Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu og umsjónarmaður Meðvirknipodkastsins svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá konu sem veltir fyrir sér hvort kærastinn sér sjálfsdýrkandi og hvernig hún geti lokið sambandinu.
Sæll.
Kærastinn minn sýnir mörg merki um sjálfsdýrkanda, eða allavega „manipulative behaviour“, beitir andlegu ofbeldi, mismikið þó og stundum er hann algjör draumur. Rauðu flöggin voru fjölmörg strax í upphafi sambandsins en ég hunsaði þau. Nú sé ég þetta skýrt og greinilega og hef rætt þetta við hann. Hann fer alltaf sama hringinn, lofar að bæta sig og fá aðstoð, kæfir mig í ást og loforðum, svo fer allt á sama veginn. Ég er mjög meðvirk og trúi honum í hvert skipti. Nema núna. Hvernig kemst ég út úr þessu án þess að skaðast meira? Ég er tilbúin að fara frá honum og trúi ekki orði sem hann segir. En ég er skíthrædd við að fara. Tek það fram að hann hefur aldrei lagt á mig hendur og er alls ekki líklegur til þess.
Kær kveðja,
FH
Góðan daginn og takk fyrir að senda þessa fyrirspurn.
Það getur auðvitað enginn sett sig nákvæmlega í þín spor en þessi hegðunarmynstur eru mjög vel þekkt. Það sem á ensku kallast „manipulative“ hegðun felur meðal annars í sér að viðkomandi nota lygar og ýkjur sér í hag til þess að láta hlutina líta öðru vísi út heldur en þeir eru í raun og veru.
Í mörgum tilvikum er notast við hótanir og gaslýsingar þar sem snúið er útúr því sem hefur gerst, viðkomandi neitar jafnvel að hafa sagt eða gert eitthvað sem hann eða hún sannarlega gerði, eða sagði, og snýr svo allri sök yfir á aðra.
„Manipulative“ hegðun felur líka í sér að misnota tilfinningar annarra, til dæmis að búa til samviskubit, skömm eða ótta hjá öðrum en sveiflast svo yfir í að sýna ástaratlot og góðmennsku. Þessir aðilar eru þar af leiðandi bæði að valda sársauka en á sama tíma að hugga þann sem verður fyrir honum. Þessu hegðunarmynstri fylgir líka að viðkomandi notar það sem kallast ástarsprengjur, lofar öllu fögru, segir alla réttu hlutina og gefur jafnvel veglegar gjafir til þess að rugla fórnalambið í rýminu og koma í veg fyrir að það átti sig á því sem er að gerast. Enn eitt atriði sem getur einkennt svona hegðun er að viðkomandi gerir sig að fórnalambi og hóta því jafnvel að skaða sig eða að valda einhverjum miklum leiðindum ef makinn setur skýr mörk og segist jafnvel ætla að fara úr sambandinu. Þessar hótanir geta auðveldlega valdið makanum miklum áhyggjum og þar sitja sumir fastir, logandi hræddir við að taka ákvarðanir og skref sem þeir finna innst inni að þeir ættu að taka.
Þegar þú spyrð; „hvernig kemst ég út úr þessu án þess að skaðast meira“ þá velti ég fyrir mér hvort þú ert að tala um að komast úr sambandinu eða úr þessum hegðunarmynstrum sem þú ert að lýsa. Hvort sem það væri þá er mikilvægt að hafa eftirfarandi atriði í huga:
1. Maður á ekki að sætta sig við ofbeldi af neinu tagi.
2. Maður á að setja skýr mörk með því að segja frá því hvað maður sættir sig við og hvað ekki, hvað maður vill og hvað ekki.
3. Það er mikilvægt að ákveða hvaða afleiðingar það hefur ef mörkin eru ekki virt og standa við þær ákvarðanir.
4. Þegar um ofbeldi er að ræða þá liggur ábyrgðin alltaf hjá gerendum ofbeldis.
5. Mundu að þú berð ekki ábyrgð á tilfinningum annarra.
Hver sem niðurstaðan þín verður þá mæli ég eindregið með faglegri aðstoð til þess að A: styrkja mörkin þín, B: hjálpa þér að sjá í gegnum afneitunina sem getur auðveldlega skapast í svona aðstæðum og C: minnka líkurnar á að þú finnir þig aftur í þessum sporum.
Gangi þér allt í haginn,
Valdimar Þór Svavarsson.
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimar spurningu HÉR.