Sigríður Klingenberg, eða Sigga Kling eins og hún er kölluð, býður hér upp á funheita ársspá fyrir 2025. Hvernig verður 2025? Mun talan 9 hjálpa okkur að besta okkur í okkar lífi eða verður þetta endalaus barningur?
Elsku hrúturinn minn.
Frábær tala er sterkust hjá þér á þessu ári samkvæmt talnaspeki Kirovs, 13, og mun hún birtast þér miklu oftar en vanalega. Þrjóska þín verður dásamleg á þessu ári, sérstaklega fyrri hluta árs og ég sé húmorinn skína í gegn. Það er eins og þú hafir farið á sérstakt námskeið í orðaforða! Allir taka eftir því hvað þú ert orðinn miklu skýrari og ánægðari með allt – orðaforðinn virðist hafa margfaldast og þú átt eftir að verða sérlega ánægður með það.
Vorið kemur með töluna sjö sem er andleg tala sem hjálpar þér að skynja betur betur hvað þú eigir að gera, hjálpar þér að líða betur í líkamanum og hreinsa út streitu. Varastu að nota orðið „stress; sérstaklega mikið, notaðu frekar „spenntur“ orðaðu það rétt. Orð eru nefnilega álög eins og bókin mín heitir. Það er svo sannarlega satt, svo kyngdu leiðinlegum orðum og hugsaðu hvernig þú setur fegurð út í alheiminn, þá færðu til baka. Þú færð nefnilega það sem þú gefur.
Elsku nautið mitt.
Þetta dásamlega ár sem er að heilsa þér breytir mörgu í kringum þig! Ég get ekki sagt að janúar verði þinn allra besti mánuður, spólaðu yfir hann eins hratt og þú getur. Strax þann 1. febrúar og frá honum byrjar aldeilis að vegna vel hjá þér. Þá verður þú búið að leysa verstu flækjurnar og þú þarft líka að skipuleggja svolítið betur þá peninga sem detta í vasa þinn. Þú ert nefnilega svo örlátt að stundum virðist vera gat á vasanum og þú dreifir peningunum á
eftir þér.
Upp úr þessu tímabili tengist þú hóp eða stóru tengslaneti og þar lærðu eitthvað svo miklu meira. Það birtist í kringum þig fólk með svo ótrúlega merkileg skilaboð og eru það einhvers konar sendiboðar til þín (orðið „sendiboði“ þýðir bara engill, sem er aldeilis skemmtilegt).
Elsku tvíburinn minn.
Þú færð töluna einn og líka læðist þarna að þér tölurnar fimm og sex. Talan sex er sterkust yfir þér þetta árið. Hún táknar fjölskyldumynstur og ástina. Það er mikil frjósemi tengd þessari tölu þannig þeir sem ætla ekki að fjölga mannkyninu ættu að vera vel á verði!
Þessi tala gefur einnig til kynna að ef vond ást er í kringum þig (í öllu; vinnu, vinum, landinu eða kærastinn) ef allt er ekki eins og það á að vera springur það upp og fer. Það sem er gott fyrir þig er að allt sem þér er ætlað stækkar og eflist þannig þetta er hin besta tala.
Einhver óróleiki er búinn að gera vart við sig hjá þér – þú ert búinn að skipta skapi ört og gætir verið svolítið pirraður á sjálfum þér. Ég segi þegar þú ert fúll eða leiður skaltu bara segja orðið „skipta“ (e. shift). Ég segi það á ensku, hvort orkan skilji íslensku veit ég ekki. Ef yfir þig kemur þungur andi segir þú bara „skipta“! Þú æfir þig á þessu og breytingarnar verða augljósar.
Elsku krabbinn minn.
Mikil vinna hefur átt sér stað hjá þér og þú hefur verið á fullu að hjálpa öðrum, hafa áhyggjur af einhverju sem skiptir ekki máli. Í kringum 13. til 14. febrúar mun svo koma í ljós að allar þessar áhyggjur voru ástæðulausar. Varðandi þessa daga er eins og það sé stjarna yfir þér sem vísar þér veginn og þú verður miklu öruggari með allt.
Peningamálin virðast ganga alltaf upp og það á að vera í eðli krabbans að eiga alltaf pening í umslagi eða falinn undir dýnunni. Það eina sem verið er að tala um er einhver varúð varðandi hugbreytandi efni, lyf, eitthvað sem þér var skaffað frá lækni eða þess háttar og þú skalt skoða alla hluti sem þú lætur ofan í þig. Í kortunum kemur að kvíði eða erfiðleikar með hugann gætu verið ástæðan.
Elsku ljónið mitt.
Þetta er árið sem kennir þér að efast ekki um þig sjálft. Árið mun sýna þér hvað þú ert, hvað þú vilt og hvernig þú getur fengið það. Fyrstu tveir mánuðir ársins verða þér örlítið erfiðir og þú skalt passa þig að vera með fólki sem eflir hug þinn, því þú virðist ekki vera alltaf góður mannþekkjari. Svo ef þú sérð rautt flagg gagnvart persónu – ekki horfa fram hjá því heldur er best að loka strax og læsa. Það er verið að stýra þér í ranga átt eða segja þér ekki alveg satt
frá en þú tekur þessu öllu létt því þú hefur lært að láta ekki þá steina í götu þinni stoppa þig, það stoppar ekkert ljónið sko!
Elsku meyjan mín!
Þú ert að fara inn í friðsamt ár, en samt sem áður að fara í gegnum töluvert breytingaskeið með sjálfa þig. Þú hreinsar af þér allt sem heldur þér niðri. Þú tengir þig við fólk, félagsskap og allt mögulegt sem gefur þér betra vit eða meira og skarpari hugsun og þú tekur góðar ákvarðanir varðandi við líf þitt.
Þú hefur töluna níu sem er tala alheimsins, jarðarinnar á þessu ári. Sú tala táknar að maður snýr baki við vitleysu eða vondum aðstæðum og hún gefur þér kraft til að standa með þér og segja hugsun þína án þess að láta það á sig fá. Hún táknar einnig að þú ert að hefja tíma sem mun vara um langan tíma, jafnvel nokkur ár í viðbót.
Elsku vogin mín.
Þú ferð á bjart ferðalag árið 2025. Þú ert með töluna einn eins og steingeitin svo allt sem þú ákveður að geti hagnast þér og allir þeir draumar sem þú hefur ekki sett þunga í skaltu gera núna. Slepptu þér alveg frjálsri, þetta er svo stutt líf, svo gerðu það núna strax. Þú skalt láta draumana rætast því þú hefur afl og færð tækifæri til þess á þessu ári.
Breytingar eru ekki endilega góðar breytinganna vegna og þér finnst janúar vera frekar óheppilegur tími og ekki ganga eins og þú vildir stýra honum. En það eru einungis fáeinir dagar. Í febrúar, mars og apríl kemur krafturinn inn.
Elsku sporðdrekinn minn.
Þú ert að fara inn í svo kraftmikið ár sem gæti bæði sent þig til skýjanna en líka haldið þér niðri. Lykillinn í því að allt gangi eins og þú vilt er að setja ró í hugann á þér; „Ég er rólegur“ segir þú við þig. Þegar þú talar við þig er mikilvægt að orða staðhæfingar um það sem þú vilt: „Ég er heilsuhraustur“ og „ég er kraftmikill“. Ég lofa þér það gerir kraftaverk því það tengir þig við guðshlutann í þér og það virkar.
Það býr í þér sköpunarorka sem þú munt opna fyrir á þessu ári. Sköpun getur verið allt frá því að vera list eða einhver hugmynd sem þú framkvæmir. Sterkasta tímabilið þitt er þegar vorið mætir þér – þá gengur allt upp. Alveg sama þó þú teljir hlutina ekki vera nógu góða, þá er það nú samt svo að þú hittir í mark. Þetta gæti einnig gerst örlítið fyrr á árinu.
Elsku bogmaðurinn minn!
Það er eiginlega ekki sanngjarnt hvað það gaman hjá þér! Svo miklir hæfileikar og heppni! Það hefst núna strax í janúar að leiðréttast það sem þér finnst að hafi verið óréttlátt. Þú færð að sjá að þú getur andað léttar og slakað á. Janúar verður þér góður og þú ert að fara inn í alls konar tímabil þetta ár. Ég sé litríkt tímabil þar sem þú ert bara að njóta. Þann 13. janúar, þegar tunglið er fullt í krabbamerkinu, eru ýmsir kraftar í kringum líf þitt og þarna er mikilvægt að vera pollrólegur og handviss um að allt fari vel því janúar er góður fyrir þig. 13. þess mánaðar er eini tíminn sem gæti hrist til líf þitt ef þú sýnir ekki ró og biðlund.
Elsku steingeitin mín.
Þetta ár sem blasir við þér mun gefa þér fullt af tækifærum til að hefja eitthvað nýtt. Þú færð töluna einn og það þýðir að upphafið núna gæti varað í nokkur ár. Þú verður að þora að taka skrefið, grípa tækifærið, mátt ekki hugsa þig of mikið um, þá er ekki víst að það næsta sem býðst þér sé eins gott. Þessi orka spannar yfir allt. Hún gerir breytingar eða betrumbætur á ástinni ef hún er til staðar nú þegar, hún býður upp á nýtt upphaf og nýtt eitthvað dásamlegt í ástarmálunum, sérstaklega í kringum sumarið eða júnímánuð (til að vera aðeins nákvæmari). Þú verður þá að vera til í tuskið og vera tilbúin að opna hjartað þitt og alls ekki sýna neina hræðslu.
Ég las svo skemmtilega bók um daginn og í henni stóð meðal annars: „Fear is faith, eða hræðsla er eitthvað sem þú trúir á. Strikaðu yfir allt sem tengist hræðslu, að efast, óttast, því þinn er mátturinn á þessu ári og gjafirnar eru í ríkum mæli.
Elsku vatnsberinn minn.
Árið þitt hefst með alls kyns drama sem aðrir kynda undir í kringum þig, þú ert sterkari en nokkru sinni áður því þú lætur þér fátt um finnast. Þú færð töluna 11 sem er aðaltalan á þessu ári og gerir hún líf þitt svo endalaust magnaðra, miklu meira spennandi og lætur þig einnig vera kærulausari og það er einmitt sem þú þarft.
Marsmánuður ber töluna þrjá til þín og það er tími til að slaka á, skemmta sér og taka lífið alls ekki of alvarlega því þú kemst ekki lifandi frá því hvort sem er! Ástarorka er yfir vorinu og þeir sem vilja leggja sér leið í faðm einhvers býðst eitt og annað, vonandi eitthvað skemmtilegt og spennandi, elsku vatnsberi. Margir eru ákveðnir að standa einir, keikir og sterkir og það er líka virðingarvert.
Elsku fiskurinn minn.
Þú hefur margþætta hæfileika, kannski einum of marga og þá er erfitt að velja hvað maður vill gera. Eitt hefur þú sem er aðalatriðið, þú getur nefnilega aðlagað þig að öllum hópum og öllum týpum sem eru gjörólíkar þér.
Þó þú sért bæði hákarl og gullfiskur (því þið syndið saman tveir) ertu líka kamelljón, svo fljótur að hugsa og breyta um liti alveg eins og það. Þitt merki er eitt heppnasta merkið í dýrahringnum á þessu ári, sama þó þú reynir að gera vesen úr hlutunum tekst þér það ekki!
Þú finnur leiðir til að víkka út hugann, framkvæmt nýjar hugmyndir og slakað meira á sem ég get sagt að er ekki alveg þinn stíll. Það vantar alveg stopparann á þig svo þú þarft að setja það inn í skipulagið að þennan dag ætlirðu að taka frí fyrir þig og vera bara á þínum núllpunkti, það læknar líka flestöll þín mein – að leyfa þér að vera til án þess að þú þurfir sífellt að vera að vinna og vinna og hamast í hamstrahjólinu.