Auður Jónsdóttir rithöfundur er gestur Haraldar Þorleifssonar, Halla, í hlaðvarpsþættinum Labbitúr. Auður hefur gefið út 15 skáldsögur, smásögur og barnabækur. Hún hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir Fólkið í kjallaranum. Í þættinum fer Auður yfir æsku sína og leiðina sem leiddi til farsæls ferils sem rithöfundur. Eins og fram hefur komið er hún barnabarn Nóbelskáldsins Halldórs Laxness.
Það var þó ekki afi hennar sem veitti henni mestan innblástur heldur konur. Eins og til dæmis móðir hennar, Sigríður Halldórsdóttir blaðamaður, móðursystir hennar Guðný Halldórsdóttir kvikmyndagerðakona og rithöfundurinn Isabel Allende.
Halli spyr Auði hvort það sé ekki rétt munað hjá honum að hún hafi farið að heiman kornung til að byrja með eldri manni.
„Ég er búin að vera rosalegur villingur alveg frá því ég er svona 14-15 eða 15. Svo byrja ég alltaf að fara vestur til Flateyrar að vinna í fiski. Er rosalega mikið þar og fílaði mig þar,“ segir Auður. Ári eftir að hún flytur vestur fellur snjóflóðið á Flateyri en hún var ekki á svæðinu þegar það gerðist.
Hún upplifði sig sem landlausa á þessum tíma en fór aftur vestur aðeins tveimur vikum eftir flóðið. Auður talar um að harmleikur eigi það til að draga fólk til sem er í ruglinu með sjálft sig.
Fyrir vestan kynntist hún sínum fyrsta eiginmanni á balli sem var 20 árum eldri en hún og rosalega drykkfelldur. Meðvirkni sem Auður talar mikið um í viðtalinu spilar hér þátt en hennar löngun hennar til að hjálpa var ríkari en raunverulegar undirliggjandi tilfinningar.
„Ég held ég hafi komið aftur því það var þægilegra að vera þar heldur en á verbúðinni,“ segir Auður og hlær.
Um rúmu ári síðar voru þau gift. Hún öðlaðist tilgang og hélt hún gæti hjálpað honum, leið eins og hann myndi deyja ef hún væri ekki með honum. Henni þótti raunverulega mjög vænt um manninn en var ekkert skotin í honum. Maðurinn lést úr heilablóðfalli nokkrum árum síðar eftir að þau skildu þegar hún var ólétt af syni sínum.
Það var amma Auðar sem gaf henni sparkið sem hún þurfti til að koma ferlinum almennilega á skrið.
„Gaf mér hundrað hundrað þúsund kall bara eins og mútur, bara lagði hann á borðið og sagði þú mátt eiga þetta ef þú ferð til útlanda og skilur við þennan fulla mann og klárar bókina þína,“ segir Auður sem talar um ömmu sína sem heitir einnig Auður sem algjöran klett í sínu lífi og segist hafa verið rosalega náin henni.
„Narratívan er soldið bundin við að tjá sannleikann. Sannleikurinn er svo oft svo rosalega skáldlegur. Það er svo rosalega oft að gerast 100 sinnum fáránlegir hlutir í lífinu en í einhverri skáldsögu og þú ert nú sjálfur bara gott dæmi um það. Þú getur ekki kokkað þetta upp, það myndi enginn trúa þessu fyrr en þetta hefur gerst,“ segir Auður og hlær.
Hún segist fylgja sannleikanum í skriftinni en eigi fremur til að fegra raunveruleikann en annað. Skrifar ekki til að einhver komi illa út heldur þvert á móti að reyna sjá það sem er fallegt í manneskjunum og reyna skilja þær, jafnvel þó þær geri einhver breyska hluti.
„Enda hefur tilgangurinn með skrifunum aldrei verið að það þurfi að segja eitthvað eða afhjúpa. Það er meira svona einmitt að reyna heila og skilja. Það hefur oft heilingarmátt fyrir aðra, um leið og þú ert búin að ljá hlutunum samhengi og orsakir þá er þetta ekki jafn drastískt. Það verður allt skiljanlegra,“ segir hún.
Halli spyr hvort hún hafi einhvern tíman skrifað svona ævintýrasögu þar sem bækur Auðar leyna oft á sér blæ af göldrum eða yfirnáttúrulegum hlutum. Hún segist hafa skrifað á þann veg er hún var yngri en svo hafi fyrsta bókin hennar endað í meiri raunsæisstíl þó útilokar hún ekki að skrifa meira slíkt efni í framtíðinni.
„Kannski ágerist þörfin fyrir það þegar maður þarf að vera svo mikið í blaðamennskunni,“ segir Auður.
Hægt er að hlusta á þáttinn hér fyrir neðan: