Sigga Kling er búin að spá í stjörnurnar og ber á borð funheita stjörnuspá fyrir marsmánuð.
Elsku hrúturinn minn.
Þetta tímabil sem þú ert að tölta inn í snýst svo mikið um ákvarðanir. Ef þú tekur ákvörðun þegar þú hefur hugsað mikið um hvað þú ætlar að gera er hún yfir leitt röng.
Hins vegar – ákvörðun sem kemur eins og elding í höfuðið er yfirleitt sú rétta og ef þetta gerist þarftu að taka ákvörðun innan fimm til tíu mínútna til að gera eitthvað í málunum.
Rétt eins og í fótbolta þá getur þú ekki hugsað um hvort þú eigir að gefa á hinn eða þennan eða skjóta í markið – þú þarft að hugsa hratt. Svona er þessi tími sem þú ert að fara inn í núna. Í þessum krafti sem einkennir tímann finnurðu hershöfðingjann í þér og nærð aftur stjórninni því stjórnleysi af einhverjum toga hefur svolítið einkennt kraftinn þinn undanfarið.
Elsku nautið mitt.
Auðvitað hefur verið alls konar pirringur í kringum þig undanfarið en það er bara því þú leyfir honum að fara inn í veröldina þína. Það eina sem getur drepið þig eru hugsanir þínar.
Þú ert algerlega að fara að slá í gegn fyrir sjálfan þig og þú dreifir óvenjulegum blæ í kringum þig þannig fólk fer að hugsa: Hver er þetta? Hvernig týpa er þetta? En enginn mun komast að því vegna þess þú lætur ekki alla vita af öllu.
Þú ert þangmælskt um hluti sem geta verið eitraðir því slúður er eitur. Slúður á heima hjá þér ef þú slúðrar og dæmir þú aðra verður þú dæmt. Við erum ekki sett á jörðina til að dæma aðra.
Ekki að ég sjái að þú sért slúðrari, ég er t.d. naut sjálf og ef ég heyri slúður í kringum mig, stoppa og sting því aftur upp í mig (og skila því helst í klósettið ef ég get!). Það er óvenju mikil ást í loftinu og hefur verið.
Elsku tvíburinn minn.
Í þér er viss óeirð og þú veist ekki hvort þú eigir að hlakka til eða kvíða fyrir, svo örar eru skiptingarnar í lífi þínu. Það er svo mikilvægt þú náir að slaka á og hvíla þig.
Ekki sofa – slaka á! Án þess að vera að hugsa allan hringinn og í öll horn hvort hitt eða þetta gæti orðið, það er allt of mikið af hugsunum.
Þetta er mjög merkilegur mánuður fyrir þig og þegar fulla tunglið birtist þann 14. er tunglmyrkvi í þokkabót, það er sko eins og fullt tungl á sterum! Það getur haft mikil áhrif á andlega líðan þannig vertu undirbúinn fyrir þetta tímabil.
Ekki hafa áhyggjur af neinu, slaka á, þetta reddast. Setti frið í kringum þig og þá magnarðu upp sjálfstraustið og kraftinn til að geta hvað sem er. Fljótfærni einkennir fyrri hluta mánaðar og þú ferð smá út í horn.
Elsku krabbinn minn.
Þú ert að fara inn í tíma sem þú átt svo vel skilið að njóta. Tími þar sem þú finnur fyrir miklu þakklæti fyrir það sem þú hefur. Þú gerir mikinn greinarmun á því hvað er falskt og hvað er hreint og fagurt.
Þú færð yfir þig einhverja ofursterka ró og þú hefur mikla þörf fyrir að hjálpa og næra þá sem eru í kringum þig. Við þetta blandast samt miklar áhyggjur af einhverri manneskju sem er nákomin þér.
Þér finnst að hún sé haldin meiri veikindum en áður var talið eða þau eru að þróast í aðra átt. Það er gott fyrir þig að hjálpa til þarna því þar er lausn og þú getur gefið einhverja skýringu eða ráðlagt þessari manneskju á einhvern hátt.
Þú ert á þeim stað í lífinu þar sem skynjun þín er mikil og sterk og ert af þeim ástæðum að reyna að fjarlægjast þá sem rífa í sálina þína og reyna að stjórna tilfinningum þínum. Það er einhvern veginn eins og þú sért í hlutlausum og sjáir hlutina fara fram hjá.
Elsku ljónið mitt.
Þetta er það tímabil þar sem þú þarft sjálft að taka ákvörðun um hvað þú ætlar að eltast við eða hvað er í raun mikilvægast í lífi þínu.
Þú átt ekki að eltast við fólk sem er í raun og veru kannski bara alveg sama. Þetta gæti tengst ástarmálum eða vináttu … sem er ekki alvöru ef þú þarft að eltast við hana.
Það er langbest að vera eins kyrrt og þú getur. Ekki fara í löng ferðalög eða skipuleggja of mikið og ekki lofa einhverju sem þú ert ekki visst um að geta staðið við.
Þetta er góður tími til að töfra í þessu lífi, kalla til þín það sem þú átt skilið, því svo sannarlega hefurðu máttinn til þess. Þú hefur einnig máttinn til að kalla til þín drama og leiðindi en það finnst þér ekki skemmtilegt ef ég þekki þig rétt, elsku tignarlega ljónið mitt.
Elsku meyjan mín.
Þetta er mánuðurinn sem getur breytt öllu lífi þínu. Það koma tækifæri eða þú hittir einhvern eða fattar bara að þú ert með öll svörin sjálf.
Þú átt fulla tunglið alveg skuldlaust sem birtist 14. mars og þá er eins og það sé dregið frá leiksviðinu og þú sérð nákvæmlega hvernig hlutir raðast upp, hver er sannur og hver er svindlari.
Ef þú hefur látið illt eða vont yfir þig ganga á síðustu misserum þá er réttlætið staðsett heima hjá þér. Og þá sérðu hvernig þú getur brotið það niður sem má brjóta niður og byggt það upp sem er hjarta þínu kærast.
Meyjan hefur það tákn að hún stjórnar líkamanum og ef það er eitthvað sem þú hefur ekki skilið varðandi líkamann eða líkamlega heilsu, óvenjulega þreytu eða eitthvert vesen birtist lausnin í þessum mánuði sem fram undan er.
Það sem ég er farin að blanda aðeins inn kínverskri stjörnuspá er dagur svínsins 18. mars og í kringum þann dag færðu ofurkraft.
Elsku vogin mín.
Þú hefur þann sérstaka hæfileika að halda alltaf áfram – alveg sama hvað steinn lendir fyrir framan þig. Þetta er mánuður þar sem hreinskilnin er best og verður best fyrir þig, einlægni er í fyrsta sæti.
Karma gott yfir þér þú ert að fá endurgreitt út af ákveðinni góðmennsku. Sambönd sem ekki næra eða gera skapaðan hlut fyrir þig brotna og hverfa. Það er alltaf erfitt þegar búblan eða kýlið springur en það er bara mjög stuttur tími.
Sterkasta tímabilið er frá 13. mars til 20. mars. Það virðist allt gerast svo hratt að á fimm mínútum er lífið öðruvísi en það var fimm mínútum áður.
Þetta er spennandi. Eina viðvörun hef ég til þín og hún er er að lesa smáa letrið í öllum samningum. Ekki gleypa við því sem virðist of gott til að vera satt því það reynist yfirleitt nákvæmlega þannig.
Elsku sporðdrekinn minn.
Þú ert búinn að vera á hamstrahjóli undanfarið, gera þetta fara hitt, en enginn árangur hlýst af eins og þú vilt að komi til þín. Þessi mánuður er því ákveðið raunveruleikatékk.
Ef þú ert að rembast eins og rjúpan við staurinn gagnvart ástinni eða einhverju verkefni og ekkert hefur gengið eins og þú vilt sjá það myndi ég nú bara skoða aðra staura ástin mín.
Þetta er sérstaklega sterkur mánuður fyrir þá sem hafa kannski ekki flogið jafn hátt og þeir hefðu viljað. Þeir sem sitja í hásætum í þessu merki og eru að horfa yfir maurana gæti fallið verið hátt.
Það verða ákveðnar sjokkerandi breytingar sem þú hafðir ekki séð fyrir en þær eru færðar þér á silfurfati til að þú sjáir betur hvar þú ert staddur í lífinu.
Elsku bogmaðurinn minn.
Það er verið að ýta á þig úr ýmsum áttum. Ég hef alltaf sagt að mesta heppnin er yfir ykkur bogmönnunum af öllum merkjunum, reddast alltaf allt þó það sé á síðustu mínútu.
Núna þarftu hins vegar að einbeita þér að verkefninu sem er í gangi, hversu mikið þú ert að gefa af þér. Ef þú púðrar of miklu kæruleysi í verkefnið mun heppnin ekki halda í höndina á þér.
Þó þú kjósir að hafa alla góða í kringum þig geturðu ekki leikið tveimur skjöldum því í þessum mánuði mun sannleikurinn koma í ljós, svo það er þitt að hafa á hreinu að þessi sannleikur sé góður.
Þú þarft ekki að óttast neitt, hvort sem þú ert að skipta um vinnu, skóla eða þess háttar. Ef þú ert að drepast úr leiðindum er það vegna þess að hamingjan býr ekki þar og þú býrð hana til á þeim stað sem þú ert þessa stundina.
Elsku steingeitin mín.
Hver einasta hindrun gerir þig sterkari. Til að láta ekki hindranirnar hafa áhrif á þig skaltu þakka fyrir þá einustu sem kemur til þín.
Þú verður enn vitrari og hugrakkari en áður og það sæmur þér vel. Það er einhver óútskýranleg flóðalda af sérstaklega fallegum hlutum sem ég sé rigna yfir þig og þú færð eitthvað upp í hendurnar sem þú varst ekkert sérstaklega að spá í.
Það er betra að stökkva á og þora því það er ástæða fyrir þessari heppni eða gjöfum sem rigna yfir sál þína. Þú átt eftir að geta talað alla til, hvort sem það tengist atvinnu, breytingum, húsnæði eða einhvers konar fjárhagslegu öryggi, hver svo sem veitir þér það.
Þú hefur þannig áhrif að þegar þú talar treystir fólk þér. Þú getur einnig treyst fullkomlega því fólki sem er í kringum þig, vinnuveitendum, samstarfsfólki eða slíku, getur bara verið fullkomlega afslappaður gagnvart þessu.
Elsku vatnsberinn minn.
Það er svo algengt hjá þér að þú sért að leita að sjálfum þér.. Þú heldur jafnvel að þú finnir þig uppi á fjalli með munkunum í Indlandi, eða þú ferð í sveit og verður þar um tíma.
Kannski ferðu að míkródósa sveppi og heldur að þar sé sannleikann að finna. Ekkert af þessu er rétt, því allt sem þú þarft er inni í hjarta þínu.
Hvar sem þú leitar að þér sjálfum er að finna hjá þér og þannig geturðu lagað hlutina, það býr í hjarta þínu. Svo steinhættu að leita að sjálfum þér því þú ert fundinn!
Á heimili þínu skaltu byggja svolítið musteri. Þú ættir að nýta þér að þú ert svolítill hellisbúi, þarft að fá frið einn og með sjálfum þér. Þetta þarf ekkert að vera stórt svæði heldur bara þitt svæði.
Elsku fiskurinn minn.
Þessi dásamlegi mánuður er runninn upp sem allt gerir og breytir öllu til hins betra fyrir þig.
Hans helsta afl er samt að þú vaknar og sérð hvernig þú getur skapað þér litríkari veröld. Þú skynjar svo sterkt hvað það er sem skiptir máli.
Þú hefur allt sem þú þarft í kringum þig en nú slitna þau vinabönd sem byggð hafa verið á einhvers konar lygi. Kannski varstu löngu búinn að sjá þetta allt saman en núna opnarðu augun alveg og hreinsar svoleiðis til að það verður alger endurnýjun á orkunni og gleðinni.
Þú hefur svo mikil tök á að sjá, bara svona eins og skyggn manneskja, því dulrænir hæfileikar eru þér í blóð bornir.
Þú færð skilaboð þegar þú sefur í gegnum draumana og undirvitundina líka, líka þegar þú ert vakandi – þú átt það nefnilega til að fá vökudrauma þegar þú dettur aðeins út.