Ef við byrjum á byrjuninni, hvað er „golden retriever“-kærasti? Þetta nýja tískuorð hefur farið eins og eldur í sinu um samfélagsmiðilinn TikTok. Fjöldi myndskeiða á miðlinum útskýra hvaða eiginleika slíkur maður þarf að hafa til að falla í þennan eftirsótta flokk; hann er góður, eilítið kjánalegur, kannski ekki skarpasti hnífurinn í skúffunni þótt hann teljist ekki heimskur, og er alltaf til í að taka þetta auka skref fyrir fólkið sem hann elskar. Til að bæta kirsuberinu á toppinn þá er hann eflaust nokkuð myndarlegur, á klassískan og symmetrískan hátt.
Fyrst og fremst er „golden retriever“-kærasti þekktur fyrir að vera traustur; hann heldur ekki fram hjá og gleymir ekki viðburðum. Hann gæti jafnvel fært þér blóm.
Ef geðbrigði hjá þér eru mikil, þá er eflaust ekkert betra til að kæta þig en „golden retriever“ (fyrir utan kvíða- og þunglyndislyf). Hann er með létta lund sem smitar frá sér og getur veitt þér vellíðan jafnvel á dimmustu dögum. Hafirðu hins vegar óbeit á góðum félagsskap í niðursveiflunni þá er „golden retriever“ ekki málið.
Til eru flottari útgáfur af „golden retriver“-mönnum og samkvæmt Vogue klæðast þeir gjarnan merkjum á borð við Abercombie & Fitch, J. Crew, Bonobos og Vuori. Það er gott að vita af þessu ef þig langar að gleðja hann á móti.
Og hvar halda þessir gullmolar sig? Samkvæmt Vogue eru þessir menn á börum þar sem íþróttaleikir eru sýndir, jafnvel utan óhefðbundinnar heilsuræktar eins og í klifri. Þá er um að gera að skoða vel athugasemdir inni á dýragrúppum á Facebook eða kíkja í gæludýrabúðir eða dýraathvörf, því ef hann á ekki gæludýr fyrir þá er hann pottþétt að leita að slíku, sérstaklega að hundi – þó ekki endilega golden retriever.