Þrítugur karlmaður sem hefur verið í sambandi í átta mánuði skrifar í bréfi til ráðgjafa tímaritsins The Guardian að kynlífið sé fremur leiðinlegt, skorti ástríðu og sé tilbreytingalítið. Því sé þó öðruvísi farið með dömuna sem segir við hann í hvert skipti að kynlífið sé það „besta sem hún hafi prófað“, sem geri hann forviða.
Vinir dömunnar hafa einnig haft á orði við hann að hún sé ansi ánægð með ástaratlotin. Hann hafi hins vegar reynt að krydda hlutina sem fallið hafi í grýttan jarðveg hjá henni.
Þá eru aðrir hlutir sem farnir eru að trufla hann en í byrjun sambandsins kíktu þau út á lífið, fengu sér að borða og slíkt en um þessar mundir langi hana helst að hanga heima og horfa á sjónvarpið. Hann er, líkt og hann segir sjálfur, áhugasamur um hreyfingu og útivist, vill sækja námskeið t.d. í matreiðslu og fleira skemmtilegt, en hún hafi engan áhuga á slíku.
Svo spyr hann hvort þau eigi kannski ekki saman.
Í svari ráðgjafa The Guardian segir að sumt fólk skilgreini samband á ákveðinn hátt og í því felist jafnvel að vera svolítið „heimakær“.
Svo geti aftur verið önnur ástæða – af öllu alvarlegri toga – fyrir að fólk hafi ekki áhuga á utandyra athöfnum. Fólk sem þjáist af t.d. þunglyndi sé oft síður hreyfanlegt og hafi tilhneigingu til að verja mestum tíma innandyra.
Þá sé vert að athuga hvort makinn sé þreyttur og jafnvel stressaður vegna vinnu, áður en sambandinu er slitið.
Hvað kynlífið varðar getur takmarkaður vilji makans til að prófa nýja hluti í kynlífi stafað af reynsluleysi. Í því tilfelli er gáfulegast að innleiða breytingar í minni skrefum. Ekki er gott að biðja um of mikið, of snemma í sambandinu, því það gæti virkað ógnandi.