Aldursmunur í samböndum er aldeilis ekki nýr af nálinni, en á vef Cosmpolitan segir að eflaust fái þessi munur meiri athygli með hinum vinsælu þáttum The White Lotus með sambandi Rick (Walton Goggins) og Chelsea (Aimee Lou Wood), ásamt kvikmyndum á borð við Babygirl og The Idea of You þar sem hinu sívinsæla „eldri karl og yngri kona“ er snúið við.
„Þótt aldursmunur í samböndum sé ekki óalgengur þá virðast þannig sambönd alltaf hafa tilhneigingu til að vera svolítið umdeild og ratar sú umræða oft á netið,“ segir í grein Cosmpolitan. Með aldursmun í samböndum er hér verið að tala um tíu ár eða meira, samkvæmt dr. Carolina Patacky.
Hins vegar sé merking aldursmunar mismunandi eftir aldri beggja aðila. Tuttugu ára aldursbil einstaklinga í sambandi sem eru 30 og 50 ára færir þeim ólíkar áskoranir miðað við þá sem eru t.d. 60 og 80 ára.
Þá vill umræðan oftar en ekki beinast að valdaójafnvægi á milli þess eldri og yngri í sambandinu, eða jafnvel kyndbundnu ójafnvægi.
„Við gerum ráð fyrir að eldri makinn sé að misnota þann yngri fyrir kynlíf, eða að við gerum ráð fyrir að yngri makinn misnoti þann eldri vegna peninga.“ Þetta segir doktor Sarah E. Hill.
Þær áskoranir sem mæta einstaklingum í samböndum þar sem aldursmunur er mikill geta t.d. verið þær að annar einstaklingurinn hafi búið við meiri fjárhagslegan stöðugleika, hafi meiri lífsreynslu og öðlast meiri virðingu. Á meðan hinum finnist hann þurfa að reiða sig meira á þann sem eldri er.
Skoðanir á pólitískum þáttum, samböndum og lífinu almennt geta verið afar breytilegar og á skjön á milli kynslóða.
Það getur vissulega orðið vandamál ef yngri makinn þráir barneignir en sá sem eldri er hefur þegar átt börn, sem eru jafnvel uppkomin, og er því ekki tilbúinn í þann „pakka“ aftur.
Yngri makinn getur verið á hátindi ferils síns á meðan sá eldri er farinn að huga að eftirlaunaárunum.
Þá getur neikvætt álit annarra haft niðurrífandi áhrif á sambandið.
Sambönd þar sem aldursmunur er tíu ár eða meira geta vitaskuld blómstrað og einkum ef eftirfarandi er haft í huga.
Ef parið gengur úr skugga um að tímalína þeirra beggja sé uppi á borðum og að þau sjái framtíðina fyrir sér á svipaðan hátt.
Að sýna hvort öðru og aldrinum skilning. „Eldri makinn verður að forðast lítilsvirðingu,“ segir Patacky. „Þið eruð ólík, en þið eruð samt jafningjar.“
Þá skiptir máli að vera „forvitinn“. Í samböndum þar sem aldursmunur er mikill getur verið gott að reyna að skilja viðhorf hvors annars og leyfa aldurs- og þroskamuninum að víkka sjóndeildarhringinn.
Að finna einingu saman, þrátt fyrir hve ólíkir einstaklingarnir eru, en það getur aðeins styrkt parið gagnvart utanaðkomandi áreiti, t.d. gagnrýni og skoðunum annarra á sambandinu. Þannig stendur parið af sér mótvindinn. Því gott samband snýst ekki einungis um að einstaklingarnir séu líkir heldur að þeir finni styrk saman þrátt fyrir hve ólíkir þeir eru, segir Patacky að lokum.