Er fólk einhvern tímann of gamalt fyrir svuntuaðgerðir?

Þórdís Kjartansdóttir lýtalæknir á Dea Medica svarar spurningum lesenda Smartlands.
Þórdís Kjartansdóttir lýtalæknir á Dea Medica svarar spurningum lesenda Smartlands. mbl.is/María Matthíasdóttir

Þórdís Kjartansdóttir lýtalæknir á Dea Medica svarar spurningu lesenda Smartlands. Hér fær hún spuringu frá konu sem veltir fyrir sér hvort hún sé of gömul til að fara í svuntuaðgerð. 

Blessuð. 

Ég er 76 ára og hef lengi verið að spá í svuntuaðgerð en haldið að ég væri of gömul. En nú þegar ég les um þig hérna og hvað þú hefur mikla reynslu langar mig að fá þitt álit vegna aldursins. Ég fór í keisaraskurð 1984 og hafði bætt talsvert á mig á meðgöngunni og þá strax fannst mér ég fá þessa fellingu. Svo fór ég í legnám 1992. Ég er mjög hraust og hreyfi mig mjög mikið. Ég er 80 kg.

Kveðja, 

BB

Sæl og takk fyrir spurninguna.

Þegar framkvæmd er stór svuntuaðgerð þá er húðin milli nafla og lífbeins fjarlægð, síðan strekkt á húðinni ofan nafla og hún saumuð við húðina við lífbeinið. Gert er nýtt gat fyrir naflann sem er á sínum stað en ný húð umhverfis.

Öllum aðgerðum fylgir einhver áhætta og þær algengustu eru blæðingar og sýkingar. Fólk getur haft auknar áhættur á fylgikvillum, t.d. sykursýki, sterameðferð og reykingar. Því miður getur aldur líka verið áhættuþáttur. Það er frábært að þú skulir hreyfa þig mikið og ert hraust. Þú ert líklega aðeins í yfirþyngd (80 kg), en það fer þó eftir hæð þinni. Það getur líka verið aukin áhætta á fylgikvillum eftir aðgerð tengt yfirþyngd.

Það er vissulega minni áhætta við aðgerðina að gera „litla svuntu“. Þá er keisara- og legnámsörið skorið í burtu og húðin saumuð saman aftur.  Inndrátturinn í örinu ætti þá að verða minni og þú að losna við þessa fellingu sem þú lýsir, þó að ekki yrði strekkt á húðinni ofan við nafla.

Áhættur við aðgerðir þarf að vega og meta hjá öllum einstaklingum. Ég ráðlegg þér að panta þér tíma fljótlega hjá lýtalækni og skoða þína möguleika. Þrátt fyrir árin 76 þá gæti minni svunta hentað þér betur en stór, eða bara ekki að fara í aðgerð og halda áfram með lífið og verið sátt við að hafa þó spurt um álit lýtalæknis.

Með bestu kveðjum,

Þórdís Kjartansdóttir lýtalæknir

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Þórdísi spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda