Siglfirðingarnir Álfhildur Haraldsdóttir og Salmann Héðinn Árnason gengu í heilagt hjónaband á fallegum vordegi í heimabæ sínum 25. maí síðastliðinn, heilum 18 árum eftir að þau byrjuðu saman. Parið var umkringt vinum og vandamönnum og umvafið stórbrotinni náttúrufegurð sjávarþorpsins er þau játuðust hvort öðru og segir Álfhildur brúðkaupsdaginn hafa verið ógleymanlegan.
Ástarsaga Álfhildar, kennara við Barnaskólann í Hafnarfirði, og Salmanns Héðins, sérfræðings í rekstri hugbúnaðarkerfa hjá Orkuveitunni, teygir sig aftur til ársins 2004. Álfhildur segir þau hjónin varla muna eftir fyrsta stefnumótinu, enda mikið vatn runnið til sjávar síðan þá.
Álfhildur og Salmann Héðinn eru búsett á höfuðborgarsvæðinu, nánar tiltekið í Kópavogi, ásamt börnum sínum tveimur, Rakel Önnu og Axel Inga.
Álfhildur er ekki í vafa um hvað vakti áhuga hennar á Salmanni Héðni: Það var útlitið.
„Já, hann var og er mjög sætur. En ég komst líka fljótt að því hversu ljúfur og skemmtilegur hann væri.“
Vissirðu snemma að þú vildir giftast honum?
„Nei, ég var ekki mikið að hugsa um það, eða alla vega ekki fyrr en við eignuðumst börn saman. Það voru allir að tala um hversu mikilvægt það væri að gifta sig þegar börn, heimili og bíll væru komin í spilin.“
Álfhildur viðurkennir þó að hafa verið orðin hálf óþolinmóð að bíða eftir hringnum.
„Já, það mætti nú alveg segja það, enda þurfti ég að bíða í 16 ár eftir hringnum,“ segir hún og hlær.
Kom bónorðið þér á óvart?
„Svona bæði og, ég var aðeins búin að pressa á hann og sagðist ætla að gifta mig innan tveggja ára og lét hann alveg vita að ef hann myndi ekki biðja mín þá þyrfti ég að fara á skeljarnar og biðja hans. Hann endaði svo á að biðja mín.“
Segðu frá bónorðinu.
„Bónorðið var ótrúlega krúttlegt, akkúrat það sem ég hafði séð fyrir mér. Hann bað mín á afmælisdaginn minn, 29. nóvember 2022. Við vorum nýbúin að borða kvöldmat, vorum bara heima í kósí, þegar börnin okkar komu til mín og afhentu mér hringabox. Salli bar upp stóru spurninguna, að vísu án þess að fara niður á hné, en þetta var ótrúlega fallegt, einstakt augnablik. Ég sagði auðvitað já, án þess að hika, og var í sjokki allt kvöldið.“
Álfhildur hafði mjög gaman af því að undirbúa brúðkaupið.
„Já, þetta var mjög skemmtilegt. Ég var alveg búin að skoða dagsetningar, vel áður en bónorðið kom til sögunnar, og áttum við því nokkuð auðvelt með að ákveða brúðkaupsdaginn, enda vildum við gifta okkur á Siglufirði, það kom ekkert annað til greina. Formlegur undirbúningur fór á fullt rétt um ári fyrir brúðkaupið. Mér fannst undirbúningurinn mjög skemmtilegur og ég eyddi miklum tíma í að pæla í hlutunum, enda hrifin af smáatriðum.“
Hvað var mest krefjandi við undirbúninginn?
„Ætli það hafi ekki verið gestalistinn, það var ótrúlega erfitt að skera niður. Við eigum bæði stórar fjölskyldur og erum rík af vinum, en við gátum því miður ekki boðið öllum.“
Álfhildur fann brúðarkjólinn í fyrstu brúðarmátuninni.
Hvernig gekk að finna kjólinn?
„Eiginlega bara betur en ég þorði að vona. Ég var með ákveðna hugmynd, vissi alveg í hverju ég vildi vera, en ég var ekki komin með kjólinn og vissi ekki alveg hvar hann var að finna. Ég var búin að þræða hverja kjólasíðuna á fætur annarri á veraldarvefnum en ákvað svo að bóka kjólamátun hjá Loforði og fór með mömmu, tengdamömmu og systrum mínum til að máta og athuga hvort sniðið hentaði mér.
Ég mátaði nokkra kjóla, einn af þeim hitti svona í mark og var í þokkabót á afslætti, það gerði hann enn fallegri. Þannig að, já, ég sló bara tvær flugur í einu höggi og gekk út með draumakjólinn, sem ég átti alls ekki von á.“
Hvernig leið þér dagana fyrir brúðkaupið, var eitthvert stress eða spenna?
„Mér leið vel en ég fann alveg fyrir spennu og stressi, enda stór stund. Svefninn var í smá rugli og hugurinn var úti um allt, það var erfitt að einbeita sér að einu verkefni í einu. Ég sá mikið um undirbúninginn ein en rúmri viku fyrir brúðkaupsdaginn fékk ég heilmikla hjálp frá fjölskyldu og nánustu vinum. Litla systir mín, hún Oddný Halla, tók á sig hlutverk „brúðkaupsskipuleggjara“ án þess að við bæðum hana um það. Hún tók algjörlega yfir, sem var ómetanlegt, þegar við hjónin innrituðum okkur á hótelið daginn fyrir brúðkaupsdaginn. Við bókuðum þrjár nætur á Sigló Hótel, daginn fyrir brúðkaupið og daginn eftir, sem ég hefði aldrei viljað sleppa.“
Aðspurð segir Álfhildur brúðkaupdaginn ógleymanlegan og dag sem hún væri alveg til í að upplifa aftur.
Segðu frá brúðkaupsdeginum
„Brúðkaupsdagurinn var ólýsanlegur. Við fengum gjörsamlega galið veður, hitinn var í kringum 18 gráður og sólin skein á heiðbláum himni. Við vorum með smá áhyggjur af veðrinu, en helgina áður var stormur og snjókoma. Það er óhætt að segja að við duttum í lukkupottinn.
Byrjunin á deginum var nokkuð hefðbundin en dagurinn hófst með undirbúningi. Ég var á Sigló Hóteli með mínum nánustu, skálaði í kampavíni fyrir hádegi, og Salli hafði sig til heima hjá fjölskyldu sinni.
Athöfnin hófst kl. 14:11 í Siglufjarðarkirkju. Það var yndisleg stund, falleg tónlist, frábær prestur og mikið hlegið. Að lokinni athöfn fórum við ásamt börnunum okkar í myndatöku, keyrðum um bæinn og stilltum okkur upp á nokkrum af fallegustu stöðum bæjarins. Veislan var haldin í brugghúsinu Segli 67, sem er í eigu fjölskyldu minnar. Bestu vinir okkar voru veislustjórar og stóðu sig prýðilega vel. Við borðuðum góðan mat, hlustuðum á skemmtilegar ræður og leyfðum okkur bara að njóta með vinum og fjölskyldu. Kvöldið endaði svo með alvöru sveitaballi. Það er ekki hægt að segja annað en að brúðkaupsdagurinn hafi endað á frábærum nótum.“
Var dagurinn eins og þú bjóst við?
„Já, og miklu meira en það. Ég væri sko til í að upplifa þennan dag aftur, eða þessa helgi. Fjörið hófst nefnilega á föstudagskvöldinu. Við buðum öllum í bjórsmakk í Segul 67 sem reyndist mjög skemmtileg viðbót við stóra daginn. Þar fengu gestir tækifæri til að hittast, blanda geði og að sjálfsögðu smakka góða bjóra. Þetta var ótrúlega gaman og minnkaði stressið til muna.“
Hvernig ætlið þið að fagna fyrsta brúðkaupsafmælinu?
„Það er ekkert sérstakt planað, alla vega ekki eins og er. Ég veit bara að hann Salli minn er búinn að bóka golfferð erlendis með vini sínum og verður þar á deginum sjálfum. Ætli við skálum ekki bara í góðu rauðvíni þegar hann kemur heim.“