Desemberspá Siggu Kling er komin í loftið. Hún varar við ákveðnum dagsetningum og mælir til dæmis alls ekki með því að hrúturinn fari á djammið 15. desember og segir að steingeitin sé eins og kötturinn; hafi níu líf.
Elsku hrúturinn minn.
Það er alveg sama hvað álag brýst inn hjá þér, þú tæklar þetta allt saman. Þú mátt samt leyfa þér að hvílast og vera ekki pirraður þó þú frestir hlutum eða verkefnum. Slíkt gerist af þeirri ástæðu að þú tekur yfirleitt of mikið að þér. Þó þú komir ekki öllu í verk og getur ekki sinnt þínum nánustu elska þeir þig svo mikið að þér er alltaf allt fyrirgefið.
Þetta er búið að vera rosa mikið ár og miklar breytingar; sem sagt lífleg bíómynd sem þú ert að taka þátt í! Í desember verður töluvert fát á þér, hvatvísin kannski stundum of ríkjandi. Þú þarft alltaf að skipuleggja þig eins og þú sért fyrirtæki. Þannig skoðarðu grunninn, hverju þú getur breytt, hvað sé best fyrir þig og hver einasti dagur verður að vera skrifaður upp áður en þú leggur aftur augun. Á því tímabili ertu næmastur og færð sterkustu skilaboðin frá alheimsnetinu. Um leið og þú byrjar á þessu verður ekkert sem getur klórað þig, bitið eða hrætt. Það er ekki æfingin sem skapar meistarann heldur aukaæfingin.
Elsku besta dásamlega nautið mitt.
Þér er að takast svo vel að geta útilokað óþarfa áhyggjur og vesen. Einnig gengur þér vel að taka ekki til þín annarra manna drama eða gera drama úr því sem engu máli skiptir. Það er svolítið ríkjandi hjá þér að þú getur verið í öllum tilfinningaklasanum, bara yfir daginn. Allt er kannski stórkostlegt, svo geturðu bölvað öllu í sand og ösku eftir klukkutíma.
Tilfinningaríkur tími fer í hönd hjá þér því fjölskylda og vinir eiga svo stóran sess í hjarta þínu. Þessi tími er þér svo ofur-, ofurmikilvægur. Ansi margir í þessu stjörnumerki eru ekki hrifnir af jólunum vegna erfiðra tilfinninga sem ekki hefur verið gengið frá úr fortíðinni. Ef kvíði heilsar upp á er hann ekki út af neinu sérstöku sem er að fara að gerast. Þú þarft að gera upp málin við einhvern en mundu þó þú hafir ekki endilega rangt fyrir skaltu milda hlutina.
Það virðist vera sem þú munir breyta stemningunni yfir aðalhátíðina og þú gerir eitthvað nýtt eða öðruvísi og það verður mikill friður hjá þér. Ef þú ert tilbúinn í ástina skaltu halda eins og þú haldir um hjartað á þér og henda ástarhjartanu, loka augunum, henda því ímyndað frá þér og það mun lenda á réttum stað. Og þó þetta sé ímyndun byrjar alvöru lífsmyndin svona.
Þvílíkt fjör og þvílík gleði fyrir okkur að hafa tvíbura einhvers staðar í nálægð sinni! En þú hefur samt tvær hliðar – hina jákvæðu og hina neikvæðu. Þetta kallast ying og yang og þú þarft að blessa báðar hliðar. Gefðu sjálfum þér og öðrum þolinmæði sem þú hefur nú ekki mikið af, en það er oft hinir þolinmóðu sem bíða eftir að lífið gerist en þú ferð og nærð í lífsorkuna því þú hefur ekki þolinmæði til að bíða.
Ef þú hefur tilfinningu fyrir að síðustu vikur hafi verið að gera þér óleik í heilsu eða huga – gefðu þér bara meiri og betri tíma til að skilja af hverju þessi leiðindi hafa heimsótt þig. Þú finnur ráð og þú færð til þín skilaboð um hvað þú eigir að gera og þegar þú finnur að þér er létt í hjartanu – þá er um rétta ákvörðun að ræða. Þú ferð að plana ferðalag (ef þú ert ekki þegar búinn að því) því þér finnst myrkrið ekki alveg meiri háttar og kuldinn er að kæfa þig.
Elsku Krabbinn minn.
Þú ert að hlaupa svolítið hratt á hamstrahjólinu. Það er þetta og það er hitt og það er enginn friður eins og yfirleitt ríkir hjá þér gullið mitt. Þú verður svo skapstyggur þegar þessi element eru ríkjandi hjá þér og það fer langmest bara í taugarnar á þér sjálfum. Þú hefur á tilfinningunni að það komist upp um þig varðandi eitthvað sem hefur gerst. Hentu þessu út úr heilabúinu þínu því annars kallarðu á að það komist upp.
Töfrarnir búa hjá þér. Ekki hafa einhvern móral yfir einhverju sem gerðist. Stattu beinn í baki og láttu rigna upp í nefið á þér. Þó verið sé að krefjast af þér að þú gerir eitthvað, gefir eitthvað, skrifir undir eitthvað – ef þér finnst að einhverju leyti að verið sé að ýta of mikið á þig skaltu ekki samþykkja nokkurn skapaðan hlut… allavega ekki í bili. Einnig ef einhver fer að rífast við þig – ekki rífast á móti heldur vertu bara pollrólegur og þá leysist allt og ljós þitt mun skína eins og þú vilt hafa það.
Elsku ljónið mitt!
Það eru sterkir tímar fram undan og þú finnur að þú getur miklu meira en þú heldur. Þú finnur stuðning og fyllist af sjálfsást sem er mikilvægasta ástin því þá laðarðu að þér betra fólk og tærari manneskjur sem þú átt svo sannarlega samleið með. Þú ert ekki alveg nógu mannglöggt og það er gott fyrir þig að fá lánaða dómgreind eða spyrja aðra hvað þeim finnst.
Einlægni þín verður svo falleg og með einlægni töfrarðu til þín þá persónu sem þú hugsar um þessa dagana. Þú þarft ekki að skrökva, nota nein ósannindi, þarft ekki að breiða yfir neitt sem hefur gerst. Það er eins og þér finnist þú vera endurfætt.
Næstu þrír mánuðir eru svo mikilvægir fyrir ljónið og þarna byggirðu sterkar undirstöður og lagar til í kringum þig sem þér finnst megi betur fara. Þú lætur engan fara í taugarnar á þér eins og oft áður og þannig byrjar friðurinn að magnast upp innra með þér, það er meiri háttar tilfinning! Það fer stundum í taugarnar á mér hvað íslenskan er stundum ekki jafn sterk og enskan og ég finn jafnvel ekki rétta orðið á íslensku til að lýsa fyrir þér hvað er á leiðinni til þín. Það er einhvers konar andlegt (e. spiritual) tímabil að koma yfir þig, svo sterkur skilningur á hvernig þú getur sigrað þær þrautir sem eru lagðar fyrir þig og þó þú sért búið að fara í gegnum helvíti skynjarðu miklu stærra himnaríki sem býr í sálu þinni.
Elsku Meyjan mín,
það er allt að smella hjá þér. Þú skilur líku miklu betur af hverju þú hafðir svona miklar áhyggjur af annarri manneskju sem átti í miklum erfiðleikum og þú verður að vita að þú gast ekki breytt neinu í því samhengi.
Þú ert búin að eiga stórt líf og átt svo marga aðdáendur og stuðningsmenn. Eina orðið sem þú þarft að stroka út í þessum mánuði er orðið vorkunn, hvort sem hún beinist að þér sjálfri eða öðrum. Ekki að skipta þér of mikið af öðrum og forvitnast um þeirra hagi því þá verður allt skýrara í lífi þínu… svo gramsaðu ekki í annarra manna töskum (svo að segja).
Elsku Vogin mín, það er búið að vera örlítill slappleiki, þreyta og kannski heilaþoka í gangi. En þrátt fyrir þær hindranir klárarðu allt sem þú þarft að gera. Fólk vinnur með þér og þú hefur valið svo sterkt fólk í kringum þig. Þetta er búið að vera óvenjulega hratt ár og margt að gerast á stuttum tíma því tíminn er að fara hraðar en hann er vanur. Ástæðan er sú að við erum hluti af jörðinni, himninum og öllu – erum búin til úr sama efni. Við erum farin að hugsa hraðar en áður og þar af leiðandi líður miklu tíminn hraðar. Bara eins og það hafi verið jól í gær!
Þú ert heppin að að öld vatnsberans er byrjuð. Hún tengir þig svo sérstaklega við góð málefni, gæsku og gjafmildi. Svo margir í þessu merki eru listamenn. Gefðu slíkum málefnum meiri tíma, list er alls konar. Ég sé ekkert stöðvast hjá þér, enda eða lokast. Nú fer góður tími í hönd og þú átt að gefa þér hann til að slaka á. Þegar þú vaknar á morgnana biðurðu lífið að leysa daginn fyrir þig og viti menn – það bara gerist! Í sambandi við vinnu, sölumennsku og viðskipti eru ævintýri í þann mund að eiga sér stað. Ástin tengir þig svo sannarlega við þetta tímabil sem er að birtast þér og það er eins og þú tvíeflist í öllum tilfinningaskalanum. Það er jafnvel svo að þú gætir fundið að þú hafir aldrei elskað jafn heitt og orðið svo ástfangin af einhverjum.
Elsku Sporðdrekinn minn,
töluvert fjör og mikið „havarí“ hefur ríkt í kringum þig síðastliðinn mánuð og þú finnur að þú ert að efla sjálfan þig. Öll skynfæri eru á fullu, þú finnur meiri lykt, skynjar orku miklu betur í kringum þig og þú sérð líka að þú getur haldið svo fast utan um lífið. Þú gerir meira fyrir þig en þú ert vanur að gera. Þó þú vitir að peningarnir komi ekki í lottóinu fyrir flesta skaltu leyfa þér bara að lifa núna, hitt reddast seinna.
Ef þú ferð út í einhvers konar viðskipti eða ert að gera eitthvað merkilegt sem allir taka eftir mun allt slíkt margfaldast. Þú hefur átt til að loka þig af og grafa höfuðið í sandinn en nú virðist enginn möguleiki á því þannig þú flýgur fjöllunum hærra og þess vegna verður eftir þér tekið. Eitt mjög mikilvægt hér: Ef þú hefur lofað einhverju skaltu standa við það. Dagarnir 22. og 26. desember eru dagar sem þú þarft að skipuleggja vel og láta engan toga þig út í vitleysu.
Elsku Bogmaðurinn minn!
Það er mikil spenna yfir þeim tíma sem þú ert að fara inn í. Þú þrífst miklu betur á spennu en þú gerir þér grein fyrir. Þegar þú ert á tánum við verkefni eða hvað sem er, er það töfrum líkast. Þér fer engan veginn að slaka of mikið á og hafa of lítið að gera. Fyrstu 15 dagarnir í þessum mánuði einkennast af frekar óvenjulegum hlutum. Þér finnst eins og það gangi ekki upp sem þú hefur ákveðið að gera en fram í miðjan janúar er eins og kraftaverk hafi gerst og þú uppskerð svo miklu meira en þú bjóst við. Vertu því ekkert kvíðinn því það tekur því ekki.
Eitthvað rifrildi gæti átt sér stað í sambandi við breytingar á högum hjá þér og í ljós kemur að þú hafðir rétt fyrir þér. Sýndu þessu bara þolinmæði því innst inni veistu að þetta fer vel því hefur svo mikið innsýni (innsæi).
Draumar þínir verða skrýtnir og það er mikilvægt að áður en þú ferð að sofa að skrifa við hverju viltu fá svar í draumnum. Þú þarft líka að senda það út að þú munir muna drauminn. Í þessu má ekki vakna við vekjaraklukku því hún ruglar alla undirmeðvitund. Þetta eru mikilvæg skilaboð, verið að virkja hæfileika þína og einbeitingu og svo margt því tengdu.
Elsku Steingeitin mín,
Það er nákvæmlega sama hvað gerist í þínu lífi – þú ert eins og kötturinn, lendir alltaf á loppunum. Þessi sérstaki tími sem þú ert að skoppa inn í núna fær þig til að endurheimta orkuna sem þér finnst að hafi dalað síðastliðið haust. Þú verður svo ákveðin hvernig þú ætlar að byggja upp líf þitt og andi þinn gefur þér mikinn kraft í röddina hvort sem þú talar hátt eða lágt, taktu þá eftir því að það er virkilega hlustað á þig.
Breytingar hafa átt sér stað sem reyndust þér erfiðar en þær voru í raun og veru sendar þér til að styrkja stoðirnar þínar. Það verður slegist um þig í sambandi við vinnu eða verkefni og það má vera að þú snúir hlutum í 360° og gerir eitthvað allt annað en þú hefur verið að gera. þar sem þú ert sá aðili sem ferð helst ekki út úr kassanum nema það sé 100% að allt gangi upp. Þá skynja ég að þú ert tilbúin að takast á við áhættu og það mun virkja þig og þinn kraft svo miklu betur.
Elsku Vatnsberinn minn,
Ef einhvern tíma er tími til að tjútta þá er það núna! Ekki plana og plana langt fram í tímann heldur vertu bara svolítið kyrr með hugann. Þaðan koma lausnirnar til þín. Það situr djúpt í þér að vita hvernig þú eigir að fara að einhverju, hvort þú eigir að fara eitthvað eða í þeim dúr. Ekki ákveðna neitt núna í desember. Þessi mánuður líður hratt og þú fyllist af þeirri orku sem þú þarft, endurnýjar hverju einustu frumu akkúrat á því tímabili þar sem allir eru að drepast úr stressi.
Þann 19. nóvember hófst góðæristímabilið þitt en samt ertu að stressa þig að hlutirnir gangi ekki upp. Lífið er að laga fyrir þig bæði tengslamyndun og sambönd við annað fólk. Það er að gefa þér orku og sýna hvernig þú ferð út úr andlegu kreppunum sem hafa svolítið dottið á hjartastöðina þína undanfarið ár. Núna ertu nefnilega kominn á það tímabil sem þú verður eins og sjálfur Búdda. Þú breytir og skreytir heimilið þitt eða viðverustað þinn og mér finnst eins og þú farir í og skoðir þá staði sem þú hefur búið á og það verða breytingar á heimili hjá mörgum ykkar þegar líða tekur á næsta ár. Sérstaklega hjá þeim sem ekki búa nálægt jörð eða grasi, til dæmis í steinkumbalda á 5. hæð. Það hentar þér ekki.
Þú ert svo gott mix! Í þér býr þessi sterki aðili sem vill hafa allt á hreinu og halda um stjórnartaumana. Þú lætur sko ekkert stoppa sig í því. Hinn krafturinn er sá sem að vill að öllum líði vel og setur fjöldann á undan sér í röðina. Slíkt mix gerir töfra úr manneskju. Allt er að gerast á réttum hraða og á réttum tíma og þó þú eigir tímann geturðu ekki stjórnað honum eins og þú vilt.
Það er svo mjúk orka að fæðast hjá þér og djúpur skilningur gagnvart veröldinni og öllu því sem í henni býr. Þú finnur þessa ró eins og eldri maðurinn sem ég hitti einu sinni sem sagðist hafa fundið ró (hann var í fiskamerkinu). Svo dró hann ró (eins konar skrúfu) varlega upp úr vasanum og sýndi mér.
Þú hefur þá þörf að gera miklu meira en þú átt að gera svo notaðu þessa skemmtilegu stjórnsemi til að stoppa þig af! Þú átt bara að svamla eins og þú sért í kringlóttu fiskabúri. Þú hefur allt til að magna upp hvað sem þú vilt.