Ragnhildur Þórðardóttir, betur þekkt sem Ragga nagli, fer ekki leynt með það hver á afmæli í dag. Eiginmaður hennar, Snorri Steinn Þórðarson arkitekt, fagnar fimmtugsafmæli sínu í dag og birti „naglinn“ langa færslu á Facebook-síðu sinni til heiðurs afmælisbarninu.
Ragnhildur og Snorri Steinn hafa verið saman um árabil og eiga margt sameiginlegt, en hjónin elska fátt meira en að ferðast og reyna að fara í eina stóra ferð, helst á nýjar og framandi slóðir, á hverju ári.
„Naglabóndinn er fimmtugur í dag!
Naglinn hefur foreldra hans grunaða að hafa búið hann til í petrídisk á tilraunastofu, því hann er dásamlegasta eintak af mannveru og búinn einstökum mannkostum.
Alltaf glaður. Þolinmóður. Traustur. Vinarækinn. Stundvís. Samviskusamur. Traustur. Fyndinn. Hlýr. Rómantískur. Handlaginn.
Stórkostlega flinkur arkitekt sem hefur hannað meistaraverk bæði á Íslandi og í Danmörku.
Ræktar vinanetið sitt af alúð.
Hallmælir aldrei nokkrum manni.
Aldrei afbrýðissamur eða öfundsjúkur.
Aldrei reiður.
Stoltur af konu sinni og samgleðst í velgengni en styður í mótvindi.
Það eru forréttindi að eldast og þroskast saman í gegnum lífið og fagna hverju ári og hverjum áratug.
Til hamingju með afmælið, ástin mín,“ skrifar Ragga.
Smartland óskar afmælisbarninu hjartanlega til hamingju með stórafmælið.