Hvernig er hægt að komast úr sambandi með sjálfsdýrkanda?

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi svarar spurningum lesenda. Hann er til …
Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi svarar spurningum lesenda. Hann er til vinstri á myndinni. Samsett mynd

Valdi­mar Þór Svavars­son ráðgjafi hjá Fyrsta skref­inu og um­sjón­ar­maður Meðvirknipod­kasts­ins svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hann spurn­ingu frá konu sem velt­ir fyr­ir sér hvort kærast­inn sér sjálfs­dýrk­andi og hvernig hún geti lokið sam­band­inu. 

Sæll.

Kærast­inn minn sýn­ir mörg merki um sjálfs­dýrk­anda, eða alla­vega „manipu­lati­ve behavi­our“, beit­ir and­legu of­beldi, mis­mikið þó og stund­um er hann al­gjör draum­ur. Rauðu flögg­in voru fjöl­mörg strax í upp­hafi sam­bands­ins en ég hunsaði þau. Nú sé ég þetta skýrt og greini­lega og hef rætt þetta við hann. Hann fer alltaf sama hring­inn, lof­ar að bæta sig og fá aðstoð, kæf­ir mig í ást og lof­orðum, svo fer allt á sama veg­inn. Ég er mjög meðvirk og trúi hon­um í hvert skipti. Nema núna. Hvernig kemst ég út úr þessu án þess að skaðast meira? Ég er til­bú­in að fara frá hon­um og trúi ekki orði sem hann seg­ir. En ég er skít­hrædd við að fara. Tek það fram að hann hef­ur aldrei lagt á mig hend­ur og er alls ekki lík­leg­ur til þess.

Kær kveðja,

FH


Góðan dag­inn og takk fyr­ir að senda þessa fyr­ir­spurn.

Það get­ur auðvitað eng­inn sett sig ná­kvæm­lega í þín spor en þessi hegðun­ar­mynst­ur eru mjög vel þekkt. Það sem á ensku kall­ast „manipu­lati­ve“ hegðun fel­ur meðal ann­ars í sér að viðkom­andi nota lyg­ar og ýkj­ur sér í hag til þess að láta hlut­ina líta öðru vísi út held­ur en þeir eru í raun og veru.

Í mörg­um til­vik­um er not­ast við hót­an­ir og gas­lýs­ing­ar þar sem snúið er útúr því sem hef­ur gerst, viðkom­andi neit­ar jafn­vel að hafa sagt eða gert eitt­hvað sem hann eða hún sann­ar­lega gerði, eða sagði, og snýr svo allri sök yfir á aðra.

„Manipu­lati­ve“ hegðun fel­ur líka í sér að mis­nota til­finn­ing­ar annarra, til dæm­is að búa til sam­visku­bit, skömm eða ótta hjá öðrum en sveifl­ast svo yfir í að sýna ástaratlot og góðmennsku. Þess­ir aðilar eru þar af leiðandi bæði að valda sárs­auka en á sama tíma að hugga þann sem verður fyr­ir hon­um. Þessu hegðun­ar­mynstri fylg­ir líka að viðkom­andi not­ar það sem kall­ast ástar­sprengj­ur, lof­ar öllu fögru, seg­ir alla réttu hlut­ina og gef­ur jafn­vel veg­leg­ar gjaf­ir til þess að rugla fórna­lambið í rým­inu og koma í veg fyr­ir að það átti sig á því sem er að ger­ast. Enn eitt atriði sem get­ur ein­kennt svona hegðun er að viðkom­andi ger­ir sig að fórna­lambi og hóta því jafn­vel að skaða sig eða að valda ein­hverj­um mikl­um leiðind­um ef mak­inn set­ur skýr mörk og seg­ist jafn­vel ætla að fara úr sam­band­inu. Þess­ar hót­an­ir geta auðveld­lega valdið mak­an­um mikl­um áhyggj­um og þar sitja sum­ir fast­ir, log­andi hrædd­ir við að taka ákv­arðanir og skref sem þeir finna innst inni að þeir ættu að taka.

Þegar þú spyrð; „hvernig kemst ég út úr þessu án þess að skaðast meira“ þá velti ég fyr­ir mér hvort þú ert að tala um að kom­ast úr sam­band­inu eða úr þess­um hegðun­ar­mynstr­um sem þú ert að lýsa. Hvort sem það væri þá er mik­il­vægt að hafa eft­ir­far­andi atriði í huga:

1. Maður á ekki að sætta sig við of­beldi af neinu tagi.

2. Maður á að setja skýr mörk með því að segja frá því hvað maður sætt­ir sig við og hvað ekki, hvað maður vill og hvað ekki.

3. Það er mik­il­vægt að ákveða hvaða af­leiðing­ar það hef­ur ef mörk­in eru ekki virt og standa við þær ákv­arðanir.

4. Þegar um of­beldi er að ræða þá ligg­ur ábyrgðin alltaf hjá gerend­um of­beld­is.

5. Mundu að þú berð ekki ábyrgð á til­finn­ing­um annarra.

Hver sem niðurstaðan þín verður þá mæli ég ein­dregið með fag­legri aðstoð til þess að A: styrkja mörk­in þín, B: hjálpa þér að sjá í gegn­um af­neit­un­ina sem get­ur auðveld­lega skap­ast í svona aðstæðum og C: minnka lík­urn­ar á að þú finn­ir þig aft­ur í þess­um spor­um.

Gangi þér allt í hag­inn,

Valdi­mar Þór Svavars­son. 

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent Valdi­mar spurn­ingu HÉR. 

 

 

Kona lýsir aðstæðum í sambandi og leitar ráða.
Kona lýs­ir aðstæðum í sam­bandi og leit­ar ráða. Christian Bu­ehner/​Unsplash
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda