Hjónin Anna Laufey Þórhallsdóttir og Lúðvík Lúðvíksson hafa hreiðrað vel um sig í þjónustuíbúðum DAS á Sléttuvegi í Fossvoginum en þau fluttu þangað fyrir fjórum árum og sjá ekki eftir því. Þau segjast alltaf hafa haft jákvæðnina að leiðarljósi í gegnum lífið og þau bera það með sér. Anna Laufey er áttræð og Lúðvík er áttatíu og sex ára en þau giftu sig 1. febrúar 1969 og fagna því von bráðar 56 ára brúðkaupsafmæli.
Þau hættu bæði að vinna þegar þau náðu sextíu og sjö ára aldri en segjast aldrei hafa setið auðum höndum. „Það eru þrettán ár síðan ég hætti að vinna og nítján ár síðan Lúðvík hætti,“ segir Anna Laufey en Lúðvík segir að sér hafi þótt erfitt að hætta. „Ég var fyrrverandi skipstjóri og hafnsögumaður í Reykjavík og gegndi einnig störfum yfirhafnsögulögmanns og fyrst eftir að ég fór á eftirlaun fannst mér þetta eins og að vera bara að fara í gott sumarfrí. Þegar mér fannst þetta orðið heldur langt frí og ég var orðinn svolítið leiður þá fór ég að hitta karlana í vinnunni. Sem betur fer hitti ég þannig á að það var allt á hvolfi og brjálað að gera á hafnsöguvaktinni og þá sagði ég nei nú er ég hættur, lokaði hurðinni og þakkaði Guði fyrir að vera laus við þetta þras og vesen,“ segir Lúðvík.
Anna Laufey starfaði sem skólaritari í ein tuttugu og sjö ár en þegar hún varð sextíu og sjö ára var Lúðvík búinn að vera á eftirlaunum í u.þ.b. sex ár. „Ég var mjög tilbúin að hætta þrátt fyrir að elska vinnuna mína. Þegar vinnuveitandinn minn spurði mig um vorið, árið sem ég varð sextíu og sjö, hvað ég ætlaði að gera um haustið þá svaraði ég bara án þess að hugsa mig um að ég ætlaði að hætta. Við áttum sumarbústað norður í Fljótum í ein 53 ár og þegar Lúðvík fór á eftirlaun og ég var að vinna í skólanum þá dvöldum við allt sumarið þar en vorum í Reykjavík á veturna. Við héldum þessu svo áfram þegar ég hætti að vinna og vörðum tíma með vinum og fjölskyldu svo í rauninni fann ég lítið fyrir því að setjast í helgan stein. Nú og svo eigum við konurnar svo mörg áhugamál eins og handavinnuna,“ segir Anna Laufey og bætir við að þau eigi líka stóra fjölskyldu. „Við eigum þrjár dætur saman og Lúðvík átti eina fyrir og svo eigum við tólf barnabörn og sex barnabarnabörn sem við erum í mjög góðu sambandi við.“
Hjónin segja mikilvægt á þessum tímamótum að finna sér eitthvað að gera og þau bæta við að þau hafi alltaf átt mikið af vinum. „Við erum líka mikið fyrir að spila, bridge hefur alltaf verið okkar uppáhaldsspil og við áttum mjög góða spilafélaga lengi vel en svo náttúrlega heltist úr lestinni eins og gengur og gerist. Hér niðri er boðið upp á félagsvist og stutt í Bridgesambandið niðri í Síðumúla,“ segir Anna Laufey og Lúðvík bætir við að þau finni sér alltaf eitthvað til að dunda við. „Loksins þegar ég hætti að vinna fór ég að hafa tíma til að sinna spilamennskunni, hér áður fyrr var ég svo mikið í vaktavinnu að ég hafði lítinn tíma til að hlúa að áhugamálunum.“
Auk spilamennskunnar segir Anna Laufey að þau hafi lengi vel verið dugleg að fara í leikhús og þau hafi líka skráð sig í dans á efri árunum þótt þau séu hætt því í dag. „Við fórum í dansskóla á fullorðinsárum og fannst það gaman, það var eins og að fara á ball einu sinni í viku,“ segir hún og Lúðvík bætir hlæjandi við: „Það var á meðan maður gat enn hreyft sig.“ Þau segjast alltaf hafa haft jákvæðnina að leiðarljósi og hún hafi hjálpað þeim mikið í gegnum lífsins ólgusjó.
Þegar hjónin eru spurð hvernig þau hugi að líkamlegri heilsu þá segist Lúðvík vera orðinn heldur værukær og telur sig sitja heldur mikið í stólnum sínum en Anna Laufey grípur fram í og minnir á að hann fari tvisvar í viku til sjúkraþjálfara og bætir við að hún fari í jóga og vatnsleikfimi tvisvar í viku. „Ég fer líka tvisvar í viku í sjúkraþjálfun. Við vorum kannski ekkert sérlega dugleg að hreyfa okkur hér áður fyrr, það hefði mátt vera betra. Við bjuggum í þrettán ár í Mosfellsbæ eftir að við fórum á eftirlaun og þar vorum við mjög dugleg að fara í göngutúra og taka þátt í því sem var í boði fyrir eldri borgara þar. Við fórum til dæmis í ferðir, spiluðum og ég kíkti í handavinnustofuna,“ segir hún.
Þau segjast snemma hafa hugað að því hvað þau vildu fyrir framtíðina og hvar þau langaði að búa. „Dætrum okkar fannst við vera svolítið út úr þegar við bjuggum uppi í Mosfellsbæ en þær voru í Reykjavík og Hafnarfirði. Á meðan við vorum alveg hress og maður gat valið og hafnað vorum við búin að skoða mjög marga möguleika. Þegar við svo fréttum að það ætti að fara að byggja á Sléttuveginum og sáum myndir og teikningar að íbúðunum hér þá ákváðum við bara að bíða eftir því að þetta yrði tilbúið.“
Þau sóttu síðan um íbúð á fimmtu hæð sem snýr í norður og fengu hana en það hafi verið með ráðum gert að velja íbúð sem sneri í norður því flestir ef ekki allir biðji um íbúðir sem snúi í suður. „Við erum ekki mikið fyrir sól svo þessi íbúð hentar okkur afskaplega vel, hún er björt og við erum með gott útsýni í norður og sjáum Perluna vel. Hér er falleg síðdegis- og kvöldsól sem er alveg nóg fyrir okkur. Íbúðin sem við leigjum er u.þ.b. 95 fermetrar. Hér eru tvö svefnherbergi, stórt baðherbergi, stofa og opið eldhús ásamt yfirbyggðum svölum. Við erum líka með þriggja fermetra geymslu sem er gott því þá safnar maður engu drasli.“ Stærsta húsið sem þau bjuggu í var úti á Seltjarnarnesi þegar börnin voru lítil en þau segjast smám saman hafa verið búin að minnka við sig innbúið svo það hafi ekki verið erfitt að flytja í 95 fermetra. Í DAS-blokkinni á Sléttuvegi búa u.þ.b. 70 manns í 60 íbúðum en innangengt er í fleiri þjónustublokkir á svæðinu auk bílastæðaskýlis sem þau hjónin leigja. „Mér finnst frábært að þurfa ekki að skafa af bílnum í þessum snjó,“ segir Anna Laufey og bætir brosandi við að Lúðvík sé hættur að keyra og hún sé því hans einkabílstjóri.
Hverjir eru helstu kostirnir við að búa í þjónustuíbúðum sem þessum? „Fyrir það fyrsta er lyfta í blokkinni auk mötuneytis og kaffihúss sem er alveg til fyrirmyndar. Þar er boðið upp á mjög góðan og fjölbreyttan heimilismat. Við verðum líka að taka það fram að hér er algerlega dásamlegt starfsfólk, það er alveg einsdæmi hvað allir eru góðir við okkur. Hér er líka hárgreiðslustofa, fótsnyrtistofa, sjúkraþjálfari, jóga og stólaleikfimi. Félagslífið er öflugt og alls konar viðburðir og uppákomur reglulega eins og þorrablót, vorhátíð og hausthátíð. Dagdvöl er starfrækt á Sléttuvegi auk þess sem þar er handavinnuklúbbur og ýmislegt fleira. Nýlega var stofnað hér félag sem heitir Félag eldri borgara í Fossvogi og er fyrir fólk sem býr í póstnúmerum 103 og 108,“ segir Anna Laufey og Lúðvík skýtur inn í að félagið heiti Sléttuúlfar. „Fólk úr nærumhverfinu kemur oft í hádegismatinn þrátt fyrir að búa ekki í DAS-húsunum af því að mötuneytið er opið fyrir alla eldri borgara í Reykjavík en þetta gerir það að verkum að það er oft mikið um að vera í matsalnum,“ segja þau.
Mötuneytið er opið frá 10 á morgnana til fimm á daginn en auk hádegisverðarins er hægt að fá sér kaffi og léttar veitingar allan daginn. Anna Laufey og Lúðvík segjast fara oft í hádegismatinn en á kvöldin útbúa þau sér gjarnan eitthvert léttmeti í eldhúsinu í íbúðinni. „Auðvitað eldum við stundum því við erum eins og litlu krakkarnir, við borðum ekki allt sem er í mötuneytinu þó að yfirhöfuð sé maturinn þar sérlega góður,“ bæta þau hlæjandi við og benda á að einnig sé lítil búð starfrækt í blokkinni þar sem hægt er að fá snyrti- og gjafavöru ásamt ýmsu fleira. Matseðill er sendur í pósti og þau velja hvaða máltíðir þau vilja kaupa fyrir hverja viku sem hentar þeim vel.
Þau gera ýmislegt til að halda andlegri heilsu og nefna þar fyrst og fremst spilamennskuna. „Ég spila mikið bæði bridge með fólki og líka í símanum við einhverja aðila úti í heimi,“ segir Lúðvík og bætir við að hann sé núorðið að mestu hættur að lesa en hlusti mikið á hljóðbækur. Anna Laufey kveðst vera meira fyrir það að halda á bókinni. Hún fer í saumaklúbb að hitta vinkonurnar. „Ég er alltaf að hóa saman hópum eins og árganginum mínum úr skóla en ég ólst upp á Siglufirði, svo hittumst við líka sem vorum saman í Húsmæðraskólanum.“ Hún segir þau hjónin þar að auki enn vera að ferðast, þó mest innanlands núorðið. „Við erum búin að fara undanfarin fjögur ár á hverju vori á lúxushótel í Mývatnssveit með hópi eldri borgara í fimm nætur þar sem við njótum lífsins og förum í ferðir. Þetta gefur okkur mikið. Svo eigum við dóttur sem er bóndi í Aðaldal svo það gefur okkur tækifæri til að hitta fjölskylduna þar.“
Anna Laufey og Lúðvík hika ekki þegar þau eru að lokum spurð hvaða ráð þau geti gefið fólki sem er að komast á eftirlaunaaldurinn. „Fyrst og fremst að lifa lífinu lifandi! Ekki hætta og setjast út í horn og bíða eftir að eitthvað gerist heldur vera virkur og búa þannig til meiri gleði og lífshamingju í lífið. Það er líka afar mikilvægt að vera í góðum tengslum við fjölskylduna,“ bæta þau við og segjast jákvæð fyrir framtíðinni.