Gullsmiðirnir Sigríður Edda Bergsteinsdóttir og Þórbergur Halldórsson snúa vörn í sókn og eru búin að opna skartgripaverslunina PRAKT á Laugavegi 82. Þau eru fólkið á bak við skartgripamerkið SEB.
„Við ákváðum að sameina krafta okkar með stofnun PRAKT og leggja áherslu á að hanna og smíða skartgripi fyrir þá sem kjósa fjölbreytileika við val á skartgripum. Planið var að opna skartgripaverslunina í lok mars, eða á sama tíma og hin árlega HönnunarMars-hátíð átti að fara fram. Við frestuðum opnuninni hins vegar um nokkrar vikur vegna kórónuveirunnar. Við erum orðin spennt að sýna fólki það nýjasta í skartgripahönnuninni okkar og mér sýnist þetta sumar ætla að verða sumarið þar sem flest allt er leyfilegt í skartgripatískunni, eins og að blanda saman ólíkum skartgripum í mismunandi litatónum, stórir eyrnalokkar verða líka áfram áberandi í sumar,“ segir Sigríður Edda.
Hún segir að verslunarhegðun fólks sé að breytast og segir stolt frá því að allir þeirra skartgripir séu hannaðir og smíðaðir í verslun þeirra við Laugaveg.
„Það hefur sannað sig í breyttu landslagi undanfarnar vikur að það er dýrmætt að geta haldið utan um allt framleiðsluferlið sjálf, frá hugmynd til tilbúinnar vöru. Við erum að opna nýja verslun á sérstökum tímum og einmitt á tímum þar sem fólk þyrstir í nýjar og spennandi vörur. Það er líka mikilvægt á tímum sem þessum að efla bjartsýni og skapandi krafta í samfélaginu og við hvetjum fólk til að kynna sér dagskrá HönnunarMars-hátíðarinnar,“ segir hún.
Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.