Lafði Díana Spencer, betur þekkt sem Díana prinsessa, var engin venjuleg prinsessa. Hún var fyrsta eiginkona Karls Bretaprins og móðir þeirra Vilhjálms og Harrys. Díana fæddist í upphafi sjöunda áratugarins og giftist inn í bresku konungsfjölskylduna tæplega tvítug að aldri. Þótt Díana og Karl hafi skilið árið 1996 – og hún dáið ári seinna – lifir hún í vitund fólks víða um veröld sem prinsessa fólksins.
Eitt af því sem Díana gerði betur en margir aðrir var að klæða sig á óaðfinnanlegan hátt. Eftirfarandi atriði eru í hennar anda:
Prinsessa fólksins
Díana bar sig einstaklega fallega og má rekja það m.a. til þess að hún lagði stund á klassískan ballett. Hún hafði gaman af fólki, sér í lagi börnum. Hún bar af öðrum í opinberum heimsóknum. Hún gaf af sér, brosti og sýndi fólki áhuga. Sama hvernig hún var klædd sýndi hún og sannaði að falleg persóna gerir fatnað og fylgihluti meira spennandi.
Litli svarti kjóllinn
Allir tískuhönnuðir heimsins vildu klæða Díönu. Þótt hún hafi án efa oft haft úr mörgu að velja var grunnurinn að fataskápnum hennar einfaldur vandaður fatnaður.
Hún átti nokkra litla svarta kjóla. Þessir kjólar voru fallegir meðal annars með hvítum perlum og demöntum.
Vandaður hversdagsklæðnaður
Í brúðkaupsferð þeirra Díönu og Karls vakti hún athygli allra með fallegum hversdagsklæðnaði. Þegar hún klæddi sig upp á hversdags var hún alltaf með fallega greitt hárið og lágstemmda förðun. Hún valdi fallegar flíkur úr gæðaefnum.
Það er mikil sjálfsvirðing fólgin í því að klæða sig fallega hversdags, enda eru flestir dagar einstakir, þótt einungis sé haldið til vinnu og heim.
Berar axlir
Þótt Díana héldi kynþokkanum vanalega í skefjum komst hún upp með að sýna handleggi og/eða bringu betur en margir aðrir.
Kjólar sem sýndu annan handlegginn beran voru í hennar anda.
Hún átti slíka kjóla í alls konar litum en náði að klæðast þeim þannig að þeir minntu meira á gullöld kvikmyndaiðnaðarins en lostafullar nætur áttunda áratugarins.
Blúndur
Það sem Díana gerði betur en margur annar var að klæðast blúnduskyrtum sem rétt gægðust upp úr jökkunum.
Þetta útlit var mjög eftirsótt og á sér langa sögu þótt fáar konur hafa náð að gera stílinn jafn kvenlegan og Díana gerði.
Hálsklútar
Díana kunni að nota klúta. Hún setti þá ýmist í hárið, um hálsinn eins og herrabindi eða vafði þeim fallega um mittið til að undirstrika mjótt mittið og vaxtarlagið.
Fallegur hálsklútur við breskan tweed-fatnað er einstaklega viðeigandi og hefur haldið sínum sessi í gegnum áratugina.
Höfuðfat
Díana var gjarnan með höfuðföt og hafði hún einstakt lag á því að finna hatta og húfur sem fóru vel við fatnaðinn sem hún var í hverju sinni. Það sem gerði stíl hennar áhugaverðan var hversu látlaust hár hennar var að jafnaði. Þetta gerði það að verkum að hún var látlaus og aðlaðandi og naut sín fagurfræðilega án áreynslu.
Fylgihlutir
Díana var hrifin af demöntum og perlum. Hún hafði lag á því að finna réttan látlausan fatnað þegar hún vildi láta fylgihlutina njóta sín. Einnig var hún dugleg að bera stórar perlur við alls konar tilefni. Skartgripirnir sem hún bar voru seinna seldir á uppboðum og greiddar háar fjárhæðir fyrir það sem hún hafði áður gengið með í opinberum heimsóknum.