Sumarið er tími ástarinnar og hinar björtu sumarnætur bjóða upp á stemningu sem hvergi er að finna annars staðar í heiminum. Það er því ekki skrýtið að fólk vilji láta innmúra ást sína í birtu og yl með fuglasöng í bakgrunni.
Flestir gera það eftir nokkurra ára ástarsamband eða þegar reynt hefur aðeins á sambandið. Það getur verið heilmikið mál að skipuleggja brúðkaup. Það kostar peninga að gifta sig ef slá á upp stórri veislu og það er mikilvægt að tilvonandi hjónin séu nokkuð sammála um í hvað eigi að eyða og hvað eigi að spara. Hverjum eigi að bjóða og þar fram eftir götunum. Hjónaband er í raun samningaviðræðnalest án Ástráðs Haraldssonar sáttasemjara. Hjón þurfa á hverjum degi að taka ákvarðanir sem þurfa að vera í fullu samráði og í sátt.
Ég er svo lánsöm að hafa fundið ástina og gifst henni á fallegum sumardegi fyrir nokkrum árum. Þótt ástin sé sterk og ég viti að hann myndi í alvöru ganga inn í brennandi hús til að bjarga lífi mínu, þá sýður stundum upp úr. Sem er í raun mjög ósanngjarnt af minni hálfu þar sem hann hefur reynst mér betri en enginn frá fyrsta degi sambandsins.
Um daginn brjálaðist ég yfir litlum og ómerkilegum hlut sem gerði það að verkum að ég gólaði á hann í talskilaboðum. Sem er óvanalegt. Ég þoli ekki talskilaboð og opna þau yfirleitt ekki ef mér eru send slík skilaboð. Hann var ekki ánægður með þessa sendingu og þegar mér var runnin reiðin spurði hann mig hvort við gætum fækkað þessum rifrildum eitthvað. Hann var búinn að reikna það út að þrisvar á ári fari allt á hliðina á milli okkar.
„Meðalaldur fólks er 83 ár. Ef við erum lánsöm eigum við eftir að eiga 30 góð ár saman og ef við rífumst heiftarlega þrisvar á ári þá gerir það 90 skipti í heildina. Ertu ekki sammála mér um að við þyrftum að reyna að fækka þessum skiptum?“ sagði hann og tók utan um mig.
Auðvitað var ég sammála því. Það er ekkert eins glatað og að vera upp á kant við leiðtoga lífsins.
Þegar búið var að setja rifrildi síðasta áratugar upp í graf kom í ljós að rifrildi aukast þegar streita fer yfir hættumörk vegna vinnu. Rifrildi snarminnka í fríum og þegar við fáum tíma til að vera tvö ein í friði. Reyndar hefur rifrildum farið fækkandi með árunum. Ætli tíminn hjálpi fólki ekki að skilja hvort annað, ef karl getur einhvern tímann skilið konu og öfugt.
Reynslan hefur að minnsta kosti kennt mér að oft er betra að þegja. Sumt sem gerist er svo mikið smámál að það er betra að minnast alls ekki á það. Eins og til dæmis þegar maðurinn minn fékk andlitskremið mitt lánað til að bera á þurra fætur og fór svo úr hjónarúminu inn á bað með þeim afleiðingum að leifarnar af andlitskreminu stimpluðust við gólfið með fallegum fótsporum. Þetta gerðist um páskana og ég ákvað að vera ekkert að minnast á þetta. Stuttu síðar voru andlitskremafótsporin horfin af parketinu. Hann hafði komið auga á þetta sjálfur, enda með nokkuð góða sjón.
Þegar páskatertan, sem ég hafði varið drjúgum tíma í að baka, rann út af kökudiski og beint í gólfið og ég varð miður mín sagði hann að þetta skipti engu máli. „Við þurfum engan eftirrétt. Erum við ekki búin að borða nóg af súkkulaði?“
Það sem ég hef lært er að hjón þurfa sinn eigin tíma þar sem skemmtidagskrá er engin. Fólk þarf oft meiri tíma til að anda – ekki ólíkt öllum Hjallastefnubörnunum sem hafa kjarnað sig í gegnum tíðina. Allavega ef markmiðið er að fækka rifrildum næstu 30 ára um 47% eða svo.