Það er afar mismunandi hvernig fórnarlömb kynferðisofbeldis upplifa vanlíðanina sem fylgir slíkri árás. Þegar flestir ímynda sér að fórnarlambið takist á við afleiðingarnar með því að afneita kynlífi þá er það ekki endilega rétt. Sum fórnarlömb eru sögð fá enn meiri áhuga á kynlífi í kjölfar ofbeldisins. Ekkert er rétt eða rangt í þeim efnum.
Á vef Cosmopolitan er grein eftir Syedu Khaulu Saad sem er sjálf þolandi kynferðisofbeldis, varð fyrir því bæði sem barn og á fullorðinsaldri, en hún segist hafa fengið ofuráhuga á kynlífi eftir ofbeldið sem tók mörg ár að ná jafnvægi.
„Eftir árásirnar leitaði ég í kynlíf og mikið af því. Eftir að hafa lifað af svona ofbeldisfulla og stjórnlausa kynlífsreynslu áður, hélt ég að eina leiðin til að endurheimta tilfinningu mína fyrir stjórn væri með því að taka það sem særði mig og gera það að mínu eigin.“
Saad segist hafa öðlast styrk einfaldlega með því að opinbera að hún gæti stundað kynlíf og þótt það kunni að virðast ákveðin mótsögn þá segja sérfræðingar þetta algeng viðbrögð við kynferðisofbeldi.
„Kynlíf með samþykki getur verið leið fyrir þolendur kynferðisofbeldis til að staðfesta tilfinningu sína fyrir stjórn yfir lífi sínu og líkama,“ segir meðferðarfræðingurinn Stefani Goerlich. „Að hafa vald til að velja hvenær og með hverjum kynlíf er stundað, vitandi að hægt sé að segja viðkomandi að stoppa og að sú beiðni verði virt, getur verið stór hluti af bataferlinu fyrir suma þolendur.“
„Og það var þannig í mínu tilfelli,“ segir Saad og bætir við að þráhyggja hennar fyrir kynlífi hafi bara aukist þegar hún fór í háskóla og taldi hún að kynlíf væri það sem léti henni líða best, jafnvel þótt það væri stundað með röngu fólki.
Þegar hún var farin að sækja í einstaklinga sem beittu hana ofbeldi áttaði hún sig á að kynhvöt hennar þjónaði ekki lengur þeim tilgangi að vera styrkur heldur var farin að særa hana.
Eftir að hafa ráðfært sig við sálfræðing dró Saad sig út úr kynlífsiðkun og fór að stunda sjálfsfróun, á þann hátt að hún gæti lært að elska líkama sinn á ný.
Í grein sinni segir Saad að sérfræðingar séu sammála um að sjálfsfróun geti verið gagnlegt viðbragð og góð byrjun eftir kynferðislegt ofbeldi, í stað þess að fara beint í að stunda kynlíf. Saad segir að þannig lærði hún að stunda kynlíf, ekki til að öðlast staðfestingu eða viðurkenningu frá öðrum heldur til eigin ánægju.