Eliza Reid fyrrverandi forsetafrú fer hraustlega út fyrir þægindarammann um þessar mundir því 27. mars lítur hennar fyrsta skáldsaga dagsins ljós, glæpasagan Diplómati deyr. Þótt hún
sé opin þá vildi hún ekki að fólk héldi að hún væri að skrifa um sjálfa sig þar sem aðalpersónan er sendiherrafrú Kanada.
Eliza varð heimsfræg á einni nóttu þegar Guðni Th. Jóhannesson eiginmaður hennar var kosinn forseti Íslands árið 2016.
Eftir að Guðni lét af embætti í sumar fluttu þau Eliza í hús í Garðabænum sem þau byggðu fyrir sig og börnin fjögur. Við hittumst á heimili þeirra og hún býður upp á heimabakaðar bollakökur úr döðlum og heilhveiti og sitthverju fleira. Við erum þó ekki að hittast til að ræða húsmuni, bakstur og uppröðun á húsgögnum, heldur glæpasöguna Diplómati deyr þar sem kanadísk sendiherrafrú er í aðalhlutverki. Þegar hún er spurð út í bókina segir hún að það sé erfitt að lýsa verkinu því hún megi ekki segja frá plotti bókarinnar. Eliza geystist fram á ritvöllinn þegar hún skrifaði bókina Sprakkar sem kom út 2021. Það kveikti í henni að skrifa meira þótt það hafi ekki legið í augum uppi að hún myndi skrifa glæpasögu.
„Mig langaði til að skrifa meira og prófa nýjar áskoranir. Sprakkar er byggð á viðtölum við konur og fjallar um jafnréttisbaráttu á Íslandi. Það að skrifa skáldsögu var allt annað mál því það var eitthvað sem ég hafði aldrei gert áður. Ég les mikið af glæpasögum og langaði til að kanna hvort ég gæti það,“ segir Eliza sem hófst strax handa eftir að Sprakkar kom út.
„Mér fannst ég þurfa að byrja strax því annars myndi ég aldrei byrja. Við höfum alltaf eitthvað annað að gera. Á þessum tíma var ég komin í rútínu með að skrifa svo ég sló til,“ segir hún.
En þá vandaðist málið. Þegar fólk skrifar fræðirit getur það gert grind, selt handritið og skrifað svo bókina. Ferlið er ekki þannig þegar fólk skrifar skáldsögu.
„Þá þarftu að skrifa alla bókina áður en þú getur selt hana. Öllum heiminum er sama hvort ég skrifa þessa bók eða ekki. Þegar þetta er svona þá þarf fólk að skrifa á hverjum degi. Og ég hugsaði með mér: „Hvað ef ég skrifa heila bók og svo fæ ég kannski bara nei takk þegar hún er tilbúin?“ Sem gæti alveg gerst. En svo hugsaði ég með mér, ég veit 100% að það mun enginn gefa út bókina ef ég skrifa hana ekki. Þetta var það sem hélt mér við efnið,“ segir Eliza sem býr yfir ríkulegu sjálfstrausti sem er mikilvægt við bókarskrif og reyndar kannski bara almennt í lífinu. Einn daginn voru fyrstu drög klár og þá fór boltinn að rúlla. Hann rúllaði reyndar svo vel að hún er búin með 70% af næstu bók sem er framhald af Diplómati deyr.
„Ég er að vinna í því núna að klára bók númer tvö. Ég þarf að klára hana í sumar.“
Persónusköpun skiptir máli í ritstörfum. Ég er forvitin að vita hvort Eliza hafi verið að skoða fólk með stækkunargleri síðan hún var lítil stelpa.
„Mér finnst persónur áhugaverðar og ég hef alltaf lesið mikið. Það var aldrei draumurinn minn að verða rithöfundur,“ segir hún og bætir við:
„Ég er mjög praktísk manneskja og fór að hugsa um þetta á praktískan hátt. Mig langaði að skrifa glæpasögu. Auðvitað þarf hún að gerast á Íslandi því ég þekki Ísland. En ég kem utan frá og fannst að aðalpersónan þyrfti að vera með svipaðan bakgrunn. Glöggt er gestsaugað. Þess vegna er aðalpersónan frá Kanada, kanadísk sendiherrafrú. Ég hef síðustu ár upplifað diplómataheiminn með ýmsum hætti og finnst hann bæði áhugaverður og mikilvægur og ég ber mikla virðingu fyrir honum. Kannski líka því þetta er heimur sem almenningur skilur ekki almennilega. Sumir halda að þetta fólk drekki bara kampavín en þetta fólk gerir miklu meira,“ segir Eliza sem valdi Vestmannaeyjar sem sögustað því eyja býður upp á svo mikla dramatík þegar allir á eyjunni eru fastir á sama stað vegna óveðurs.“
Til að útskýra betur segir Eliza að enginn karakter í bókinni sé byggður á núlifandi fólki sem hún þekkir.
„Ég myndi ekki vilja að fólk sem ég hef kynnst nýlega upplifði að ég væri að skrifa um það,“ segir hún.
Eliza segir að hún hafi ekki viljað að aðalpersóna bókarinnar væri lögreglukona heldur manneskja sem væri mannleg eins og við öll erum með kostum og göllum.
Er sendiherrafrúin kanadíska eitthvað lík fyrrverandi forsetafrú Íslands?
„Ég þekki það að vera þekkt sem kona einhvers. Mig langaði til að leika mér með það form. Þegar ég byrjaði að skrifa þá vildi ég ekki festast í klisjum eins og sendiherrafrúin væri miklu klárari en hún héldi eða að hún hefði ekki nægt sjálfstraust. Ég vildi ekki að hún væri laumualkóhólisti eða væri að berjast við þunglyndi. Þess vegna þurfti ég að finna eitthvað annað sem sýndi hennar mannlegu hlið,“ segir Eliza og vill alls ekki gefa upp hvað það er.
„Þegar ég var búin að skrifa fyrstu drög og umboðsmaðurinn minn var að lesa yfir þá sagði hún: „Þetta gengur allt upp og karakterar eru áhugverðir nema Jane, sem er aðalpersónan. Hún er ekki mjög eftirminnileg.“
Þá fattaði ég að ég var í raun hrædd við að lesendur héldu að ég væri að skrifa um sjálfa mig,“ segir Eliza og játar að hafa þess vegna verið á bremsunni og hafi fundið fyrir ótta. Eliza þurfti því að sleppa tökunum og láta gossa.
„Ef hún er að glíma við þetta vandamál þá gæti fólk haldið að ég, Eliza, væri að glíma við þetta vandamál. En hún er ekki ég og ég var ekki að reyna það. Ég var stressuð að fólk myndi hugsa það. En svo sleppti ég tökunum og hugsaði með mér að lesandinn mætti bara hugsa það sem hann vildi. Mér væri alveg sama. Ég ætlaði bara að skrifa skemmtilega og áhugaverða bók og vera óhrædd,“ segir hún og heldur áfram:
„Maðurinn hennar, sendiherrann, er ekki skemmtilegasti maðurinn í bókinni og ég hugsaði með mér að fólk mætti alls ekki hugsa að hann væri eins og Guðni. Ég ræð ekki hvað aðrir hugsa. Maður þarf að losna við þessa truflun,“ segir hún og hlær.
Þegar fólk hefur verið ábúendur á Bessastöðum, er það þá ekki að passa að hleypa fólki ekki of nálægt sér? Getur ekki tekið tíma að komast út úr því?
„Ég er mjög opin persóna, en ég hef ekki þörf fyrir að deila öllu úr mínu lífi. Ég er mjög meðvituð um það sem ég pósta á samfélagsmiðlum. Ég virði líka skoðanir barnanna minna og eiginmanns. Það er eitt sem kom mér á óvart við það að skrifa skáldsögu. Það er að ímyndunaraflið getur verið svo miklu meira prívat en maður áttar sig á. En maður ræður því ekki hvað öðrum finnst um mann,“ segir hún.
Horfir þú ekki öðruvísi á samfélagið eftir að hafa búið á Bessastöðum?
„Að vera í þessu hlutverki, að vera maki þjóðhöfðingja í átta ár, gerði það að verkum að ég varð jákvæðari manneskja. Ég fékk einstakt tækifæri til að kynnast fólki um land allt og út um allan heim. Við getum verið svo neikvæð og það er skiljanlegt. Heimurinn stendur frammi fyrir mörgum áskorunum sem þarf að taka alvarlega. En, þegar ég fór á Hvammstanga og hitti konu frá Bandaríkjunum sem er búin að stofna brúðuleikhús í 600 manna samfélagi eða hitti kórstjórann á Ísafirði sem er að gera góða hluti þá er auðvelt að hrífast með. Að fá tækifæri til að hitta allt þetta fólk veitti svo mikinn innblástur. Ég er bara svo þakklát fyrir að hafa fengið þetta tækifæri.“
Hvernig hefur lífið verið eftir að þið fluttuð frá Bessastöðum?
„Ég þarf ekki að mála mig eins oft,“ segir hún og hlær.
Var ekki mikið álag að þurfa alltaf að vera glansandi fín?
„Sko, mér fannst það ekki sérlega erfitt. Mér fannst það yfirleitt bara gaman. Ég var í þeirri stöðu að ég gat valið hvað ég gerði og hvað mig langaði að gera. Ég var ekki skuldbundin til að gera neitt, en fannst þetta mikill heiður og gaman að geta haft jákvæð áhrif á samfélagið.“
Við tölum um sjálfstraust og Eliza segir að það hafi hjálpað henni þegar hún var forsetafrú.
„Ég er með ákveðið sjálfstraust og líður vel í sjálfri mér. Það hjálpar örugglega mjög mikið. Þetta er svona eins og með bókina mín. Ef fólki líkar hún ekki þá mun sólin samt rísa næsta dag. Ég geri mitt besta og reyni að lifa lífinu þannig. Ég reyni að breyta því sem ég get breytt en stýri því ekki sem ég get ekki stýrt.“
Talandi um sjálfstraust og það að nýta tækifærin. Eliza hefur verið á faraldsfæti eftir að þau fluttu af Bessastöðum þar sem hún hefur haldið erindi um kvennabaráttu og jafnréttismál.
„Ég var búin að byggja upp sambönd og mér finnst nauðsynlegt að nýta röddina mína. Síðan við fluttum af Bessastöðum hef ég farið til New York á ráðstefnu, til Dubai, Armeníu og fleiri staða. Ég hef haldið fyrirlestra um það hvernig hægt er að nýta óvænt tækifæri í lífinu. Sagan mín, að sveitastelpa frá Kanada endi á að giftast þjóðhöfðingja Íslands, er klikkuð saga.
Ég vildi gera eitthvað með þetta. Það er ekki til nein handbók fyrir maka þjóðhöfðingjans. Ég reyndi að nýta þetta eins mikið og ég gat og varpa ljósi á þau málefni sem mér finnst mikilvæg.
Þá er ég að reyna að segja þessa sögu. Ég er ung manneskja, ég er ekki orðin fimmtug. Ég er með góð erlend sambönd og hef eignast marga vini,“ segir Eliza sem er á leið til Þýskalands að tala um jafnréttismál. Í leiðinni ætlar hún að halda viðburði í sendiráðinu í Berlín ásamt forsetafrú Þýskalands. Í apríl verður Eliza með rithöfundabúðir hérlendis, Iceland Writers Retreat, sem hún hefur staðið fyrir síðustu 11 ár.
„Mér finnst gaman að ferðast, kynnast fólki og nýjum upplifunum. Þegar ég fæ tækifæri þá gríp ég það,“ segir hún.