Grétar Dór Sigurðsson lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu varðandi smálán.
Sæll Grétar Dór.
Má ganga að launum vegna smálána?
Kveðja,
JK
Ágæti lesandi.
Skilyrði þess að kröfuhafi, t.d. smálánafyrirtæki, geti gengið að eignum skuldara er að fyrir hendi séu skilyrði fjárnáms. Fjárnám er aðgerð sem sýslumaður framkvæmir að beiðni kröfuhafa og felur í sér að tekið er veð í eignum skuldara, ef þeim er að dreifa, til tryggingar greiðslu krafna á hendur honum. Kröfuhafi getur aðeins krafist fjárnáms hjá skuldara ef fyrir liggur heimild til að innheimta skuld með fjárnámi, t.d. dómur, úrskurður dómstóla eða dómsátt.
Í 6. kafla aðfararlaga nr. 90/1989 (afl.) er fjallað um andlag fjárnáms, þ.e. í hvaða eignum má gera fjárnám. Að því er varðar laun verður ekki gert fjárnám í kröfu um ógreidd laun eða annað endurgjald fyrir vinnu nema liðinn sé mánuður frá því unnið var til launanna eða endurgjaldsins, sbr. 1. mgr. 45. gr. afl. Auk þess verður ekki gert fjárnám í peningaeign sem er nauðsynleg til að standa straum af kostnaði um skamman tíma af framfærslu skuldarans og þeirra sem hann er framfærsluskyldur við, sbr. 3. tl. 1. mgr. 41. gr. afl.
Með öðrum orðum getur kröfuhafi almennt ekki gengið að mánaðarlegum launagreiðslum. Gildir þá einu hvort um er að ræða smálán eða aðrar skuldir.
Kveðja,
Grétar Dór Sigurðsson lögmaður.
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Grétari Dór og öðrum lögmönnum á Lögfræðistofu Reykjavíkur spurningu HÉR.