„Ég er ekki alveg búin að meðtaka þetta“

Auður Ína Björnsdóttir vann hörðum höndum að kosningabaráttu móður sinnar, …
Auður Ína Björnsdóttir vann hörðum höndum að kosningabaráttu móður sinnar, Höllu Tómasdóttur. Samsett mynd

Líf Auðar Ínu Björnsdóttur breyttist á einni nóttu þegar móðir hennar, Halla Tómasdóttir, var kosin sjöundi forseti Íslands á laugardaginn var. Ína, eins og hún er kölluð, stundar sálfræðinám í Bandaríkjunum.

Hún ætlaði að verða sjúkraþjálfari eða kírópraktor en eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á ákvað hún að læra sálfræði til þess að geta lagt sitt lóð á vogarskálarnar til að hjálpa ungu fólki.

Hvernig var að vakna upp á sunnudaginn sem forsetadóttir?

„Tilfinningin er rosa góð. Ég er ekki alveg búin að meðtaka þetta. Maður var svolítið svefnlaus og í adrenalínkasti í gær. Núna er ég búin að sofa nóg og fá að borða og svona. Þetta leggst mjög vel í mig. Við erum svo stolt af mömmu,“ segir Ína í samtali við Smartland.

Ína kom heim til Íslands í lok apríl til þess að vinna við kosningabaráttu móður sinnar en vinnan gekk út á að ná til ungs fólks og fá það á kjörstað. Einn hluti vinnunnar var að búa til efni fyrir félagsmiðla eins og Intagram og TikTok. Arent Orri Claessen nýkjörinn formaður Stúdentaráðs Íslands stýrði kosningaskrifstofu unga fólksins en Halla var með sér kosningaskrifstofu til að mæta þörfum þess aldurshóps.

Náttúrulegt, fyndið og skemmtilegt

„Við vorum með samfélagsmiðlateymi sem var á aldrinum 18-30 ára,“ segir Ína.

Þarf aðra nálgun til að ná í ungt fólk en það sem eldra er?

„Já, 100%,“ segir hún. Ína segir frá því að hópurinn hafi skoðað hvað væri á trenda og gætti þess að mæta markhópnum þar sem hann var staddur.

„Við vorum dugleg að hittast og fara yfir hlutina. Ég var alltaf að hugsa: Hvernig getur maður notað þetta í okkar samhengi? Hvernig getur maður búið til nýtt myndband? Við tókum upp mikið af efni en notuðum það ekki allt,“ segir hún.

Voruð þið með fínar myndavélar í þetta eða tókuð þið upp á síma?

„Þetta var allt tekið á síma fyrir TikTok. Svo vorum við líka að nota efni inni á milli þar sem mamma var að tala um stefnur og svona. Við vildum hafa efnið náttúrulegt, fyndið og skemmtilegt. Okkar markmið var að gera kosningar að skemmtilegum hlut. Ungt fólk er ekki alltaf of duglegt að mæta á kjörstað og vildum hvetja þau á þann hátt sem þeim finnst skemmtilegast,“ segir hún.

Mæðgurnar í faðmlögum á kosningavökunni.
Mæðgurnar í faðmlögum á kosningavökunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vill hjálpa ungu fólki

Ína leggur nú stund á sálfræðinám í Macaulay Hon­ors Col­l­e­ge í Hun­ter-há­skóla. 

„Fyrstu mánuðina var ég að vinna bak við tjöldin en kom til Íslands í lok apríl og hef verið í fullu starfi síðan þá. Ég náði að klára skólann úti,“ segir Ína sem er á þriðja ári og á eitt ár eftir.

Hvers vegna ákvaðstu að læra sálfræði?

„Mig hefur alltaf langað að hjálpa fólki og ætlaði að fara í sjúkraþjálfarann eða kírópraktorinn. En svo tók ég eftir því að ungu fólki er ekki að líða nógu vel í tengslum við kórónuveiruna. Það þarf að hjálpa ungu fólki. Andleg líðan á að vera sett fremst á dagskrá,“ segir hún.

Halla Tómasdóttir ásamt Tómasi Bjarti og Auði Ínu.
Halla Tómasdóttir ásamt Tómasi Bjarti og Auði Ínu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Alltaf jákvæð – líka í brekku

Ína er bjartsýn að eðlisfari og segir að kosningabaráttan hafi tekið á og játar að þetta hafi verið erfitt á köflum. 

„Ég hef alltaf verið mjög bjartsýn. Mamma talaði um þetta sem brekku og þetta var erfitt um tíma. Við höfum alltaf horft á þessa baráttu á jákvæðan hátt. Við vildum vera sigurvegarar hvernig sem þetta færi,“ segir Ína sem var 12 ára árið 2016 þegar móðir hennar bauð sig fram fyrst.

„Það er gaman að fá að taka þátt í þessu aftur þegar maður er orðinn eldri. Ég hef lært svo mikið af þessu. Þetta er svo mikil reynsla. Manni er hent út í erfið verkefni sem maður lærir mikið af. Ég er þakklát fyrir þessa reynslu,“ segir hún. Er þetta sem sagt eitthvað sem ekki er hægt að læra í háskóla?

„Já, 100%.“

Hvernig þá helst?

„Það er mikil reynsla að fá að tala við allt fólkið og heyra þeirra sjónarmið. Hvað það vill. Maður lærir mikið um íslenskt samfélag og líka hvernig höndlar maður sjálfan sig? Ég hef þurft að fara í þónokkur viðtöl og er ekki mjög hrifin af því. En maður vex sem manneskja þegar maður gerir eitthvað slíkt. Svo er þetta svo ótrúlega skemmtilegt að hitta allt þetta fólk ég hef kynnst svo mikið af fólki sem verða ævilangir vinir,“ segir hún.

Fékk áhuga á förðun á unglingsárum

Á TikTok kom fram að Ína hefði farðað móður sína í kosningabaráttunni. Þegar hún er spurð út í þetta er hún hógvær.

„Harpa Káradóttir þarf að fá kredit,“ segir Ína og á þá við förðunarmeistarann sem rekur Makeup Studio Hörpu Kára.

„Hún er búin að vera stórkostleg í gegnum þetta. Ég er ekki lærð í þessu en ég fékk áhuga á förðun þegar ég var 15 eða 16 ára. Ég æfði mig á sjálfri mér og prófaði hvað virkaði fyrir mig og hvað mér fannst skemmtilegast að gera. Svo fór ég að mála mömmu fyrir afmæli og veislur. Ég hef verið að leysa Hörpu Kára af þegar mamma vill vera sæt,“ segir hún og brosir.

Þú varst glæsilega förðuð á kosningadaginn. Farðaði Harpa Káradóttir þig?

„Nei, ég mála mig alltaf sjálf. Ég hef alltaf verið með NYX litapallettu eða síðan ég var í sjöunda bekk. Ég hef keypt sömu litina aftur og aftur. Mér finnst mikilvægast í förðun að læra á andlitið sem maður er að mála,“ segir hún.

Hvað tekur við hjá þér núna?

„Ég er að fara að vinna hjá Distica í sumar og mun byrja á morgun. Þar verð ég að vinna á skrifstofunni, taka pantanir og svara símtölum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál