Auðunn Blöndal, Steinþór Hróar Steinþórsson og Egill Einarsson, þríeykið úr FM95BLÖ, hafa verið mikið í sviðsljósinu undanfarið vegna fermingarveislu FM95BLÖ sem fram fór í Laugardalshöll síðastliðinn laugardag. Þessi fermingarveisla fór það hressilega úr böndunum að fólk slasaðist.
Eins og áður hefur verið greint frá á mbl.is leituðu fimmtán einstaklingar á bráðamóttöku eftir tónleikana. Í dag fóru skipuleggjendur viðburðarins og þeir sem sáu um öryggisgæslu á fund með lögreglu til að fara yfir atburðina og ræða hvað hefði mátt fara betur.
Þríeykið hefur lýst yfir miklum vonbrigðum og segjast miður sín yfir því að upplifun margra tónleikagesta hafi endað illa. Í kjölfarið hafa þeir nýtt daginn í dag til að hafa samband við sem flesta sem lentu í leiðindum á tónleikunum og bjóða þeim uppbót fyrir slæma reynslu.
Margir tónleikagestir hafa lýst yfir ánægju sinni með viðbrögð þríeykisins á félagsmiðlum og segja það til fyrirmyndar hvernig þeir hafa tekist á við málið. Í Facebook-færslum kemur fram að þeir taki sér góðan tíma til að ræða við fólk, fara yfir hvað fór úrskeiðis og hvernig gestir upplifðu aðstæður.