Andrea Röfn Jónasdóttir athafnakona og eiginmaður hennar Arnór Ingvi Traustason knattspyrnumaður fengu boð í formlegan kvöldverð hjá sænsku konungshöllinni. Kvöldverðurinn var haldinn vegna heimsóknar Höllu Tómasdóttur forseta Íslands og eiginmanns hennar Björns Skúlasonar.
Klæðaburður Andreu og Arnórs var hinn glæsilegasti. Andrea var klædd í síðan, ljósan silkisatínkjól, hárið var greitt aftur og hvítir eyrnalokkar stóðu út úr.
Arnór var klæddur í svört kjólföt, hvíta plíseraða skyrtu, hvíta silkislaufu og svarta lakkskó.
Hjónin eru búsett í Norrköping í Svíþjóð þar sem hann spilar fótbolta.
Andrea deildi mynd af þeim fyrir utan höllina á Instagram.
„Mikill heiður að fá boð í konunglegan galakvöldverð í sænsku konungshöllinni í tilefni af opinberri heimsókn forseta Íslands, Höllu Tómasdóttur, til Svíþjóðar,“ skrifaði hún.