Í nýjasta þætti hlaðvarpsins Á ég að hend’enni? fara vinkonurnar Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir og Halldóra Geirharðsdóttir, leikkonur, yfir víðan völl. Í nýjasta þættinum taka þær fyrir bókina Dísa ljósálfur sem þær lásu spjaldanna á milli sem krakkar. Steinunn var sólgin í drama sem barn og mamma hennar stóð hana að því að fletta í sífellu upp á dramatískustu atriði bókarinnar til að komast í sjálfskapað tilfinningauppnám.
„Ég átti að vera farin að sofa en stalst til að fletta upp á hæðilegustu köflunum og myndunum í Dísu ljósálfi og græta mig endurtekið, algjör dramadrottning,“ segir Steinunn og hlær en bætir við að hún hafi líka tekið eftir því á eigin börnum að þau sé sólgin í dramatískar sögur og bíómyndir.
Halldóra, eða Dóra eins og hún er kölluð, sem oft kemur fram sem skemmtikraftur fyrir börn sem trúðurinn Barbara, tekur undir og segir að ekkert sé betra til að fanga athygli barna en að taka dramatíska beygju í frásögn og kynna til sögunnar vendingar þar sem einhverju eða einhverjum sé teflt í tvísýnu, þá fái hún salinn til að fylgjast með af fullri athygli.
Í þættinum tala þær um skynjun barna á umhverfi sitt þegar við fullorðin erum niðursokkin í snjalltækin okkar.
„Mörg börn fá ekki nema hluta af skilboðum okkar í gegnum tungumálið, þau læra ekki lesa andlitssvipbrigði, ef við horfum ekki framan í þau þegar við tölum við þau og þá verður lestur þeirra á samskipti auðvitað takmarkaðri en ella,“ segir Steinunn og Halldóra segist hafa þurft sem móðir að taka tíma frá til að eiga í beinum samskiptum við börnin sín í leik og skipulega hafa þar snjalltæki hvergi nærri. En mikilvægt hafi verið að finna eitthvað að gera sem hún sjálf hefði haft gaman að.
„Hvaða dót fannst þér skemmtilegast að leika þér með Dóra? Þegar þú varst að leika við börnin þín,“ spyr Steinunn.
Dóra hlær og segir að hún hafi haft gaman af að leika sér með stóra Duplo kubba og byggja brautir og þrautaleiðir.
„Guð minn almáttugur, þetta hefði ég aldrei getað,“ segir Steinunn og viðurkennir að henni hafi látið betur að leira og lita og matbúa og brasa í eldhúsinu.
„Ég gat látið mín börn vaska upp alveg stanslaust, bara nógu mikið af plastdrasli í vaskinn og nógu mikið af sápu, þau gátu vaskað upp alveg endalaust. Ég hefði getað leigt þau út á bleyjunni sem uppvaskara á bar!“
„Þú varst alltaf miklu duglegri en ég við að leika við börnin þín,“ segir Steinunn og bætir við að hún hafi þrátt fyrir að hafa verið mikið heima með börnunum sínum oft ekki verið fyllilega á staðnum vegna þess að hún hafi verið bæði þreytt og annars hugar.
„Þú átt samt ekki að vera með samviskubit,“ segir Dóra og Steinunn tekur undir það og segir að hún nenni ekki lengur að hýða sjálfa sig fyrir að hafa langt í frá alltaf verið fullkomin mamma. Dóra segir; „maður gerði bara eins vel og maður gat.“
„Já, ég nenni bara ekki að skamma mig fyrir alla hluti lengur,“ segir Steinunn. „Ég hef gert alveg nóg af því að vera vond og ósanngjörn við sjálfa mig.“
Dóra samsinnir þessu og segir að hún sé búin að berja sjálfa sig og kannski sérstaklega fyrir það að hafa gert mistök sem ungt foreldri. Sjálfsmyndin var bara svo óörugg og ómótuð, sérstaklega hjá okkur tveimur.
„Við vorum náttúrlega bara alveg ruglaðar þegar við vorum svona ungar mömmur.“
„Ég hætti náttúrlega öllu, að reykja og drekka, hætti að drekka kaffi, ég breyttist eiginlega bara í Maríu mey í svona þrjú ár, ætlaði bara að vera alveg heilög, notaði ekki sjampó,“ segir Halldóra og Steinunn grípur boltann á lofti; „Þú vildir verða svona náttúruleg mamma, maukaðir allan mat, bjóst til allt sjálf.“
Dóra lýsir því í þættinum að hún hafi svo komist í tengingu við sjálfa sig þegar hún var ekki lengur með lítil börn upp á arminn að þá hafi hún kynnst sjálfri sér upp á nýtt. Þegar hún er spurð nánar út í það segir hún: „Þá bara mætti einhver hluti af mér alveg óþreyjufullur eftir því að takast á við lífið upp á nýtt. Ég þurfti bara að sækja frelsið mitt aftur.“
Steinunn segir frá því að hún hafi ekki notið sín í botn þegar hún var heimavinnandi með hvítvoðunga.
„Þegar ég var búin að vera heimavinnandi með fjögur börn og þau tvö yngstu en það eru 13 mánuðir á milli þeirra í svona þrjú ár þá vissi ég eiginlega ekki lengur hver ég var. Ég hafði enga eirð til að gera neitt fyrir sjálfa mig, lesa eða horfa á eitthvað, maður er í sífelldum aðhlynningu og vakandi yfir hverri hreyfingu smábarna, í stanslausu viðbragði og maður hætti bara að gera sér grein fyrir eigin líðan eða þörfum.“
Steinunn var 38 og 39 ára þegar hún fæddi tvo yngstu börnin.
„Það var erfiðara að verða mamma svona seint, ég var þreyttari, erfiðar meðgöngur og það tók mig eiginlega mörg ár að finna út úr því og spyrja mig, bíddu, hver ert þú eiginlega, hvað langar þig?“
Hægt er að hlusta á þáttinn hér fyrir neðan: