Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur á sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá ungri konu sem fær regluleg ofsakvíðaköst.
Ég er 25 ára gömul og hef verið að fá ofsakvíðaköst. Ég fríka alveg út og líður eins og ég sé að deyja, hágræt og verð stjórnlaus. Hvað get ég gert í ofsakvíðakasti?
Sæl
Leitt að heyra að þú sért að fá tíð ofsakvíðaköst, þau geta verið ansi truflandi og því er mikilvægt að hafa verkfæri sem hægt er að grípa í til að komast í gegnum kvíðakastið.
Það sem ég mæli að þú gerir er að:
- Öndun: Einbeita þér að önduninni þegar þú ert í kvíðakasti. Reyndu að anda hægt og djúpt. Dragðu andann í gegnum nefið í 4 sekúndur, haltu andanum í 4 sekúndur og andaðu svo frá þér rólega í 6-8 sekúndur. Þetta getur hjálpað þér að róa þig niður og ná eðlilegum andardrætti.
- Núvitund: Taktu eftir fimm hlutum sem þú sérð, fjórum hlutum sem þú getur snert, þremur hljóðum sem þú heyrir, tveimur lyktum sem þú finnur og einni braðupplifun. Þetta hjálpar þér að koma þér aftur í núið og taka eftir því sem er hér og nú.
- Kvíðinn gengur yfir: Segðu við sjálfan þig að þú sért örugg, kvíðakast er ekki hættulegt og það mun líða hjá. Kvíðinn nær hámarki og fer svo minnkandi.
- Sitja eða leggjast niður: Stöðug staða getur hjálpað þér að róa líkamann, t.d. með því að setjast niður eða jafnvel leggjast niður.
- Leita aðstoðar ef þarf: Ef kvíðaköstin eru mjög slæm eða tíð, þá mæli ég alltaf með því að tala við fagaðila til að fá frekari aðstoð eins og t.d með hugrænni atferlismeðferð (HAM).
Einnig getur verið gott að setja upp „Hjálparáætlun við kvíðakasti“, s.s. áætlun varðandi það sem þú getur gert þegar þú færð kvíðakast, hægt er að skrifa það á blað eða punkta það inn í símann sinn.
Áætlunin gæti verið á þessa leið:
1. Átta þig á að um ofsakvíðakast sé að ræða
- Þetta er óþægilegt en ekki hættulegt
- Þetta mun líða hjá
2. Öndun
- Anda djúpt
- Draga andann inn í gegnum nefið í 4 sekúndur
- Halda andanum í 4 sekúndur
- Anda frá í 6-8 sekúndur
- Endurtaka þar til hjartsláttur róast
3. Núvitund – Finna:
- 5 hluti sem ég sé
- 4 hluti sem ég get snert
- 3 hljóð sem ég heyri
- 2 lyktir sem ég finn
- 1 bragð sem ég skynja
4. Skrifa niður setningar sem minna á staðreyndir:
- Ég er örugg
- Þetta kast mun líða hjá
- Ég hef tekist á við þetta áður og get gert það aftur
- Þetta er bara kvíði – það getur ekki skaðað mig
5. Verkfæri sem hjálpa mér:
- Hlusta á rólega tónlist eða styðjast við slökunarapp
- Finna og nota setningu sem getur róað mig. Eins og t.d. setningarnar hér að ofan.
- Ræða við einhvern sem ég treysti og finnst gott að ræða við um mína líðan.
Gangi þér sem allra best,
Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Tinnu spurningu HÉR