Það hefur orðið mikil vitundarvakning upp á síðkastið um narsissisma, svo mjög að við eigum það til að kalla aðra hverja manneskju narsissista. Þá er átt við að manneskjan sem um ræðir er sjálfhverf og hefur litla samkennd með öðrum.
Þeir sem hins vegar uppfylla greiningarviðmið um röskunina geta gert líf samferðamanna sinna að lifandi helvíti. Í umfjöllun vefritsins The Stylist er sjónum beint að því hversu erfitt það getur verið að skilja við narsissista.
„Skilnaður getur orðið til þess að ýmsar slæmar hegðanir komi upp á yfirborðið. Narsissistar eru mjög stífir og veita mótspyrnu þegar breytingar eru í nánd. Í starfi mínu sem sálfræðingur sé ég mikla aukningu á að fólk leiti til mín þegar þeir eru að skilja við narsissista og er það að miklu leyti vegna þeirrar vitundarvakningar sem hefur átt sér stað í samfélaginu. Fólk vill koma sér út úr slæmum samböndum en það er síður en svo einfalt verkefni,“ segir Kathleen Saxton sálfræðingur.
„Venjulega ganga skilnaðir út frá því að ganga frá lausum endum og að finna fyrir lok sambands. Narsissistar hafa hins vegar það fyrir augunum að vinna. Þeir líta á skilnað sem árás á egóið þeirra og þeir bregðast við með ofsareiði, hefnd og ítrekaðar tilraunir til þess að ná aftur stjórn.“
„Jafnvel þótt þeir hafi haldið framhjá eða beitt ofbeldi þá trúa þeir samt sem áður að þeir eigi að viðhalda ákveðnu taki á maka sínum. Þeir beita tilfinningum og fjármunum gegn maka sínum í gegnum allt skilnaðarferlið. Sumir nota allt sem þeir geta til þess að tefja skilnaðarferlið til þess að halda makanum í lausu lofti.“
„Eitt versta tólið sem þeir beita er að nota börnin og reyna að snúa þeim gegn hinu foreldrinu með lygum til þess að halda stjórninni. Þá nota þeir oft lagadeilur til þess að gera hinn aðilann örmagna og nota börnin sem vopn. Þeir eiga það einnig til að sækja um fullt forræði án þess þó að hafa séð um börnin fram að því.“
„Þá eiga þeir það til að tala illa um fyrrverandi maka, láta þá líta út fyrir að vera tæpir á geði, svikulir eða að þeir hafi beitt ofbeldi. Þeir snúa vinum og fjölskyldu gegn þeim til þess að einangra þá enn frekar. Þá neita þeir oft að greiða meðlag, fela eignir og búa til fjárhagslega óreiðu.“
„Þeir sem eru í þessum aðstæðum verða að finna sér lögfræðing og sálfræðing sem þekkja til þessarar hegðunar. Það eru ekki allir lögfræðingar sem þekkja klækina sem narsissistar beita og eru í stakk búnir að eiga við svo erfiða einstaklinga.“
„Þá þarf að skrá vandlega öll samskipti, skilaboð og peningagreiðslur. Allt sem hægt er að nota. Narsissistar eiga það til að snúa sannleikanum á hvolf og þess vegna er mikilvægt að halda öllu til haga.“
„Haldið öllum samskiptum í lágmarki og notið aðeins staðreyndir þegar verið er að miðla málum. Ekki veita nein tilfinningaviðbrögð og haldið jafnvægi og stóískri ró í gegnum allt ferlið. Það mun að lokum skila sér.“