Best að setja í sig rúllur og drekka einn gin og tónik

Simbi notar hárblásara frá HH Simonsen til þess að ná …
Simbi notar hárblásara frá HH Simonsen til þess að ná góðri lyftingu og áferð. mbl.is/Eyþór Árnason

Simbi uppgötvaði Kolbrúnu Ólafsdóttur, Kollu diskó, þegar hún var 15 ára og hann 18 ára og bað hana um að koma í sýningarhóp hjá Heiðari Ástvaldssyni. Síðan þá hafa þau dansað saman en hann hefur líka notað hárið á henni sem tilraunastofu. Á dögunum fór hann mjúkum höndum um hárið á henni og kenndi blaðamanni að blása hárið því hann er enginn Dyson-maður. 

Simbi segir að hárið þurfi að vera 80-85% þurrt þegar …
Simbi segir að hárið þurfi að vera 80-85% þurrt þegar endarnir eru blásnir. mbl.is/Eyþór Árnason

Hárgreiðslumaðurinn Sigmundur Sigurðsson, Simbi eins og hann er kallaður, rekur hárgreiðslustofuna Beautybar. Þessi 63 ára gamli tískukóngur elskar allt sem glitrar og er á því að það sé aldrei hægt að skreyta sig of mikið. Spurður um hártískuna í dag nefnir hann Farrah Fawcett-áhrifin en leikkonan heitna státaði af því allra flottasta hári sem fyrirfannst á sínum tíma.

„Það er nákvæmlega þetta; toppur, stystur í miðju og aflíðandi út í hliðarnar. Svona erótískar og léttar styttur. Svolítið út á við. Það er þetta Farrah Fawcett-útlit,“ segir Simbi sem hefur margoft séð þennan tískustraum áður. Til þess að ná fram rétta útlitinu þarf hárblásara eða rúllur. En hvað um Dyson-hárgræjuna. Gengur hún?

„Ég hef aldrei notað Dyson. Ég prófaði hann eitthvað smá í byrjun og svo var ég alltaf að bíða eftir einhverri þróun. Ég er miklu meiri blástursmaður. Í dag nota ég HH Simonsen Nano Ion Dryer sem er öflugur,“ segir hann.

Simbi lyftir hárinu upp svo að efnin fari jafnt í …
Simbi lyftir hárinu upp svo að efnin fari jafnt í allt hárið. Hann segir að þetta skipti mjög miklu máli. mbl.is/Eyþór Árnason

Það er eftirsótt að vera með vel blásið hár og fastakúnnar Simba koma vikulega í blástur til hans.

„Góður blástur endist alveg í viku. Ég er búinn að hafa sömu fastakúnna í vikulegum blæstri í 35 upp í 40 ár og auðvitað aðra líka sem hafa verið styttra. Ef blástur á að vera góður þá þarf þvotturinn að vera góður. Þetta snýst um góða hreinsun og sérstaklega góða skolun og næringu í endana. Svo set ég rótarsprey í hársvörðinn og gel eða froðu í hárið. Það skiptir mjög miklu máli að dreifa efninu jafnt yfir hárið svo það verði ekki klesst eða klístrað. Það þarf að nudda efnið vel upp í hendurnar og dreifa frá rótinni og út í enda og það verður að vera jafnt magn. Ég lyfti hárinu upp og bý til úða þannig að það er eins og fólk sé í léttri sturtu,“ segir Simbi.

Simbi byrjar á því að setja öll efni jafnt í …
Simbi byrjar á því að setja öll efni jafnt í hárið. mbl.is/Eyþór Árnason
Hér setur Simbi hárlakk í hárið þegar blásturinn er tilbúinn.
Hér setur Simbi hárlakk í hárið þegar blásturinn er tilbúinn. mbl.is/Eyþór Árnason

Þriggja daga óhreint hár

Simbi segir að hár þurfi hitavörn áður en það er blásið en líka sérstaklega ef það er krullað eða slétt með járni.

„Ef þú ætlar að setja járn í hárið þá er betra að hafa hárið tveggja til þriggja daga óhreint. Ekki tandurhreint. En ef þú ætlar að blása hárið þá þarf það að vera alveg hreint, og úða efnum létt yfir. Svo er best að hvolfa sér og róta vel upp í botninum og blása rótina en skilja endana eftir. Það má þurrka það upp í 80-85% þurrt og þá getur þú annaðhvort sett rúllur í það eða snúið upp á puttann og fest það með klipsi, haldið blásaranum við það þangað til hárið verður þurrt,“ segir hann.

Simbi segir að það skipti máli að nota hitavörn í …
Simbi segir að það skipti máli að nota hitavörn í hárið áður en það er blásið eða þegar járn eru sett í það. mbl.is/Eyþór Árnason

Rúllur eru alltaf inni

Eru rúllurnar komnar aftur?

„Rúllurnar hafa alltaf verið. Þær eru alveg nauðsynlegar. Góðar rúllur og klips til að skorða þær, einn gin og tónik, drekka hann og taka svo upp blásarann og blása aðeins í rúllurnar. Þá er hárið tilbúið,“ segir Simbi.

Geta allir lært að blása á sér hárið?

„Nei, alls ekki. Það eru margir sem ná aldrei tökum á því. Það er mjög erfitt að blása mjög sítt hár. Það þarf að toga hárið upp til að blása það. Það sem konur geta gert miklu frekar er að halla sér til hliðanna og blása lokkana, halda hendinni að líkamanum, og blása frá andlitinu og aftur. Ekki halla höndunum upp í loft og reyna að gera það þannig. Það er svo erfitt. Frekar að halla þér á móti hendinni og rúlla þannig stóra lokka því þarna á hárið að vera 80% þurrt. Eða setja rúllurnar og setja þær allar aftur við andlitið.“

Þegar Simbi var búinn að þurrka rótina fór hann í …
Þegar Simbi var búinn að þurrka rótina fór hann í það að blása endana. Hann blæs hárið alltaf frá andlitinu. mbl.is/Eyþór Árnason
Simbi og Kolla eru búin að þekkjast síðan þau voru …
Simbi og Kolla eru búin að þekkjast síðan þau voru unglingar og hefur hann notað hárið á henni sem tilraunastofu í gegnum tíðina. mbl.is/Eyþór Árnason

Hún var 15 ára – hann 18 ára

„Hún var 15 og ég 18 ára þegar við kynntumst í Hollywood. Ég sagði við hana að hún ætti að koma í sýningarflokk hjá Heiðari Ástvaldssyni og hún hlýddi því náttúrlega. Síðan erum við búin að þekkjast. Ég hef notað hana sem módel alveg í 20-30 ár. Ýmist er hún rökuð eða með aflitað hár. Ég hef alltaf leikið mér með hárið á henni. Við förum í ljósar strípur eða dökkar strípur, við dekkjum inni á milli. Við settum miklu færri ljósar strípur núna og settum skol inni á milli í level sjö. Þá kemur meiri hreyfing í það, skolið verður dýpra og það verða meiri kontrastar í litnum. Maður má aldrei gera mikið það sama því þá er maður alltaf að díla við rótarvandamálin. Ef maður leikur sér með dökkar og ljósar strípur þá fellur það betur inn í rótina,“ segir Simbi og er þá að vísa í rótarvanda hinna gráhærðu.

Simbi og Kolla æfa gömlu taktana fyrir diskókvöldið sem haldið …
Simbi og Kolla æfa gömlu taktana fyrir diskókvöldið sem haldið var á Broadway árið 2003 en þau eru búin að dansa saman síðan á skemmtistaðnum Hollywood. Ljósmynd/Sverrir Vilhelmsson

63 ára tískukóngur

Simbi er 63 ára. Hann er ekki viðkvæmur fyrir aldrinum og elskar að klæða sig skemmtilega.

„Maður verður að hafa gaman af lífinu og vera duglegur að prufa stundum að vera í þröngum buxum og stundum víðum. Vera stundum í hlýrabol og í fráhnepptri skyrtu yfir og setja á sig perlufesti,“ segir Simbi og sýnir afar fallega og drottningarlega perlufesti sem hann tekur helst ekki af sér. Nema rétt á meðan hann sefur.

„Ég eignaðist þessa perlufesti við andlát Elísabetar Bretadrottningar. Þá var ég staddur úti í París þar sem andlátið var tilkynnt.“

Hér er Simbi að sýna listir sínar á sviði á …
Hér er Simbi að sýna listir sínar á sviði á hársýningu árið 2001. Kristín Ásta Kristinsdóttir fyrirsæta og ljósmyndari sat fyrir. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Og þú hugsaðir með þér að þetta væri dagurinn þar sem þú myndir eignast perlufesti?

„Já, ég er búinn að vera með hana síðan. Ég tek hana af mér á kvöldin á meðan ég sef,“ segir Simbi.

Hvernig hugsar þú um þig? Ég veit að þér finnst gott að fá þér Jägermeister og vera svolítið hress.

„Það er svo mikil næring í því,“ segir hann og brosir.

„Aðalmálið er að ég labba úr og í vinnu. Ég vinn uppi í Kringlu, ég labba alltaf heim og stundum labba ég líka í vinnuna. Stundum er ég svolítið þreyttur þegar ég kem og ég er rennandi blautur. Ég og maðurinn minn eigum sumarhús og það gefur mér rosalega mikið að vera þar. Okkur finnst gott að fara á föstudögum eftir hádegi í sumarbústaðinn, fá sér einn léttan Jäger og einn lítinn bjór, svo bara horfa út um gluggann á gróðurinn og fjöllin og auðvitað á Bödda,“ segir hann og hlær og er þá að vísa í manninn sinn, Böðvar Gunnarsson.

Hvaða flík dreymir þig um að eignast?

„Ég er eitthvað voðalega rólegur í því. Fór til Mílanó um daginn og keypti mér blússu í anda 1990. Svona gullblússu. Annars er ég bara voðalega sáttur. Það er mikið flæði í fataskápnum mínum og mig vantar ekkert.“

Hvað drífur þig áfram?

„Bara lífið og tilveran og vinnan mín. Ég elska vinnuna mína.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál