mörk þá reyndi ég loks að ræða um þau við fjölskyldu mína um þann stuðning sem ég þurfti frá þeim. Ég var búin að setja niður á blað öll rökin fyrir því hvers vegna markaleysi mitt hafði neikvæð áhrif á líf mitt. Ég fór á fund nokkurra fjölskyldumeðlima og útskýrði hvernig og hvers vegna ég þurfti að fá meira svigrúm, meira einkalíf og að talað væri við mig af meiri virðingu. Ásetningur minn var góður og þetta var löngu tímabært af minni hálfu.“
„Útkoman var samt ekki góð. Ég var svo stíf og fjölskyldu minni þótti ég vera að predika yfir þeim. Mörgum þótti ég köld og lítillækkandi í framkomu. Það var líkt og allir hötuðu mig.“
„Ég hef stundum haft efasemdir um það þegar fólk setur öðrum mörk. Líkt og það væri bara að setja sjálfselsku í einhvern spari-búning. Þegar ég sagði fyrrverandi vinkonu að ég gæti ekki verið alltaf tiltæk fyrir hana (vinkona sem hringdi mörgum sinnum á dag og varð reið ef ég svaraði ekki strax) þá setti hún mér mörk og sagði upp vináttunni. Það var vegna þess að vinátta okkar var ekki lengur að þjóna hennar eigin hagsmunum.“
„Þetta hefur fengið mig til þess að velta málunum enn frekar fyrir mér. Er það að standa á sínu um hvað maður vill fá frá öðrum eitthvað sem er ósanngjarnt? Er hægt að setja mörk án þess að eiga á hættu að fólk sem manni þykir vænt um snúist gegn manni?“
Veena Ugargol sálfræðingur segir manni að snúa dæminu við. „Ef besti vinur þinn setur sams konar mörk, þætti þér þau sanngjörn? Ef svarið er já, þá skaltu einbeita þér að því að hjálpa fólki að skilja þína hlið. Ef einhver neitar að sætta sig við mörkin sem þú setur þá gæti þetta verið tíminn til þess að búa til ákveðna fjarlægð á milli ykkar og jafnvel enda sambandið. Ræktaðu frekar samband við þá sem styðja þig.“
Mörk eru engin töfralausn og geta oft leitt til endaloka vináttu eða sambands. Sumir móðgast og reiðast. Það að setja einhverjum mörk er aldrei þægileg upplifun. Komi slíkt upp þá getur verið sniðugt að nálgast samtalið af forvitni. Af hverju líkar einhverjum ekki þessi breyting? Samtalið á þó aldrei að snúast um að breyta mörkum þínum til þess að þóknast þeim. Þú getur hins vegar sett þetta allt í skiljanlegt samhengi til þess að útskýra ákvörðun þína.