„Ég var byrjuð að mála mig um leið og ég mátti það“

Ásta María Vestmann er förðunarfræðingur að mennt og útskrifaðist úr …
Ásta María Vestmann er förðunarfræðingur að mennt og útskrifaðist úr Reykjavík Makeup School. Samsett mynd

Ásta María Vestmann er 21 árs förðunarfræðingur sem hefur að eigin sögn verið með puttana ofan í förðunarvörum frá því hún var lítil. Fyrst um sinn stalst Ásta ofan í snyrtibuddu móður sinnar en þegar hún byrjaði að mála sig í áttunda bekk jókst áhuginn enn meira.

Þegar Ásta útskrifaðist úr Menntaskólanum í Reykjavík ákvað hún svo að skrá sig í förðunarnám hjá Reykjavík Makeup School og er í dag sjálfstætt starfandi förðunarfræðingur.

„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á förðun og húðumhirðu. Fyrir rúmum tveimur árum kynntist ég vinkonu minni sem hafði lengi verið förðunarfræðingur og hún hvatti mig til að sækja um í Reykjavík Makeup School og ég kýldi bara á það. Þetta var algjör skyndiákvörðun en í dag er þetta eitt það besta sem ég hef gert fyrir sjálfa mig. Mér finnst það vera forréttindi að fá að vinna við áhugamálið mitt og ég er svo þakklát fyrir að geta gert það,“ segir Ásta.

Ásta segist hafa tekið algjöra skyndiákvörðun þegar hún skráði sig …
Ásta segist hafa tekið algjöra skyndiákvörðun þegar hún skráði sig í námið.

Hvenær byrjaðir þú að mála þig?

„Ég hef alltaf verið með puttana í förðunarvörum alveg síðan ég var lítil. Ég var alltaf að stelast í snyrtibudduna hennar mömmu og prófa hennar dót en ég fékk ekki að byrja að mála mig fyrr en ég var komin í sjöunda eða áttunda bekk. Fyrir það suðaði ég bara í frænku minni um að mála mig eins og Silvíu Nótt sem var mikil fyrirmynd hjá fimm ára mér. En förðunaráhuginn kviknaði mjög snemma og ég var byrjuð að mála mig um leið og ég mátti það.“

Áhugi Ástu á förðun og snyrtivörum kviknaði snemma.
Áhugi Ástu á förðun og snyrtivörum kviknaði snemma.

Hvernig farðar þú þig dagsdaglega?

„Yfirleitt er ég bara léttmáluð dagsdaglega. Ég er eiginlega alltaf með Les Beiges Water-Fresh Tint-ið frá Chanel, smá Teint Idole-hyljara frá Lancôme, krem-bronzer frá Chanel eða Nars og kinnalit í litnum So Natural eða Totally Synced frá Mac. Svo er ég alltaf með varablýant og gloss og síðan augabrúnagel og brett augnhár. Það fer eftir dögum hvort ég nenni að vera með maskara en minn uppáhalds og sá eini sem ég nota er Lash Paradise frá L'Oréal með vatnsheldri formúlu.“

Dagsdaglega er Ásta yfirleitt með létta og fallega förðun.
Dagsdaglega er Ásta yfirleitt með létta og fallega förðun.

En fyrir fínni tilefni?

„Þegar ég er að mála mig fyrir fínni tilefni þá finnst mér alltaf gaman að vera svolítið „glam“. Ég er mikið að vinna með dökka augnblýanta og „smokey“ augnfarðanir, misjafnt hvort ég vilji vera með matt eða glimmer. Ég legg mjög mikla áherslu á að vera með fallega húð þar sem mér finnst það langmikilvægast til þess að lokaútkoman sé falleg.

Ég legg mikið í að undirbúa húðina vel áður en ég farða mig því ef grunnurinn er ekki góður þá mun förðunin að öllum líkindum ekki verða jafn falleg og hún gæti orðið. Til að undirbúa húðina er ég mikið að vinna með Nordic Skin Peel frá Skyn Iceland og nærandi rakakrem. Að mínu mati eru fallegustu farðarnir Haus Labs-farðinn og Shiseido Syncro Skin Radiant-Lifting-farðinn og ég flakka mikið á milli þeirra, get hreinlega ekki gert upp á milli þeirra.“

í förðunum sínum leggur Ásta áherslu á fallega húð.
í förðunum sínum leggur Ásta áherslu á fallega húð.

„Lokaskrefið og eitt það mikilvægasta eru varirnar. Ég móta þær alltaf með varablýanti, set varalit og smá gloss til að fá gott „dimension“. Ég er mikill aðdáandi dekkri blýanta með ljósari varalitum og uppáhalds „varacombo-ið“ mitt í augnablikinu er varablýantur frá Mac í litnum Stone, varalitur frá Anastasia Beverly Hills í litnum Haze og Anastasia Beverly Hills gloss í litnum Cantaloupe til að setja punktinn yfir i-ið.“

Ásta er hrifin af því að nota dekkri varablýanta og …
Ásta er hrifin af því að nota dekkri varablýanta og ljósari varaliti, en glossið setur svo punktinn yfir i-ið.

Hvað tekur þig langan tíma að gera þig til?

„Það er misjafnt hvað það tekur mig langan tíma að græja mig. Ég er kannski svona 10 til 15 mínútur að græja mig dagsdaglega en get verið allt frá hálftíma yfir í einn og hálfann tíma að mála mig fyrir fínni tilefni, það fer bara eftir því hvort ég sé í skapi til að dúlla mér við förðunina eða ekki. Mér finnst tíminn sem ég eyði í að mála mig vera mikilvægur tími sem ég eyði með sjálfri mér og oft er það mín hugleiðsla að gera mig til.“

Það tekur Ástu mislangan tíma að gera sig til, en …
Það tekur Ástu mislangan tíma að gera sig til, en fyrir fínni tilefni getur hún verið allt frá hálftíma yfir í einn og hálfan tíma að mála sig.

Hvernig hugsar þú um húðina?

„Ég legg mjög mikla áherslu á góða húðumhirðu. Ég er alltaf með sólarvörn á daginn en kvöldin geta verið mismunandi fyrir mig. Ég er mikill aðdáandi ávaxtasýra og andlitsolía. Sum kvöld einblíni ég á að veita húðinni raka og næringu en önnur kvöld gríp ég í sterkari vörur. Fólk er oft á tíðum hrætt við að nota þessi efni en bæði ávaxtasýrur og andlitsolíur geta gert kraftaverk fyrir húðina – maður þarf bara að finna réttu vörurnar sem henta manni.

Ég var að glíma við mikið af hormónabólum og mikinn þurrk á tímabili og ákvað að skella mér í svokallað Skin Analyzer hjá Rebekku Einarsdóttur á snyrtistofunni Dimmalimm og með hennar hjálp komst húðin mín í miklu betra jafnvægi og ég er eiginlega alveg laus við þessi vandamál.“

Ásta er með fallega húð enda hugsar hún vel um …
Ásta er með fallega húð enda hugsar hún vel um hana.

Uppáhaldssnyrtivörur um þessar mundir?

„Uppáhaldssnyrtivörurnar mínar í augnablikinu eru Brow Freeze-augabrúnagelið frá Anastasia Beverly Hills, Glow Enhancer frá Fenty Beauty, Cherry Blossom-púðrið frá HudaBeauty og augnblýantarnir Cupids Arrow frá Nabla.“

Það eru nokkrar vörur sem eru í sérstöku uppáhaldi hjá …
Það eru nokkrar vörur sem eru í sérstöku uppáhaldi hjá Ástu um þessar mundir.

Hvað dreymir þig um að eignast í snyrtibudduna?

„Óskalistinn er alltaf langur hjá mér þegar kemur að förðunarvörum en efst á óskalistanum núna er nýja augnskuggapalettan frá MakeupbyMario – er búin að vera mikið að vinna með lúkk með kaldari tónum upp á síðkastið og ég verð að eignast hana! Svo er ég líka mjög spennt fyrir mörgum Patrick Ta-vörum og væri til í að bæta þeim við í safnið.“

Efst á óskalista Ástu er nýja augnskuggapallettan frá MakeupbyMario.
Efst á óskalista Ástu er nýja augnskuggapallettan frá MakeupbyMario.

Hvernig myndir þú lýsa fatastílnum þínum?

„Það fer algjörlega eftir tilefni en mér finnst gaman að leika mér með mismunandi áferðir, efni og snið.“

Ásta er með flottan fatastíl og þykir gaman að leika …
Ásta er með flottan fatastíl og þykir gaman að leika sér með mismunandi áferð, efni og snið.

Hvernig klæðir þú þig dagsdaglega?

„Yfir vetrartímann er ég mikið að vinna með „layering“, mismunandi snið af gallabuxum, leðurbuxur eða einhverjar þægilegar buxur eins og Samsøe Samsøe Hoys-buxurnar með bolum, prjónapeysum eða hettupeysum og flotta jakka yfir. En um leið og það fer að hlýna þá elska ég að vera í allskyns hlýrabolum, síðum pilsum, gallapilsum og sætum jökkum.

Ég er yfirleitt alltaf í „boots“ yfir vetrartímann en sandölum eða hælum yfir sumarið. Ég er yfirleitt frekar „basic“ svona dagsdaglega þegar kemur að grunninum en ég er mikið fyrir það að poppa dress upp með flottum jökkum og skóm. Það er hægt að gera svo margt með t.d. gallabuxum og hefðbundnum bol svo það skiptir mig miklu máli að eiga góðar grunnflíkur og bæta svo „statement pieces“ við það. Svo elska ég auðvitað líka kósíföt og þar eru jogging-gallarnir frá Metta í mjög miklu uppáhaldi.“

Ásta leggur áherslu á að eiga góðar grunnflíkur í fataskápnum.
Ásta leggur áherslu á að eiga góðar grunnflíkur í fataskápnum.

En þegar þú ferð eitthvað fínt?

„Ég elska að klæðast fallegum kjólum, pilsum og flottum toppum. Ég nýti hvert tækifæri sem ég fæ til þess að fara í hælaskó eða há „boots“ og mér finnst skór skipta mjög miklu máli fyrir heildarlúkkið. Ég er mjög hrifin af blúndu, glimmerefni og aðsniðnum flíkum. Það skiptir mig líka miklu máli að vera í yfirhöfn sem passar bæði vel við dressið og tilefnið – ég elska pelsa og loðjakka og svo er ég líka mjög hrifin af mismunandi leðurjökkum. Yfir vetrartímann hallast ég meira að síðkjólum og einhverjum kúl sokkabuxum en á sumrin er ég oft mikið litríkari og finnst geggjað að vera í stuttu pilsi, berleggja og í flottum hælum þegar veður leyfir.“

Ásta er sérstaklega hrifin af blúndu, glimmerefni og aðsniðnum flíkum.
Ásta er sérstaklega hrifin af blúndu, glimmerefni og aðsniðnum flíkum.

Bestu fatakaupin?

„Uppáhaldsflíkin mín er 100% „vintage“-pels sem amma gaf mér fyrir nokkrum árum. Annars er ég nýlega búin að kaupa mér sjúk „boots“ frá Kalda sem ég fann á lagersölu hjá þeim.“

Ásta elskar pelsa og loðjakka.
Ásta elskar pelsa og loðjakka.

Áttu þér uppáhaldsmerki? Hvar verslar þú oftast?

„Ég legg mikla áherslu á að kaupa föt sem eru vel gerð og úr góðum efnum. Það skiptir mig meira máli að eiga flíkur í miklum gæðum heldur en að kaupa bara eitthvað sem er flott eða í tísku. Ég vil geta notað fötin mín oftar en einu sinni og á marga mismunandi vegu. Ég versla mest erlendis, aðallega í Evrópu, eða á netinu. Ef ég ætti að velja eitt uppáhaldsfatamerki þá væri það örugglega Skims – fötin frá Skims eru vel sniðin og frábært úrval af grunnflíkum sem hægt er að dressa upp og niður. Svo er ég alltaf ótrúlega hrifin af skandinavískri og íslenskri hönnun.“

Ásta leggur áherslu á að kaupa gæðaflíkur og góðum efnum.
Ásta leggur áherslu á að kaupa gæðaflíkur og góðum efnum.

Hvað er efst á óskalistanum í fataskápinn?

„Efst á óskalistanum hjá mér Quilted-jakkinn frá Aftur. Ég er sjúklega hrifin af fötunum frá þeim og hef fjárfest í nokkrum flíkum frá þeim. Svo eru líka tryllt kúrekastígvél frá Jodis mjög ofarlega á óskalistanum hjá mér.“

Efst á óskalista Ástu er jakki frá Aftur.
Efst á óskalista Ástu er jakki frá Aftur.

Hvað er fram undan hjá þér?

„Ég er búin að vera að gæla við það að fara í snyrtifræði næsta haust. Ég er búin að prófa háskólanám en fann mig ekki í því svo ég settist niður með sjálfri mér og tók ákvörðun um að finna mér eitthvað að gera sem hentaði mínu áhugasviði betur. Bæði förðun og húðumhirða eru ein af mínum stærstu áhugamálum og mér finnst að maður eigi að vinna við það sem manni finnst skemmtilegt og veitir manni innblástur. Fjölbreytni skiptir mig miklu máli í starfi og mér finnst æðislegt að fá að kynnast nýju fólki.“

Það er margt spennandi framundan hjá Ástu!
Það er margt spennandi framundan hjá Ástu!
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál