Vitað er að kynlíf fólks er misjafnt og að konur eiga oftar en ekki erfitt með að fá það með öðrum. Rannsóknir sýna að konur fá fullnægingu í aðeins 30% tilfella þegar þær stunda bólfimi með öðrum en í 92% tilfella þegar þær eru einar.
Margir eiga það til að láta hugann reika eða truflast þegar stundað er kynlíf með öðrum sem gerir það að verkum að erfiðara er að fá það.
Læknirinn Anna Hushlak og Billie Quinlan hafa búið til appið Ferly og gefið út bókina Turn Yourself On, sem leiðarvísir um það hvernig má umbreyta sambandi manns við kynlíf og hjálpa fólki að tengjast sjálfu sér betur og finna út hvað virkar og hvað virkar ekki fyrir það.
„Okkur er kennt að læra inn á líkama annarra áður en við einbeitum okkur að eigin líkama. Þetta á einkum við um konur, þeim er ekki kennt að gott kynlíf byrjar hjá manni sjálfum. Maður þarf að vita hvað kveikir í manni og það bætir allt kynlíf. Þá skiptir máli að geta sagt hvað það er sem maður vill fá út úr kynlífinu. Samskipti eru mjög mikilvæg,“ segir Hushlak í viðtali við The Stylist.
„Kynlíf er meira en bara kynlíf. Það snýst líka um hver maður er og hver sjálfsvirðing manns er. Kynheilsa snýst um líkamlega heilsu sem og tilfinningalega og andlega heilsu. Margir sjá kynlíf samt ekki í þessu ljósi og margir upplifa skömm tengda kynlífi.“
„Það að vita hvað æsir mann er á manns eigin ábyrgð og valdeflir mann. Maður verður öruggari og færari,“ bætir Quinlan við.
Það er til dæmis gott að hafa það hugfast að til séu þrjár gerðir löngunar sem tengjast hvatvísi, svörun og samhengi.
„Hvatvísin er eins og ljósrofi sem kviknar á. Maður finnur til greddu án nokkurs fyrirvara eða beinnar örvunar. Þetta sjáum við mikið í klámmyndum og samfélaginu og fær okkur til þess að trúa því að það eigi að vera hægt að kveikja á okkur fyrirvaralaust eins og tæki sem er síður en svo málið þegar kemur að kynlífi kvenna.“
„Löngun sem tengist svörun á við um það þegar maður þarf að sjá, lesa eða heyra eitthvað til þess að örva mann. Forleikurinn skiptir þar höfuð máli.“
„Löngun sem snýr að samhengi á við um þá sem örvast í ákveðnu umhverfi. Þegar þau upplifa að umhverfið sé öruggt og stöðugt þá geta þau sleppt af sér beislinu. Mörgum finnst t.d. ekki æsandi tilhugsun að stunda kynlíf þegar það á eftir að taka til.“
„Byrjaðu smátt og búðu til lista yfir allt sem þér líkar og líkar ekki. T.d. þegar ég er leið þá þarf ég þetta... þegar ég er spennt þá þarf ég þetta o.s.frv. Þegar maður er með grunnþarfir sínar á hreinu þá færir maður sig út í eitthvað nákvæmara eins og t.d. „þegar ég á erfitt með að hafa frumkvæði að kynlífi þá er það þetta sem hjálpar að koma mér í gírinn eða þegar ég er óörugg með líkamann þá vil ég láta snerta mig svona. Þessi æfing hjálpar okkur síðar til þess að tjá öðrum hvað við viljum í kynlífinu.“
„Reyndu einnig að bera kennsl á það sem er letjandi og hvetjandi. Finndu til allt sem vekur hjá þér kenndir og punktaðu þær niður. Kannski finnst þér erfitt að stunda kynlíf seint á kvöldin og þú ferð að hafa áhyggjur af því að ná ekki gæðasvefni. Kannski er þá betra að stunda kynlíf á morgnana.“
„Þá má ekki vanmeta góðar ástarsögur, hljóðbækur og klám. Þannig færðu hugmyndir og leyfir huganum að reika og kanna nýjar slóðir í öruggu rými án þess að þurfa endilega að framkvæma hugmyndirnar. Kannski örvastu af tilhugsuninni um að vera með mörgum á sama tíma en myndir ekki endilega vilja gera það en það er spennandi og í lagi að leyfa sér að fantasera um það.“
„Streita dregur úr allri kynlífslöngun og kemur í veg fyrir að við náum að örvast. Þegar svo er er mikilvægt að tileinka sér núvitund. Finna leiðir til þess að vera í núinu. Ein góð leið er að kortleggja líkama sinn til þess að tengjast honum. Draga skal djúpt andann og hlusta á líkamann. Hvaða staðir líkamans tengjast nautn? Hvað lætur þér líða vel og finna til rósemdar? Eru einhver svæði sem þú tengir við áföll? Þá er hægt að nota eigin fingur og leita að þessum ánægjustöðum á líkamanum. Lykillinn felst í því að finna hvernig líkamanum líður.“