Narsissismi er öfgakennd sjálfhverfa, að því marki að einstaklingurinn hunsar þarfir allra í kringum sig. Þótt hver og einn geti hegðað sér á narsissískan máta af og til, virða sannir narsissistar þarfir annarra og tilfinningar mjög oft að vettugi. Þeir einfaldlega skilja ekki áhrifin sem hegðun þeirra hefur á aðra.
Á vef Web MD, sem veitir fréttir og upplýsingar um heilsu og velferð, lyf og heilbrigðisþjónustu, er narsissisma gerð góð skil.
Þar segir að narsissismi geti verið ákveðin einkenni en einnig hluti af stærri persónuleikaröskun (NPD). „Ekki eru allir narsissistar með narsissíska persónuleikaröskun þar sem narsissismi er litróf.“
Í greininni segir að narsissismi sé ekki persónugalli heldur geðröskun og fólk með slíka röskun getur ómögulega átt ánægjuleg sambönd. Það er oft heillandi og vingjarnlegt til að byrja með og passar sig á að sýna ekki neikvæða hegðun strax, sérstaklega í samböndum. Narsissistar umkringja sig fólki sem nærir egóið þeirra og byggja upp sambönd til að styrkja hugmyndir sínar um sjálfa sig.
Það fæðist enginn narsissisti og eru orsakir þessarar röskunar ekki að fullu kunnar. Hins vegar, líkt og með aðrar geðraskanir, er hægt að tengja hana við umhverfið.
„Börn sem eru hvött til að trúa því að þau séu óvenjuleg og eigi alltaf það besta skilið, jafnvel á kostnað annarra, geta þróað með sér narsissíska persónuleikaröskun. Eiginleikar eins og sjálfstraust eru verðlaunaðir þegar þau vaxa úr grasi, en eiginleikar eins og samkennd eru það ekki. Áföll eða vanræksla í æsku geta einnig leitt til narsissisma.“
Samkvæmt greininni er það þekkt að narsissistar sæki sér yfirleitt ekki aðstoðar og hægt er að taka eftir ákveðinni hegðun hjá fólki sem er típýsk fyrir narsissista.
Að vera réttindameiri en aðrir. Algengt merki um að einstaklingur sé narsissisti er að hann trúir að hann sé æðri öðrum og eigi rétt á sérstakri meðferð. Narsissistinn trúir að aðrir eigi að beygja sig undir langanir hans og óskir og að reglur eigi ekki við um hann.
Stjórnsemi. Annað einkenni narsissisma er stjórnandi hegðun, sem oft kemur aftan að fólki, því í byrjun reynir narsissistinn að þóknast þér og heilla þig. Þegar líður á sambandið fer allt að snúast um þarfir narsissistans. Hann reynir einnig að halda fólki í fjarlægð til að viðhalda stjórn. Hann notar fólk til að fá eitthvað fyrir sjálfan sig.
Þörf fyrir aðdáun. Narsissistinn hefur stöðuga þörf fyrir hrós eða aðdáun og þarf sífellda staðfestingu frá öðrum. Hann montar sig oft á afrekum sínum til að fá viðurkenningu og með slíkri aðdáun er egóið hans nært.
Skortur á samkennd. Narsissistinn vill ekki eða getur ekki sýnt þörfum, löngunum eða tilfinningum annarra tillitssemi og skortir samkennd með öðru fólki, sem gerir honum einnig erfitt fyrir að taka ábyrgð á eigin hegðun.
Hroki. Narsissistinn upplifir sjálfan sig sem æðri öðrum. Hann getur orðið dónalegur eða ofbeldisfullur þegar hann fær ekki þá meðferð sem honum finnst hann eiga skilið. Hann gæti talað eða látið dónalega gagnvart þeim sem hann telur óæðri honum sjálfum.