Heitustu fótboltastrákarnir á Íslandi

Það vantar ekki upp á úrvalið af myndarlegum mönnum sem …
Það vantar ekki upp á úrvalið af myndarlegum mönnum sem kunna að spila fótbolta! Samsett mynd

Fótboltinn er í fullum gangi um þessar mundir, ekki bara erlendis heldur líka á Íslandi. Fótboltamenn eru þekktir fyrir að hugsa vel um útlitið og vera með stílinn á hreinu, en hér á landi vantar sannarlega ekki upp á úrvalið af myndarlegum mönnum sem kunna að spila fótbolta. 

Smartland tók saman lista yfir nokkra af heitustu fótboltamönnum landsins.

Adam Ægir Pálsson 

Adam Ægir Pálsson er 26 ára sóknarmaður sem spilar með Val en einnig er hann útvarpsmaður þar sem hann er einn þáttastjórnanda Veislunnar á FM957. Hann spilaði fyrir Keflavík áður en hann gekk til liðs við Val í byrjun 2023. 

Ísak Snær Þorvaldsson

Ísak Snær Þorvaldsson er 23 ára miðjumaður úr röðum Breiðabliks en hann er einnig góður á fremstu víglínu. Ísak hélt út í atvinnumennsku árið 2020 þar sem hann spilaði fyrir Fleetwood Town og St. Mirren. Hann sneri aftur til Íslands árið 2020 og lék eitt tímabil með ÍA áður en hann gekk í raðir Breiðabliks. Hann hélt svo aftur út árið 2023 til Rosenberg en sneri aftur til Breiðabliks 2024. Ísak hefur spilað sex A-landsleiki fyrir Íslands hönd. 

Viktor Karl Einarsson 

Viktor Karl Einarsson er 27 ára miðjumaður og spilar með Breiðabliki. Hann er uppalinn hjá Blikum en hann kíkti út fyrir landssteinana þegar hann gekk til liðs við AZ Alkamaar árið 2016 og síðar til Värnamo árið 2018 en liðið var þá í sænsku B-deild­inni. Einnig á hann að baki fjóra A-landsleiki.

Ívar Örn Árnason

Ívar örn Árnason er 28 ára varnarmaður úr röðum KA. Hann er uppalinn KA-maður en hann hefur lengi verið lykilmaður félags þar sem hann hefur spilað 93 leiki í efstu deild karla. Ívar er einnig nýlega orðinn faðir en hann eignaðist sitt fyrsta barn með Fjólu Sigurðardóttur þann 9. janúar síðastliðinn. 

Guðmundur Kristjánsson

Guðmundur Kristjánsson er 35 ára varnarmaður Stjörnunnar og er einn reyndasti leikmaður Bestu deildar karla. Hann er einnig öflugur í viðskiptalífinu en hann er eigandi Elite þjálfunar og Maxeffort.is. Áður en hann skrifaði undir hjá Stjörnunni spilaði hann fyrir norska liðið Start á árunum 2012 til 2017. Guðmundur hefur líka spilað sex A-landsleiki fyrir Íslands hönd.  

Sindri Kristinn Ólafsson

Sindri Kristinn Ólafsson er 27 ára markmaður hjá FH. Hann gerði þriggja ára samning við félagið árið 2022 en áður spilaði hann fyrir uppeldisfélag sitt í Keflavík. Hann hefur spilað 115 leiki í efstu deild karla og 17 leiki fyrir yngri landslið Íslands. 

Axel Freyr Harðarson

Axel Freyr Harðarson er 24 ára kantmaður sem spilar með Fjölni í fyrstu deild karla. Hann skrifaði undir tveggja ára samning við félagið í janúar 2023, en fyrir það spilaði hann meðal annars með Kórdrengjum, Víkingi Reykjavík og Gróttu. 

Matthías Vilhjálmsson

Matthías Vilhjálmsson er 37 ára framherji sem spilar með Víkingi Reykjavík í bestu deild karla. Matthías spilaði með FH áður en hann fór út í atvinnumennsku árið 2013 þar sem hann lék með Start, Rosenborg og Vålerenga í Noregi. Hann hélt svo aftur til Íslands árið 2021 og gekk til liðs við FH áður en hann skrifaði undir tveggja ára samning við Víking í árslok 2022. Þá hefur Matthías spilað 15 A-landsleiki fyrir Íslands hönd og skorað í þeim tvö mörk. 

Oliver Sigurjónsson

Oliver Sigurjónsson er 29 ára miðjumaður sem spilar með Breiðabliki í bestu deild karla. Oliver hóf feril sinn hjá Breiðabliki áður en hann skrifaði undir samning við AGF í Danmörku þegar hann var 16 ára gamall. Árið 2014 sneri hann aftur til Breiðabliks og hélt svo út í atvinnumennsku árið 2017 þar sem hann skrifaði undir þriggja ára samning við Bodø/Glimt í Noregi. Árið 2020 gekk Oliver svo aftur í raðir Breiðabliks og hefur spilað þar síðan þá. Þá hefur Oliver einnig leikið tvo A-landsleiki fyrir Íslands hönd. 

Máni Austmann

Máni Austmann er 26 ára gamall miðjumaður sem spilar með Fjölni í fyrstu deild karla. Máni er uppalinn í Garðabæ og hóf ferilinn í Stjörnunni, en síðan hefur hann leikið með liðum á borð við ÍR, HK, Leikni Reykjavík og nú seinast FH. 

Hólmar Örn Eyjólfsson 

Hólmar Örn Eyjólfsson er 33 ára varnarmaður sem spilar með Val í Bestu deild karla. Hólmar er uppalinn hjá Tindastól og HK en fór út í atvinnumennsku árið 2008 þar sem hann spilaði með West Ham, Bochum, Rosenborg, Maccabi Haifa, Levski Sofia og Rosenborg. Hann sneri aftur til Íslands árið 2021 og í ársbyrjun 2022 skrifaði hann undir þriggja ára samning við Val. Hólmar á að baki 19 A-landsleiki þar sem hann skoraði tvö mörk. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál