Ástin kviknaði snemma hjá Álfrúnu Freyju Heiðarsdóttur og Birgi Orra Ásgrímssyni, 21 árs Akureyringum sem felldu hugi saman í grunnskóla og hafa verið saman síðan.
„Við vitum eiginlega hvorugt hvernig þetta byrjaði. Við vorum bara búin að þekkjast alltaf fannst manni og síðan strax eftir grunnskóla small eitthvað og við ákváðum að kýla á þetta,“ segir Birgir um upphaf sambandsins.
„Við vorum á sama leikskóla og í sama grunnskóla og byrjuðum svo saman eftir tíunda bekk. Við vorum saman í bekk í menntaskóla og erum eiginlega í fyrsta skipti núna ekki saman í skóla. Þannig að við erum búin að þekkjast ansi lengi og búin að vera saman núna í fimm ár,“ segir Birgir og Álfrún bætir við: „Það er svona að vera Akureyringur.“
Hvernig vissuð þið að hitt væri hið eina rétta?
„Fyrir mig var það hvað við erum ólík. Við erum virkilega ólík í okkur og við virkum ofboðslega vel saman,“ segir Birgir og Álfrún tekur undir. Þau segjast hafa gjörólíka sýn á hlutina, það sé þó jákvætt þar sem þau opni sjóndeildarhring hvors annars og jafni hvort annað út.
„Ég horfi svolítið svona rökrétt á heiminn og Álfrún er með þessa tilfinningalegu innsýn inn í hlutina,“ segir Birgir. „Birgir er aðeins meira ferkantaður og ég er meira fiðrildi,“ segir Álfrún. „En gildin okkar eru þau sömu þó að við sjáum ekkert endilega sömu leiðina að þeim,“ segir Birgir.
Parið býr nú saman í Osló ásamt systur Birgis, Hebu, og hundinum Melbu. Sambúðina segja þau ganga mjög vel. „Við Heba erum auðvitað vön því að búa saman,“ segir Birgir. Hann segir mestan ágreining koma á milli hans og stelpnanna, þær séu yfirleitt sammála um hvað eigi að gera og hvernig eigi að gera það.
Hver er lykillinn að góðu sambandi, allavega í ykkar tilfelli?
„Ég segi að kunna að tala saman og vita að það sé eðlilegt, sérstaklega þegar maður er svona ungur, eins og við byrjum saman fimmtán ára, að fá rosa margar mismunandi tilfinningar. En að það sé hægt að vinna saman í gegnum allt, maður þurfi ekki alltaf að bregðast við öllu strax, það sé hægt að ræða allt og gera það saman,“ segir Birgir.
Að þekkja það hvenær hin manneskjan þarf pláss,“ segir Álfrún. „Já, akkúrat, að gefa hvort öðru pláss en á sama tíma að taka mikið pláss í lífi hvors annars,“ bætir Birgir við.
Hvort ykkar er rómantískara?
„Birgir,“ segir Álfrún og hlær. „Ég get verið rosa rómó sko,“ segir Birgir kíminn, „kaupi blóm og svona.“ Álfrún segir Birgi leggja mikið upp úr því að þau eigi gæðastundir saman. „Það er ekki hægt að sitja bara saman, það þarf alltaf að vera að gera eitthvað,“ útskýrir hún.
„Ég þarf alltaf að hafa tilgang í öllu sem ég geri og ég vil að við náum að tengjast hvort öðru eftir langan dag,“ segir Birgir.
Hverjir eru bestu kostir makans þíns?
„Birgir er mjög rómantískur og það er alltaf hann sem passar að allt sé hreint á heimilinu. Hann er snyrtipinni,“ segir Álfrún.
„Álfrún nær að draga mig, ekki beint til jarðar, en svona inni í það sem skiptir máli. Hún sýnir mér það sem skiptir raunverulega máli, að vera bara núna. Svo er líka bara svo gaman að vera með henni. Það er eitt að eiga kærustu en annað að eiga besta vin á sama tíma. Það er alltaf gaman hjá okkur og við höfum alltaf eitthvað að tala um og gera,“ segir Birgir.
Eru einhverjir hápunktar í sambandinu?
„Það er svolítið fyndið að vera búin að vera saman í fimm ár en vera samt svo ungur að maður er eiginlega bara búinn að alast upp saman,“ segir Álfrún.
„Ég held að hápunkturinn sé eiginlega bara hvað okkur líður vel að búa saman. Við erum svona tiltölulega nýflutt inn saman, við fluttum inn saman í ágúst í fyrra, og það er svo náttúrulegt fyrir okkur,“ segir Birgir.
Parið segist vera búið að finna sitt „heima“ saman í Osló. „Ég held að við séum á rosa háum punkti núna og ætlum bara að reyna að fara upp,“ segir Birgir að lokum. Framtíðin sé óráðin og björt.