Í nýjasta þætti Labbitúrs fær Haraldur Þorleifsson, Halli, til sín einn ástsælasta leikara þjóðarinnar, Halldóru Geirharðsdóttur. Halldóra hefur um áratugaskeið verið stórt nafn í íslenskri leiklist og kvikmyndagerð eða allt frá Englum alheimsins til Konu fer í stríð. Í viðtalinu fer hún yfir langan og litríkan feril, en einnig yfir persónuleg tímamót í lífi sínu og nýjar áherslur.
Halldóra ræðir ákvörðunina um að hætta störfum í leikhúsinu og kenna ekki lengur við Listaháskóla Íslands. Hún lýsir því hvernig löngun og þrá til að fá tíma fyrir sjálfa sig og geta stjórnað eigin lífi, með meiri sveigjanleika og frelsi. Þetta var stór ákvörðun eftir áratuga starf í leiklistinni, en Halldóra segir það hafa verið nauðsynlegt til að hleypa inn nýjum kafla í lífinu.
Hún segir að ákvarðanir um að hætta hafi ekki verið teknar af léttúð, heldur hafi það tekið á.
„Núna er ég bara að kafna. Ég get ekki látið stjórna tímanum. Ég verð að geta ákveðið að mig langar til Marokkó. Ég verð að geta farið á skíði með vinkonu minni í janúar. Ég hef aldrei átt tímann,“ segir Halldóra. Það þurfti mikið til að hún setti sjálfa sig í fyrsta sæti.
„Ég hætti í leikhúsinu því ég varð að fá eina helgi í vetur til að fara í skíðafrí með börnunum mínum. Ég ætla ekki að deyja og hafa aldrei farið á skíði til útlanda með börnin mín,“ segir hún.
Einn stór hluti þáttarins snýst um hvað það þýðir að eldast í sviðsljósinu og hvernig faglegur metnaður, kulnun, þroski og sjálfsþekking mætast. Hún talar um hvernig hún fann að „kyndillinn slokknaði“ og þörfin til að gefa af sér í leikverki sem hún brann ekki lengur fyrir, hreinlega hvarf. Þetta varð til þess að hún fór að leita að nýjum leiðum – bæði listilega og persónulega.
„Ég verð að fá að stjórna tímanum,“ segir Halldóra og bætir við að hún hafi verið búin að gefa leiklistinni meira en þrjátíu ár: „Það dó kyndillinn inn í mér sem að gerir það að verkum að mér finnst í lagi að fórna tímanum mínum fyrir leikhúsið.“
Í þættinum ræðir hún einnig um það að læra að segja nei, forgangsraða eigin tíma og taka meira tillit til lífsins utan leikhússins. Hún fer yfir sjálfsvinnu, ferðalög, tónlistarnám og áhuga sinn á kerfum eins og Human Design, þar sem hún reynir að skilja betur hvernig fólk virkar.
Þátturinn fjallar líka um tilraunir hennar til að leika erlendis, væntingar og vonbrigði með kvikmyndahlutverk og hvernig hún lærði að sætta sig við að hlutirnir þróast ekki alltaf eins og maður hafði vonað. Hún talar opinskátt um mistök, ósætti og hvernig hún hefur unnið með sjálfa sig í gegnum þau ferli.
Að lokum fer Halldóra yfir hugmyndina um að skapa eitthvað sjálf – hvort sem það sé leikrit, handrit eða tónlist. Hún hefur í dag meiri þörf fyrir að gera list á sínum eigin forsendum og búa til rými fyrir sjálfa sig í stað þess að sækjast eftir hlutverkum í öðrum verkum.
Hún undirstrikar að hún sé ekki hætt að skapa – aðeins hætt í leikhúsinu eins og það var áður. Halldóra er í dag meira upptekin af tónlist, flautuspili og því að skapa út frá öðrum grunni en áður.
„Ég ætla fyrst bara að mastera þessa þverflautu mína. Ég spila bara tvær mínútur á dag, stundum fimm. Ég er bara orðin betri en ég var.“
Halldóra hefur engin áform um mikinn feril með flautunni hins vegar og sækist bara í bætingar. Hún vill geta tekið þátt í að skapa einhverskonar stund og segist ekkert vera stefna á að gefa út neina plötu
„Ég vil bara búa til eitthvað sem skiptir máli fyrir mig og sem fær mig til að blómstra.“