Ástarsaga Önnu Margrétar Guðjónsdóttur og Kristins Ágústs Friðfinnssonar er hjartnæm og hrífandi og teygir sig tæp 50 ár aftur í tímann, eða þegar þau kynntust í bíl á leið á dansleik og skemmti- og veitingastaðnum Silfurtunglinu, sem þá var og hét, árið 1978.
Parið gekk í hjónaband í lok þess sama árs, þann 30. desember 1978, og saman hafa þau gengið um lífsins veg og átt blessunarríkt líf.
Anna Margrét hjúkrunarfræðingur og Kristinn Ágúst, fyrrverandi sóknarprestur, sáttamiðlari og fyrirlesari, hafa komið sér upp skemmtilegri hefð en á tíu ára fresti stilla þau sér upp og endurgera brúðkaupsmyndina sína.
Hvað heillaði í fari hvort annars?
„Mér fannst hún svo gullfalleg að ég varð orðlaus, endanlega bræddi brosið mig og svo var hún svo skemmtileg,“ segir Kristinn. ,,Ég fann strax að hann var traustur, skemmtilegur og vel gefinn,“ svarar Anna Margrét.
Hvað voruð þið búin að vera lengi saman þegar þið trúlofuðust?
„Við vorum búin að vera saman í fimm mánuði þegar við trúlofuðum okkur í kvöldhúmi fallegs júlídags 1978 í garðinum við hvítu márísku höllina í Tívolí í Kaupmannahöfn. Síðan er staðurinn okkur heilagur reitur og við vitjum hans þegar við erum í borginni við sundið. Það er gott að eiga hann vísan og hann á líka ráðandi eignarhlut í okkur.“
Kom bónorðið á óvart?
„Við vorum orðin svo nátengd að þetta gerði sig sjálft. Ekkert var sjálfsagðara en að koma formi á ástina. Hún var komin til að vera.“
Hvernig var brúðkaupsdagurinn?
„Hann var fylltur bæði spennu og sælu. Í endurminningunni er bjarmi yfir þessum degi.“
Hvað stóð upp úr?
„Að við vorum allt í einu umvafin vinum, ættingjum og gullfallegum söng Háskólakórsins. Samfélag og tengsl hafa síðan reynst okkur haldbestu bökunarefnin í hamingjubakstrinum.“
Blaðamaður varð að sjálfsögðu að forvitnast um lykilinn að langlífu hjónabandi.
„Já, það er þolinmæði, sameiginleg áhugamál, uppbyggileg skoðanaskipti, húmor, ást án skilyrða og að vera ekki með sjálfan sig á heilanum.“
Vigfús Sigurgeirsson, ljósmyndari og kvikmyndatökumaður, á heiðurinn af brúðkaupsmyndinni, en hún var tekin á heimili foreldra Önnu Margrétar í Bakkagerði 1 að lokinni hjónavígslunni.
Hver er hugmyndin á bak við að taka brúðkaupsmyndina á tíu ára fresti og á sama stað?
„Með því minnum við okkur rækilega á heit okkar hvors gagnvart öðru í Dómkirkjunni í lok desember 1978 og rifjum upp gleðidagana í faðmi vina og ættingja.“
Nú hafið þið endurnýjað brúðkaupsheitið einu sinni í kirkjunni. Af hverju ákváðuð þið að gera það?
„Við höfðum staðið í þroskandi ölduróti eins og gengur og gerist í þessu lífi. Fjölskyldan hafði gengið í gegnum erfið veikindi og svo þurftum við að líða fyrir afdrifarík mistök kirkjunnar. Þó þetta hafi ekki gerst á vakt Agnesar biskups kom að því að hún með formlegum hætti baðst afsökunar fyrir hönd þjóðkirkjunnar.
Í þessum aðstæðum vildum við enn og aftur hlýða á boðskap trúarinnar og strengja þess heit í votta viðurvist að ganga saman og haldast í hendur hvað svo sem biði okkar. Það reyndist sannarlega vel.“
Stefnið þið að því að endurnýja heitin aftur?
„Hver veit?“