Jákvæð karlmennska, glettni og leynifélagsstolt

Meðlimir klúbbsins kynntust í gegnum eiginkonur sínar sem unnu saman.
Meðlimir klúbbsins kynntust í gegnum eiginkonur sínar sem unnu saman. Ljósmynd/Mummi Lu

Leynifélagið Blái lótusinn fagnar um þessar mundir tíu ára afmæli en félagið samanstendur af sautján hressum karlmönnum á fimmtugs- og sextugsaldri sem hafa brallað ýmislegt saman í gegnum árin. Félagarnir hittast einu sinni í mánuði í kringum fjölbreytta dagskrá þar sem mest áhersla er lögð á góðan félagsskap og vináttu. Við tókum þá Friðrik Bragason og Gunnar Val Sveinsson tali á dögunum og óhætt að segja að af þeim hafi gustað einhver jákvæð karlmennska, glettni og leynifélagsstolt. 

Friðrik er forsprakki hópsins og var einnig fyrsti formaðurinn en félagarnir skiptast á að gegna því hlutverki. En hver er sagan á bak við stofnun klúbbsins?

„Það sem sameinar okkur er að við búum allir í Laugardalnum og nokkrir af okkur áttu það sameiginlegt, á þessum tíma, að eiga eiginkonur sem voru að vinna í Laugarnesskóla. Við vorum búnir að hittast oft í kringum þær á árshátíðum og öðrum viðburðum og það var alltaf svo góð stemning á meðal okkar eiginmannanna. Á einni árshátíðinni stakk ég svo upp á því að við strákarnir myndum stofna klúbb.“

Hann segir þá alla hafa tekið vel í hugmyndina og í framhaldinu var blásið til hugmyndafundar og mánuði eftir það var haldinn stofnfundur en þetta var í maí árið 2013.

Fyrsti viðburðurinn var í skála úti á landi

Auk mannanna sem voru á árshátíð Laugarnesskóla var nokkrum vel völdum körlum úr hverfinu boðið í klúbbinn og þeir voru því í kringum 14 á stofnfundinum. „Það bættist svo aðeins í hópinn og nú erum við sautján virkir félagar. Á stofnfundinum var kosin stjórn; formaður, gjaldkeri og ritari til að hafa þetta svolítið formlegt. Við bjuggum til lög félagsins og svo var kosið um nafnið. Við settum allir nafnahugmyndir í krukku og svo var kosið um bestu tillöguna. Í framhaldinu var ákveðið að við myndum hittast einu sinni í mánuði yfir veturinn. Við ákváðum að skipta hópnum niður og láta tvo og tvo meðlimi skipuleggja mismunandi viðburði og svo er árshátíð einu sinni á ári og þá eru konurnar með. Fyrsti viðburðurinn var um haustið 2013 og þá fórum við og gistum eina nótt í skála úti á landi. Markmiðið var að þjappa hópnum saman og kynnast. Við röðuðum mönnum sem þekktust lítið í pör og létum þá kynnast hvor öðrum. Um kvöldið áttu þeir svo að segja frá hvers þeir höfðu orðið vísari um kvöldið, þetta var mjög skemmtilegt,“ segir Friðrik og Gunnar bætir við að þegar þeir hafi setið í hring daginn eftir hafi þeir ákveðið að hver félagi ætti að fá númer. „Ég er til dæmis meðlimur númer ellefu.“

Gauti Arnar Marinósson, Örn Sveinsson, Jakob Frímann Þorsteinsson, Stefán Pétursson, …
Gauti Arnar Marinósson, Örn Sveinsson, Jakob Frímann Þorsteinsson, Stefán Pétursson, Jónas Ingi Ólafsson og Eric Mayer.

Fræðast um osta til farsótta og allt þar á milli

Þeir félagar segja að grunnmarkmið leynifélagsins sé að fræðast, verða betri menn og búa til vinskap og gott samfélag þeirra sem búa í hverfinu. Á þessum tíu árum hafa þeir gert margt saman sem hafi dýpkað vináttuna og auðgað andann.

„Þeir eru margir viðburðirnir sem við höfum staðið fyrir í félaginu og mætti sem dæmi nefna að við höfum heimsótt Gísla Martein og Hrafn Gunnlaugsson sem fræddu okkur um það sem þeir hafa verið að fást við. Auk þess fórum við í heimsókn til Bergþórs og Alberts sem kenndu okkur ýmislegt skemmtilegt. Við fengum fræðslu um osta á sínum tíma í Ostabúðinni Búrið sem Eirný rak en þess má geta að fyrstu árin skiptum við vetrarstarfinu niður í mismunandi þemu svo sem íþróttir, mat, listir, tækni og skipulagsmál en í dag er þetta meira frjálst. Við höfum skoðað alls konar samfélags- og skipulagsmál og heimsóttum til dæmis Landsvirkjun og kynntum okkur vindorkuver. Við fræðumst líka um hin og þessi fyrirtæki, eitt sem kemur upp í hugann er hátæknifyrirtækið Vatnaskil sem veitti okkur mikla innsýn í það sem þeir eru að gera. Þar að auki höfum við fengið fræðslu um kaffihúsarekstur og púðagerð á kaffihúsinu Loka ásamt því að heimsækja listamanninn Tolla sem fræddi okkur til dæmis um búddisma og íhugun sem var sérlega áhugavert.“

Í Covid-faraldrinum leystu þeir málin á rafrænan máta eins og svo margir og fengu meðal annars Stefán Pálsson til að vera með fyrirlestur um sögu farsótta.

Alls staðar vel tekið á móti þeim

Hefðbundið kvöld hjá leynifélaginu hefst yfirleitt á milli fimm og sex og stendur til rúmlega tíu, dagskráin hefst oftast með fræðslu eða fyrirlestri. Eftir það er gjarnan borðað og stundum fylgir matnum einhver fræðsla líka, um daginn kenndi til dæmis einn meðlimur félagsins hinum pastagerð.

„Við erum ekki með neitt fast húsnæði en fáum oft að nýta aðstöðuna þar sem við erum til að borða en okkur er alls staðar vel tekið. Fólki og fyrirtækjum finnst áhugavert að einhverjir karlar út í bæ hafi áhuga á sér og starfseminni. Ef ekki er aðstaða til að borða þá höfum við fundið aðrar lausnir eins og þegar við heimsóttum leikstjórann Óskar Þór Axelsson í gamla Sjónvarpshúsið þá löbbuðum við bara eftir kynninguna yfir á Reykjavík Brewing Company og fengum okkur að borða og drekka þar.“ Þess má geta að sjaldan er haft vín um hönd á fundunum nema þá ef um fræðslu sé að ræða eða aðrar undantekningar.

Friðrik segir það hafa verið markmið félagsins frá upphafi að fræðast og verða betri menn og eiginmenn.

„Ég held að við séum án efa betri eiginmenn, því að konurnar losna við okkur eina kvöldstund í mánuði og við komum glaðir og endurnærðir heim. Reyndar áttu konurnar ekkert að vita hvað færi fram þar sem þetta er leynifélag en það reyndist erfitt að leyna dagskránni fyrir þeim þar sem menn töluðu mismikið heima hjá sér og allt fréttist,“ segir hann og bætir við að það hafi líka alltaf verið skýrt að Blái lótusinn ætlaði ekki að starfa að góðgerðarmálum eins og til dæmis Lions.

„Annað sem var líka ákveðið við stofnun félagsins og það var að við sneiðum algerlega hjá pólitík og ef menn fara út í hana þá minnum við á að hún sé ekki á dagskrá, raunar er eiginlega bara bannað að ræða hana,“ bætir hann við ákveðinn.

Fyrsti viðburðurinn þar sem utanaðkomandi fá að vera með

Viðburðurinn sem Morgunblaðið kíkti inn á var í Höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal þar sem félagið kynnti sér starfsemi KSÍ.

„Síðasta kynning sem við fengum á undan þessari var frá honum Gylfa Þór Þorsteinssyni um flóttamannamál en þetta sýnir fjölbreytileikann á málefnunum sem við kynnum okkur. Viðburðurinn hér í KSÍ er ólíkur öðrum að því leyti að við erum í fyrsta sinn að bjóða utanaðkomandi aðilum að vera með en það eru börnin okkar. Eftir fyrirlesturinn fáum við svo Spilavini til að koma og spila með okkur svo þetta verður mjög líflegt og félagslegt.“

Stoltir af lógó Bláa lótusins

Að lokum taka þeir Friðrik og Gunnar stoltir fram símana sína til að sýna blaðamanni lógóið sem prýðir Facebook-síðu Leynifélagsins Bláa lótussins.

„Við fórum í heimsókn til hönnuðar sem hjálpaði okkur að hanna lógóið en þess má geta að nafnið er dregið af fimmtu bókinni um Ævintýri Tinna. Lógóið er rautt og á því er ákveðið form sem glöggir sjá að er sundlaugarstúkan í Laugardalslaug sem okkur fannst endurspegla hverfið vel, enda er stúkan án efa eitt helsta kennileiti Laugardalsins,“ segja þeir félagar og bæta við að þrátt fyrir að þeir hafi orðið margs vísari þessi tíu ár þá sé allra skemmtilegast að vera bara strákar að hafa gaman og hittast í leynifélagi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda