Alltaf verið markmiðið að stofna eigið fatamerki

Sverrir Anton Arason lét langþráðan draum rætast þegar hann stofnaði …
Sverrir Anton Arason lét langþráðan draum rætast þegar hann stofnaði eigið fatamerki. Ljósmynd/Magnús Óli

Sverrir Anton Arason er 25 ára gamall fatahönnuður sem lét langþráðan draum rætast þegar
hann stofnaði eigið fatamerki, Arason, eftir að hann útskrifaðist sem fatahönnuður frá Listaháskóla Íslands.

Sverrir opnaði netverslun Arason í september 2023 og síðan þá hefur boltinn rúllað, en í kjölfarið var hann tvisvar sinnum með svokallaða pop-up-verslun fyrir vörurnar og í dag hefur hann opnað verslunarrými í miðbæ Reykjavíkur þar sem hann stendur vaktina á milli þess sem hann hannar flíkur fyrir merkið sitt.

Í dag hefur Sverrir opnað verslunarrými í miðbæ Reykjavíkur.
Í dag hefur Sverrir opnað verslunarrými í miðbæ Reykjavíkur. Ljósmynd/Magnús Óli

Sverrir er alinn upp í kringum mikla myndlist og ljósmyndun og segir áhugann á tísku og fatahönnun því hafa kviknað snemma. „Ég hef alltaf kunnað að meta gæði og fallega hönnun í hverju sem er. Tíska er blanda af svo mörgu spennandi, ætli það sé ekki ástæðan fyrir að ég valdi fatahönnun,“ segir hann.

Skemmtilegt að sjá hugmynd verða að veruleika

Aðspurður segir Sverrir það alltaf hafa verið markmiðið að stofna eigið merki. „Áður en ég fór í fatahönnun var ég búinn að ákveða að ég ætlaði að stofna eigið merki. Ég er hins vegar ánægður að hafa ekki gert það áður en ég kláraði fatahönnunina. Maður lærir gríðarlega mikið á þessum þremur árum og þroskast mikið sem hönnuður og einstaklingur,“ segir hann.

Sverrir segir ferlið á bak við Arason í heild sinni hafa gengið vel og verið afar lærdómsríkt. „Ég er að læra mikið á stuttum tíma og hver einasti dagur felur í sér ný tækifæri. Ég hanna samhliða því að standa vaktina í búðinni minni, og sé um flesta hluti sjálfur í fyrirtækinu. Ég tel það mikilvægt að vera á vaktinni líka og fá „feedbackið“ beint í æð frá kúnnunum. Það sem er skemmtilegast við ferlið er klárlega að hanna og fá fyrstu prufur í hendurnar og að sjá hugmynd verða að veruleika,“ segir Sverrir.

Sverrir segir ferlið á bak við Arason hafa gengið vel …
Sverrir segir ferlið á bak við Arason hafa gengið vel og verið afar lærdómsríkt. Ljósmynd/Magnús Óli

Hvað finnst þér mikilvægast við fatahönnun?

„Ég legg fyrst og fremst áherslu á gæði. Ég hef mikinn áhuga á efnum og ferlið byrjar oftar en ekki á efnisvali. Ég er alltaf að reyna að finna finna jafnvægi á milli lúxuss og hversdagsleikans. Hjá Arason legg ég áherslu á að blanda klassískri hönnun saman við ferska strauma nútímans.“

Hvernig myndir þú lýsa fatastílnum þínum?

„Afslappaður, fágaður og þægilegur.“

Myndir þú segja að hönnun þín endurspeglaði eigin fatastíl?

„Já klárlega, í grunninn er ég alltaf að hanna flíkur á sjálfan mig.“

Sverrir segist í grunninn alltaf vera að hanna flíkur á …
Sverrir segist í grunninn alltaf vera að hanna flíkur á sjálfan sig. Ljósmynd/Magnús Óli

Áttu þér uppáhaldsflík?

„Í dag væri það Arason Chore-yfirskyrtan, svört.“

Hvað er ómissandi í fataskápinn að þínu mati?

„Góðir boots-skór úr leðri og gallabuxur. Síðan myndi ég segja yfirskyrta eða jakki sem virkar við öll tilefni.“

Hvaðan sækir þú innblástur í tísku og hönnun?

„Innblástur fæ ég alls staðar, hvaðan sem er. Það getur verið allt frá mannlífinu í miðbænum yfir í listaverk. Ég sæki líka mikinn innblástur í ný og spennandi efni.“

Sverrir sækir hönnunarinnblástur víða.
Sverrir sækir hönnunarinnblástur víða. Ljósmynd/Magnús Óli

Áttu þér eftirlætishönnuði eða -merki?

„Alessandro Sartori, Matthieu Blazy og Tom Ford eru hönnuðir sem ég hef fylgst mikið með.“

Hvað heillar þig í tísku og hönnun í dag?

„Falleg form og snið. Flíkur sem endast vel og verða jafnvel fallegri með tímanum.“

Hvað er framundan hjá þér?

„Á næstu vikum fæ ég nýjar vörur inn fyrir Arason sem ég hef verið að vinna í seinustu mánuði, ég er mjög spenntur fyrir því. Með auknu vöruúrvali er stefnan síðan sett á að selja vörur Arason í verslunum erlendis. Það eru klárlega mikil tækifæri fyrir íslenska hönnun úti í heimi.“

Það er margt spennandi framundan hjá Sverri!
Það er margt spennandi framundan hjá Sverri! Ljósmynd/Magnús Óli
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál