Einar Hugi Bjarnason lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá fráskildum manni sem hætti með fyrrverandi fyrir nokkrum árum. Hann veltir því fyrir sér núna hvernig eigi að gera upp búið.
Sæll,
Ég skildi við konuna fyrir nokkrum árum. Við vorum ekki gift. Af margvíslegum ástæðum var fasteign okkar skráð á hana en við eigum hana 50/50. Hvernig getum við staðið að uppgjöri ef hún /við seljum núna?
Kveðja,
GG
Sæll,
Við sambúðarslit gildir ekki helmingaskiptaregla eins og þegar um hjón er að ræða. Engin lög gilda um fjárskipti við sambúðarslit heldur er stuðst við dómafordæmi og óskrifaðar reglur eða venjur. Meginreglan er sú að hvor sambúðaraðili um sig taki þær eignir sem það átti fyrir sambúðina og eignaðist meðan á sambúðinni stóð og hér getur skipt verulegu máli hver er skráður fyrir hvaða eign. Frá meginreglunni eru þó ýmsar undantekningar og það getur verið flókið að meta hvað á við hverju sinni. Þannig geta fjárskipti við sambúðarslit oft verið flókin og erfið.
Ef þú og fyrrum sambúðarkona þín eruð sammála að eignarhald íbúðarinnar sé raunverulega til helminga þrátt fyrir að íbúðin sé alfarið skráð eign konunnar er málið tiltölulega einfalt og unnt að leysa með fjárskiptasamningi þar sem kveðið er á um slíkt. Eignin er þá annað hvort seld og andvirði sölunnar skiptist til helminga eða annað ykkar kaupir hitt út úr eigninni á markaðsvirði ákjósanlega á grundvelli verðmats frá löggiltum fasteignasala. Ef ágreiningur er hins vegar um eignarhlutföll hvors um sig í fasteigninni vandast málið og undir þeim kringumstæðum ráðlegg ég þér að leita aðstoðar lögmanns með sérþekkingu á þessu réttarsviði.
Kveðja,
Einar Hugi Bjarnason, hæstaréttarlögmaður.
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Einari Huga og öðrum lögmönnum á Lögfræðistofu Reykjavíkur spurningu HÉR.