Nú ætla ég að segja frá sturlaðri staðreynd og bið þig, lesandi góður, að gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn og setja sjálfan þig í aðstæðurnar.
Flott er, byrjum þetta.
Ímyndaðu þér að þú hittir manneskju á stefnumóti sem heillar þig upp úr skónum frá fyrstu mínútu. Manneskjan er bæði klár og vel menntuð, er í toppstarfi – jafnvel með svo mikla ábyrgð í starfi að mannslíf gætu verið í húfi – aðlaðandi, æðislega vel til fara (alltaf) og skemmtileg á þeim stundum sem gaman er.
En, voilà, viðkomandi er narsissisti.
Og hvernig í ósköpunum áttu að vita það? Eflaust eru rauð flögg, sem undirrituð vill reyndar trúa að séu alltaf til staðar frá upphafi en það er bara mismunandi hvort hlustað sé á innsæið.
Þótt kerfið innra með þér fari í baklás leyfirðu spennunni, hrifningunni og jafnvel greddunni að ráða för.
Narsissistinn getur alveg verið hrifinn af þér en það sem er ofar í huga hans er hvernig þú fóðrar egóið hans. Vegna þess að undir glansmyndinni er viðkomandi bölvaður aumingi – afsakið orðbragðið – og sjálfstraustið ekki upp á marga fiska, jafnvel verra en þitt eigið, svona til að byrja með.
Og viðkomandi byrjar að skjalla þig (e. love bombing) svo engu sé líkara en þú flögrir upp úr skónum. Narsissistinn er „góður“ og sýnir þér „áhuga“ en áhugi hans liggur fyrst og fremst í eigin hagsmunum og einnig vegna þess að þú hefur eitthvað eða býrð yfir einhverju sem hann ásælist.
Þú fellur fyrir bellibrögðunum og þið farið að vera saman.
Með tímanum fer narsissistinn að verða smá vondur, kannski ekkert svo mjög í fyrstu, en trúðu mér, leiðin niður á við er hröð. Hann getur komið með eitraðar athugasemdir, sýnt þér viljandi minni áhuga og gert lítið úr þér í hvaða aðstæðum sem er (e. devalue).
Það sem ruglar þig er „love bombing“-tímabilið, sem þú horfir alltaf til og vonast til að sé skammt undan. En sá tími er liðinn og hegðun narsissistans í þinn garð versnar bara og versnar.
Allt snýst þetta um niðurbrot og stjórnun, hann ætlar sér að eyðileggja þig.
Það hljómar fáránlega en þetta er handrit hringiðunnar sem hann fer eftir; „love bombing“ er fyrsta stig, „devalue“ er stig tvö og þá er komið að stigi þrjú.
Eftir lengra eða skemmra tímabil niðurlægingar og leiðinda hendir hann þér bókstaflega út í hafsauga (e. discard). Kannski með því að tilkynna þér að hann hafi ekki áhuga lengur eða að smám saman slítur hann samskiptin án þess að gefa þér neina „ástæðu“.
En ástæðan er þarna – eflaust fann hann bara nýjan „fóðrara“, því narsissistinn er í stöðugum leik og um leið og hann fær leið á einni manneskju þá þarf önnur að vera til taks til að fóðra egóið hans og líklega er sú manneskja þegar komin í líf hans áður en hann hendir þér í burtu.
Þú, lesandi góður, ert skilinn eftir í algjöru tilfinningarugli og hugurinn fer marga hringi í leit að þessari ástæðu, jafnvel gengurðu svo langt að kenna þér um hvernig fór – svo lengi sem narsissistinn sé ekki þegar búinn að því.
Taktu nú eftir, ekki láta ryksuga þig upp!
Þú féllst fyrir fyrsta hringnum hans, ekki gera það aftur. Því á stigi fjögur vill narsissistinn ná stjórn á þér aftur og reynir að sjúga þig inn í hringiðuna á ný (e. hoovering), eftir nákvæmu handriti sínu.
Hann byrjar á að setja sig aftur í samband við þig, sem síðan ágerist þar til hann fer að ausa yfir þig lofsyrðum líkt og í upphafi. Kannski tekur hann leikritið lengra og fær þig til að vorkenna sér, því þú varst ekki alltaf betri aðilinn í sambandinu.
Fallirðu fyrir því þá ertu kominn í gildruna enn aftur, sem strengjabrúðan hans, og hann leikur með þig þar til strengirnir slitna, ef þeir gera það nokkurn tímann.
Þú týnist í hringiðunni sem sogar þig sífellt neðar í hyldýpið svo engu er líkara en þú sért að drukkna. Það verður svo erfitt að berjast á móti hörðum straumnum og komast upp aftur.
En það er alveg hægt að losna út úr þessu – ég ætla ekkert að tíunda það í þessum pistli – en þegar það gerist þá líturðu niður í iðuna og hugsar vonandi: þangað ætla ég aldrei aftur.