Mátti ráðherra segja að hlutabréfakaup væru góð fjárfesting?

Ingvi Hrafn Óskarsson lögmaður og Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra.
Ingvi Hrafn Óskarsson lögmaður og Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra. Samsett mynd

Ingvi Hrafn Óskars­son lögmaður á Lög­fræðistofu Reykja­vík­ur svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hann spurn­ingu frá manni sem spyr út í um­mæli Daða Más Kristó­fers­son­ar fjár­málaráðherra. 

Sæll Ingvi Hrafn. 

Í aðdrag­anda útboðs hluta­fjár í Íslands­banka lýsti fjár­málaráðherra því yfir að ís­lensku bank­arn­ir væru meðal ör­ugg­ustu fjár­fest­inga. Mér þóttu þetta vera skrít­in um­mæli, líkj­ast söluræðu bíla­sala. Get­ur ráðherra sagt hvað sem er við þess­ar aðstæður, ber hann enga ábyrgð?

Pét­ur


Sæll Pét­ur

Þetta er áhuga­verð spurn­ing um flókið viðfangs­efni. Á þessu sviði gild­ir viðamikið reglu­verk sem ekki er mögu­legt með góðu móti að gera skil á þess­um vett­vangi. Þó er rétt að benda á að í tengsl­um við útboð á hlut­um í Íslands­banka var unn­in svo­kölluð út­gáfu­lýs­ing í sam­ræmi við lög nr. 14/​2020 um lýs­ingu verðbréfa sem boðin eru í al­mennu útboði. Með lög­un­um var inn­leidd reglu­gerð EES nr. 2017/​1129 um sama efni. Mark­mið þess­ara laga er að tryggja fjár­festa­vernd með full­nægj­andi og sam­ræmdri upp­lýs­inga­gjöf við al­menn útboð verðbréfa. Lýs­ingu er ætlað að veita ná­kvæm­ar og hlut­læg­ar upp­lýs­ing­ar sem geri al­menn­um fjár­fest­um kleift að taka upp­lýst ákvörðun um fjár­fest­ingu í útboði, en lýs­ing­in er háð samþykki Fjár­mála­eft­ir­lits­ins, sem yf­ir­fer hvort upp­lýs­inga­gjöf­in sam­ræm­ist þeim ríku efnis­kröf­um sem til henn­ar eru gerðar.

Ljóst er að öll upp­lýs­inga­gjöf sem veitt er í tengsl­um við útboð hluta­bréfa verður að byggj­ast á lýs­ing­unni til þess að tryggja fjár­festa­vernd. Í nefndri reglu­gerð nr. 2017/​1129, sem laga­gildi hef­ur hér á landi, er t.a.m. að finna ákvæði um aug­lýs­ing­ar í 22. gr., sem kveður á um að þær megi ekki vera rang­ar eða vill­andi. Þá kem­ur fram að 4. mgr. 22. gr. að all­ar upp­lýs­ing­ar um al­mennt útboð verðbréfa, sem sett­ar eru fram munn­lega eða skrif­lega, jafn­vel þótt ekki sé í aug­lýs­inga­skyni, skuli vera í sam­ræmi við upp­lýs­ing­arn­ar í lýs­ing­unni.

Um­mæli ráðherra falla vænt­an­lega und­ir fram­an­greint, þar sem yf­ir­lýs­ing ráðherra var gef­in eft­ir að út­gáfu­lýs­ing­in var birt og áður en útboðinu var lokið. Telj­ist um­mæl­in vill­andi eða ekki í sam­ræmi við efni út­gáfu­lýs­ing­ar gætu þau tal­ist brjóta gegn þess­um skyld­um sem á fjár­málaráðherra hvíldi sem selj­anda hluta í al­menn­um útboði. Niðurstaða um hvort þau hafi varðað við lög væri háð ít­ar­legri rann­sókn á öll­um máls­at­vik­um, þar á meðal ná­kvæmu orðalagi um­mæl­anna, sam­hengi þeirra, þeim upp­lýs­ing­um sem lágu fyr­ir í útboðslýs­ingu og öðrum gögn­um, og mati á því hvort full­yrðing­in um „ör­ugg­ustu fjár­fest­ing­ar“ hafi verið vill­andi eða ófor­svar­an­leg í ljósi þeirra krafna sem gerðar eru til upp­lýs­inga­gjaf­ar og ábyrgðar ráðherra. Um niður­stöðu slíkr­ar at­hug­un­ar er ekk­ert full­yrt hér, en mér kæmi á óvart ef leiða má af ít­ar­legri út­gáfu­lýs­ingu vegna útboðsins að fjár­fest­ing í Íslands­banka sé meðal ör­ugg­ustu fjár­fest­inga sem fyr­ir finn­ast.

Kveðja,

Ingvi Hrafn Óskars­son, lögmaður.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent Ingva Hrafni og öðrum lög­mönn­um á Lög­fræðistofu Reykja­vík­ur spurn­ingu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda