Kirkjusókn ungs fólks hefur aukist síðustu tvö ár

Sókn­ar­prest­ur Kópa­vogs­kirkju, séra Sig­urður Arn­ar­son, ráðlegg­ur ferm­ing­ar­börn­um að hafa
kær­leik­ann, trúna, gleðina og von­ina að leiðarljósi á stóra dag­inn. Nú hafa börn­in verið í ferm­ing­ar­fræðslu í vet­ur og er þar margt hægt að taka með sér út í dag­lega lífið, eins og ná­ungakær­leik­ann. Hann seg­ir kirkju­sókn ung­menna hafa auk­ist síðustu tvö ár, ekki ein­ung­is hér­lend­is held­ur einnig ann­ars staðar á Vest­ur­lönd­um.

„Inni­haldið er það sama, það er staðfest­ing að þú vilj­ir lifa í þess­um heimi sem krist­in mann­eskja, með krist­in gildi að leiðarljósi,“ seg­ir sókn­ar­prest­ur Kópa­vogs­kirkju, séra Sig­urður Arn­ar­son, um inn­tak ferm­ing­ar­fræðslunn­ar. Nú er ansi mik­il­væg­ur tími að renna upp hjá flest­um þrett­án og fjór­tán ára börn­um hér­lend­is þegar ferm­ing­ar­dag­ur­inn nálg­ast og hafa þau sem ferm­ast í kirkju verið í ferm­ing­ar­fræðslu í vet­ur og síðastliðið haust.

„Börn­in hafa þetta frelsi til að ákveða hvort þau vilji staðfesta trúna og lifa sem kristn­ar mann­eskj­ur og ferm­ing­in snýst um það,“ bend­ir Sig­urður á.

Um­gjörðin breytt

Sig­urður fagn­ar þrjá­tíu ára vígslu­af­mæli 21. maí á þessu ári. Hann lauk kandí­dats­prófi í guðfræði frá Há­skóla Íslands árið 1994 og var vígður til Grafar­vogs­safnaðar við hlið séra Vig­fús­ar Þórs heit­ins Árna­son­ar, sókn­ar­prests þar.

Árin 2001-2002 dvaldi Sig­urður í Banda­ríkj­un­um þar sem hann stundaði fram­halds­nám í sál­gæslu á Mer­iter-sjúkra­hús­inu í Madi­sons, Wiscons­in, þaðan sem hann hlaut starfs­rétt­indi sem sjúkra­húsprest­ur. Á ár­un­um 2002-2003 þjónaði Sig­urður sem prest­ur Íslend­inga á Bret­lands­eyj­um og hafði þjón­ustu­skyldu við ut­an­rík­is­ráðuneytið, Sjúkra­trygg­ing­ar Íslands og sam­fé­lag Íslend­inga í Lúx­em­borg. Þaðan lá svo leiðin til baka í Grafar­vog­inn.

Spurður um hvort mikið hafi breyst í kring­um ferm­ing­ar síðan hann var vígður til prests seg­ir Sig­urður að vissu­lega hafi um­gjörðin breyst og þá einkum hvað varðar fræðslu og hvernig kirkj­an nálg­ast mis­mun­andi ald­urs­hópa.

„Fræðslan hef­ur breyst á viss­an hátt, t.d. með til­komu sam­fé­lags­miðla.“ Þá nefn­ir Sig­urður að frá 1. fe­brú­ar er starf­andi sam­fé­lags­miðla­stjóri á veg­um kirkj­unn­ar sem miðlar upp­lýs­ing­um og reyn­ir að ná til þess hóps sem fermist á ár­inu.

„Við erum reglu­lega með fræðslu­mola og stutt inn­legg á miðlun­um In­sta­gram, TikT­ok og Face­book.“

Mikið ligg­ur að baki trúnni og er hún til gagns í dag­legu lífi, þess vegna hlýt­ur að vera nauðsyn­legt fyr­ir börn að læra og þekkja grunn­gildi henn­ar.

Spurður um mik­il­vægi kristni­fræðslu fyr­ir ung­menni bend­ir Sig­urður á að hún sé kennd með öðrum hætti í nú­tím­an­um: „Kristni­fræðsla er orðin að trúa­bragðafræðslu í dag,“ og er það sam­kvæmt aðal­nám­skrá grunn­skól­anna. Þegar und­ir­rituð var í grunn­skóla kallaðist fagið kristni­fræðsla og svo aft­ur öðru nafni þegar Sig­urður var barn: „Þegar ég var í Mela­skóla var þetta kallað Bibl­íu­sög­ur.“

Fjöl­breytt­ara sam­fé­lag

„Ég þjónaði sem prest­ur Íslend­inga aft­ur árin 2004 til 2009, á Bret­lands­eyj­um og í Lúx­em­borg,“ seg­ir Sig­urður og hef­ur hann því ágæt­is reynslu sem prest­ur af að þjóna þjóðar­broti er­lend­is sem er í minni­hluta, líkt og einnig er gert hér­lend­is.

„Eitt­hvað er um að tekn­ir séu upp siðir og venj­ur í því landi sem sest er að í en al­geng­ast er að börn af er­lendu bergi brot­in leiti þjón­ustu til sinna safnaða þegar kem­ur að t.d. ferm­ing­um.“

Á Íslandi eru starf­andi t.a.m. rétt­trúnaðarsöfnuður og kaþólsk­ur söfnuður, þá eru starf­andi pólsk­ur og úkraínsk­ur prest­ur í kaþólsku kirkj­unni og rúss­nesk­ur prest­ur hjá rétt­trúnaðar­kirkj­unni. Þá sjá ís­lensku prest­arn­ir um upp­fræðslu og að þjón­usta þau ís­lensku börn sem bú­sett eru er­lend­is og koma hingað til að ferm­ast.

Spurður um trú­ar­brögð sem eru fjar­læg­ari krist­inni trú, eins og íslam, seg­ist Sig­urður ekki þekkja til þess að þau börn hafi fermst í krist­inni trú, a.m.k ekki af því sem hann hef­ur reynslu af. Hann telji þó að það muni breyt­ast með ört stækk­andi sam­fé­lagi.

„Þeir ein­stak­ling­ar sem eru af ólík­ari trú­ar­brögðum en okk­ar munu koma í meiri mæli og leita þjón­ustu kirkj­unn­ar. Við eig­um eft­ir að sjá það í tengsl­um við ferm­ing­ar, skírn­ar­at­hafn­ir, hjóna­vígsl­ur og út­far­ir. Eft­ir því sem þjóðfé­lagið verður stærra og fjöl­breytt­ara þá munu til­færsl­ur á milli trú­ar­bragða verða part­ur af þeirri heild­ar­mynd.“

Kirkju­sókn að aukast

„Það eru mjög marg­ir sem ferm­ast á hverju ári og meiri­hlut­inn í lúth­erskri trú,“ seg­ir Sig­urður og bend­ir á að hann geti ekki séð neinn sér­stak­an mun á aðsókn í kirkju­lega ferm­ingu síðan hann tók við sem sókn­ar­prest­ur Kópa­vogs­kirkju 2009.

„Þetta er breyti­legt og hver hef­ur sinn hátt­inn á. Við tök­um á móti öll­um í kær­leika.“

Hins veg­ar nefn­ir hann að áhugi á krist­inni trú sé að aukast og vís­ar þar í viðtal við koll­ega sinn, séra Grét­ar Hall­dór Guðmunds­son, prest við Kópa­vogs­kirkju, sem birt­ist í Morg­un­blaðinu 27. fe­brú­ar. Í viðtal­inu kem­ur m.a. fram að prest­arn­ir hjá Kópa­vogs­kirkju og víðar hafi fundið fyr­ir aukn­um áhuga á trúnni; að fjöldi ungra karl­manna hafi fengið áhuga á krist­inni trú sem og að eldra fólk finni þörf til að tengj­ast trúnni meira.

„Já við finn­um það svo sann­ar­lega að áhug­inn er auk­inn,“ seg­ir Sig­urður.

Til að mæta þess­um aukna áhuga hef­ur verið sett á legg nám­skeiðið Líf í trú í kap­ellu Kópa­vogs­kirkju sem fer fram 5. mars til 16. apríl.

„Og nám­skeiðið verður líka sniðið fyr­ir yngra fólk sem vill fræðast meira um trúna. Svo eru auðvitað starf­andi æsku­lýðsfé­lög í mörg­um söfnuðum.“

Í þessu sam­hengi vís­ar Sig­urður einnig í um­fjöll­un Lest­ar­inn­ar á Rás 1 þar sem fram kom að prest­ar finni fyr­ir því að kirkju­sókn ungs fólks hef­ur auk­ist síðastliðin tvö ár, einkum hjá ung­um karl­mönn­um, frá aldr­in­um fjór­tán ára og upp úr. Spurður um ástæður seg­ir Sig­urður erfitt að til­taka ákveðnar ástæður, en nefn­ir þó fjölþætt­ara safnaðarstarf. Hann bæt­ir við að áhuga­vert væri að skoða þenn­an aukna áhuga bet­ur því áhug­inn sé ein­læg­ur og hann fer ekki ein­ung­is vax­andi hér­lend­is held­ur einnig ann­ars staðar á Vest­ur­lönd­um.

„Þegar fólk kynn­ir sér starf kirkj­unn­ar sér það hve mikið það er og hve marga fleti mann­lífs­ins það snert­ir. Það er boðskap­ur trú­ar­inn­ar; trú, von og kær­leik­ur, sem get­ur ekki annað en höfðað til fólks.”

„Gleði í drottni“

Að sögn Sig­urðar hafa börn­in í ferm­ing­ar­ár­gangn­um 2025 verið í ferm­ing­ar­fræðslu síðan í haust. Sú breyt­ing hef­ur orðið á að fagið er kennt í safnaðar­heim­il­um og kirkj­um áður en skól­inn byrj­ar á haust­in og teyg­ir sig yfir skóla­árið, en þá þurfa börn­in ekki að mæta eins oft að vetr­in­um, eins og áður var.

Hvað í trúnni er gott úti í dag­lega líf­inu og hvað get­ur trú­in kennt börn­un­um?

„Í trúnni er t.d. fjallað mikið um ná­ungakær­leika, eitt­hvað sem all­ir mættu til­einka sér meira nú til dags og ekki síður við sem full­orðin erum. Það er svo margt í krist­inni trú sem gott er að taka með sér út í lífið. Hún boðar kær­leika, fögnuð og gleði. Ég gæti ekki tek­ist á við þetta líf nema hafa kær­leik­ann, von­ina og gleðina að vopni, og ekki má gleyma ein­lægn­inni, auðmýkt­inni og heiðarleik­an­um. Trú­in kenn­ir okk­ur að taka fólki eins og það er.“

Hver eru þín skila­boð til barn­anna á stóra dag­inn?

„Skila­boðin eru afar ein­föld, þetta snýst um trú, von, kær­leika og gleði, jú, og t.d. ein­lægni. Fyr­ir þau sem ferm­ast í krist­inni trú þá er mjög gott að segja: Verið glöð í drottni, því það er beint úr Biblí­unni,“ bæt­ir hann við létt­ur í bragði.

„Áfram­haldið skipt­ir einnig máli og þau grunn­gildi sem á að rækta. Öll erum við að kom­ast í takt við okk­ur sjálf með því að hafa grunn­gild­in og sann­leik­ann að leiðarljósi. Ég er veg­ur­inn, sann­leik­ur­inn og lífið. Það er öxull­inn í þessu,“ út­skýr­ir Sig­urður og legg­ur áherslu á mik­il­vægi þess að börn­in taki lær­dóm­inn frá ferm­ing­ar­und­ir­bún­ingn­um með sér út í lífið.

„Eins og Vig­fús heit­inn sagði við mig þegar ég var vígður: Gleði í drottni. Þessa ein­földu setn­ingu hef ég reynt að til­einka mér í öllu sem ég geri,“ seg­ir hann að lok­um.

Sigurður fagnar þrjátíu ára vígsluafmæli 21. maí á þessu ári. …
Sig­urður fagn­ar þrjá­tíu ára vígslu­af­mæli 21. maí á þessu ári. Hann lauk kandí­dats­prófi í guðfræði frá Há­skóla Íslands árið 1994. Morg­un­blaðið/​Eyþór
Kópavogskirkja er reisuleg.
Kópa­vogs­kirkja er reisu­leg. Morg­un­blaðið/​Sig­urður Bogi
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda