Það er eðlilegt að ástarsambönd breytist með tímanum og að fiðrildunum í maganum fækki smám saman. En það þýðir þó ekki að ástin sé horfin, hún þarfnast líklega örlítils viðhalds. Með smá fyrirhöfn, gleði og kærleika er vel hægt að vendurvekja neistann í sambandinu.
Munið hvar þið hittust fyrst? Eða hvar þið trúlofuðust? Það getur haft góð áhrif að heimsækja staði sem tengjast fyrri stigum sambandsins. Slík heimsókn getur minnt mann á hvers vegna maður féll fyrir elskhuganum til að byrja með.
Eitt besta ráðið til að halda spennu í sambandinu er að skipuleggja leynileg stefnumót fyrir hvort annað. Hvort sem það er fínt út að borða í sparifötunum eða í kósígallanum. Óvissan og eftirvæntingin getur myndað spennu og gleði sem hjálpar til við að kynda undir ástina.
Það getur verið auðvelt að festast í hversdagsleikanum. Að prófa eitthvað nýtt saman, hvort sem það er að elda framandi rétt, skrá sig á námskeið eða plana óvænta helgarferð, getur slíkt veitt sambandinu ferskan blæ og skapað nýjar minningar sem styrkja tengslin.
Það er auðvelt að taka hvoru öðru sem sjálfsögðum hlut eftir langan tíma í sambandi. Með því að þakka fyrir smáatriðin í daglegu lífi, eins og fyrir það að henda ruslinu eða setja í uppþvottavélina, sýnirðu virðingu og kærleika sem styrkir sambandið.
Það þarf oft ekki mikið til að viðhalda neistanum. Stundum nægir lítil snerting eða augnaráð yfir kaffibollanum. Faðmist áður en þið farið út í daginn. Brostu til makans í eldhúsinu og segðu eitthvað sem fær hann til að roðna. Margt smátt gerir eitt stórt.