Ingvi Hrafn Óskarsson lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá manni sem spyr út í ummæli Daða Más Kristóferssonar fjármálaráðherra.
Sæll Ingvi Hrafn.
Í aðdraganda útboðs hlutafjár í Íslandsbanka lýsti fjármálaráðherra því yfir að íslensku bankarnir væru meðal öruggustu fjárfestinga. Mér þóttu þetta vera skrítin ummæli, líkjast söluræðu bílasala. Getur ráðherra sagt hvað sem er við þessar aðstæður, ber hann enga ábyrgð?
Pétur
Sæll Pétur
Þetta er áhugaverð spurning um flókið viðfangsefni. Á þessu sviði gildir viðamikið regluverk sem ekki er mögulegt með góðu móti að gera skil á þessum vettvangi. Þó er rétt að benda á að í tengslum við útboð á hlutum í Íslandsbanka var unnin svokölluð útgáfulýsing í samræmi við lög nr. 14/2020 um lýsingu verðbréfa sem boðin eru í almennu útboði. Með lögunum var innleidd reglugerð EES nr. 2017/1129 um sama efni. Markmið þessara laga er að tryggja fjárfestavernd með fullnægjandi og samræmdri upplýsingagjöf við almenn útboð verðbréfa. Lýsingu er ætlað að veita nákvæmar og hlutlægar upplýsingar sem geri almennum fjárfestum kleift að taka upplýst ákvörðun um fjárfestingu í útboði, en lýsingin er háð samþykki Fjármálaeftirlitsins, sem yfirfer hvort upplýsingagjöfin samræmist þeim ríku efniskröfum sem til hennar eru gerðar.
Ljóst er að öll upplýsingagjöf sem veitt er í tengslum við útboð hlutabréfa verður að byggjast á lýsingunni til þess að tryggja fjárfestavernd. Í nefndri reglugerð nr. 2017/1129, sem lagagildi hefur hér á landi, er t.a.m. að finna ákvæði um auglýsingar í 22. gr., sem kveður á um að þær megi ekki vera rangar eða villandi. Þá kemur fram að 4. mgr. 22. gr. að allar upplýsingar um almennt útboð verðbréfa, sem settar eru fram munnlega eða skriflega, jafnvel þótt ekki sé í auglýsingaskyni, skuli vera í samræmi við upplýsingarnar í lýsingunni.
Ummæli ráðherra falla væntanlega undir framangreint, þar sem yfirlýsing ráðherra var gefin eftir að útgáfulýsingin var birt og áður en útboðinu var lokið. Teljist ummælin villandi eða ekki í samræmi við efni útgáfulýsingar gætu þau talist brjóta gegn þessum skyldum sem á fjármálaráðherra hvíldi sem seljanda hluta í almennum útboði. Niðurstaða um hvort þau hafi varðað við lög væri háð ítarlegri rannsókn á öllum málsatvikum, þar á meðal nákvæmu orðalagi ummælanna, samhengi þeirra, þeim upplýsingum sem lágu fyrir í útboðslýsingu og öðrum gögnum, og mati á því hvort fullyrðingin um „öruggustu fjárfestingar“ hafi verið villandi eða óforsvaranleg í ljósi þeirra krafna sem gerðar eru til upplýsingagjafar og ábyrgðar ráðherra. Um niðurstöðu slíkrar athugunar er ekkert fullyrt hér, en mér kæmi á óvart ef leiða má af ítarlegri útgáfulýsingu vegna útboðsins að fjárfesting í Íslandsbanka sé meðal öruggustu fjárfestinga sem fyrir finnast.
Kveðja,
Ingvi Hrafn Óskarsson, lögmaður.
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Ingva Hrafni og öðrum lögmönnum á Lögfræðistofu Reykjavíkur spurningu HÉR.