Lögmaðurinn Saga Ýrr Jónsdóttir og Sturla B. Johnsen læknir gengu í hjónaband í Suður-Afríku 1. mars. Þau voru stödd í golfferð ásamt vinahóp sínum þegar þau stungu af og létu pússa sig saman. Þetta var þó ekki beint skyndiákvörðun því áður en þau lögðu af stað í ferðina fór Saga í brúðkaupsverslunina Loforð, sem er í Reykjavík, og keypti kjól og slör. Hún laumaðist með þetta út í ferðatösku án þess að ferðafélagar hennar yrðu þess varir.
Sturla og Saga eru búin að vera saman í tvö og hálft ár.
Hann bað hennar rétt fyrir jólin, eða 21. desember, heima í stofu en hjónin festu nýlega kaup á fallegu húsi í Akrahverfinu í Garðabæ. Fyrr um daginn hafði hann laumast heim til foreldra hennar þar sem hann bað um hönd dótturinnar.
„Langþráður dagur runninn upp. Í okkar tilviki var ekki hindranalaust að fá að verða hjón en það er líka þannig að það sem maður þarf að hafa fyrir verður þeim mun dýrmætara. Þess vegna tókum við ákvörðun um að eyða þessum degi ein, án allra sem okkur þykir vænst um, og njóta augnabliksins einungis í návist hvors annars,“ segir Saga og bætir við:
„Presturinn sagði við okkur að nú væri nýtt líf hafið. Líf þar sem einmanaleiki yrði hverfandi þar sem við fyndum samastað í hvort öðru, þar sem erfiðleikar yrðu auðveldari því við myndum veita hvort öðru skjól. Þetta hitti beint í hjartastað því Stulli minn er svo sannarlega skjólið mitt, stoð mín og stytta,“ segir hún.
Hjónin ætla þó ekki að láta þessa tveggja manna athöfn duga heldur ætla þau að gifta sig í fleiri löndum og binda svo lokahnút með alvöru brúðkaupi og brúðkaupsveislu sumarið 2026!