Elsku Meyjan mín,
tíminn á eftir að fljúga hratt næsta mánuð og þú átt eftir að grípa hvert andartak til þess að hressa þig við. Þú verður í sterkri tengingu við Alheiminn og átt eftir að fá svo sterk hugboð. Og það sem flýgur í gegnum huga þinn að ef það er til dæmis persóna sem þú hefur ekki séð lengi þá hittirðu hana. Það virðist vera alveg sama hvaða hugboð þú færð að allt mun gerast svo snögglega í kringum þig. Þú hefur varla sagt setninguna áður en það sem þú varst að tala um birtist þér. Þú ert í þeirri tengingu að ótrúlegustu væntingar og vonir verða að veruleika.
Næstu fjórir mánuðir í lífi þínu verða svo aflmiklir, en þegar þér finnst að eitthvað sé að snúast gegn þér, vertu þá viss um að Veröldin er að stýra þér á aðrar brautir sem eru betri. Taktu því öllu með stóískri ró og láttu allan drama eiga sig. Taktu ekki þátt í því að leyfa öðrum að hella sínum vandamálum og veseni yfir þig sí og æ.
Þú ert að ná svo miklu betri tökum á lífinu og agi er lykilatriðið. Stattu við það sem þú ætlar þér og þú hefur lofað, hvort sem loforðið tengist þér eða öðrum. Þá smellur allt saman eins og endir í rómantískri ástarsögu. Alls ekki trúa öðrum fyrir þínum dýpstu leyndarmálum og sérstaklega ekki þeim sem tala illa um aðra.
Þú finnur eins og að hjarta þitt slái aðeins öðruvísi, að þú sért meira ástfangin af fjölskyldunni þinni. Og fyrir þig ef þú trúir á og ert að búast við ástinni, þá verður heilmikið að frétta áður en þessir fjórir mánuðir eru liðnir. Þú átt eftir að hagnast vel á einhverri hugmynd, verkefni eða vináttu, því það eru peningar í spilunum. Þú finnur þessa ró sem þú og við öll erum að leita að og verður miklu þakklátari fyrir allt sem er að gerast. Því þú veist að þú hefur aflið og styrkinn til að fara í gegnum lífsfarveginn.
Knús og kossar,
Sigga Kling