Einföld húðrútína Gísla Marteins kemur á óvart

Gísli Marteinn notar eiginlega engin krem.
Gísli Marteinn notar eiginlega engin krem.

Gísli Marteinn Baldursson fjölmiðlamaður hefur lengi vakið athygli fyrir unglegt útlit sitt. Í tilefni þess að Gísli sneri aftur á skjái landsmanna í gærkvöldi þá stóðst blaðamaður vart mátið en að forvitnast um húðrútínu hans.

Það má með sanni segja að húðrútína Gísla Marteins sé ekkert sérstaklega flókin og jafnvel í lagi að ganga svo langt með að segja að hún sé alls ekki til staðar.

„Ég nota eiginlega engin krem og hef aldrei gert. Ég er orðinn það gamall að strákar notuðu engar húðvörur og það þótti mjög „metro“ að menn væru að nota gel í hárið. En í seinni tíð hef ég farið að kaupa mér rakakrem og það er mjög tilviljanakennt hvað verður fyrir valinu. Ég segi það alveg dagsatt að ég veit ekkert hvað kremið heitir sem ég er með núna. En ég reyni að kaupa lyktarlaus og spyr dætur mínar hvort eitthvað vörumerki sem ég er að hugsa um að kaupa sé nokkuð að styðja einhvern ógeðslegan málstað,“ segir Gísli Marteinn.  

Notaði olíur á húðina í sólinni

Hann er nýbúinn að læra orðið húðrútína og viðurkennir að hafa aldrei haft neina slíka. „Ég set aldrei á mig krem fyrir svefn og geri það eingöngu þegar ég kem úr sturtu ef ég man eftir því. Undantekningin er samt þegar ég er að fara út í sól, þá set ég á mig sólarvörn númer 50. Ég fékk einu sinni svokallað grunnfrumukrabbamein í andlitið sem er hættulaust en ekki skemmtilegt ef það er ekki meðhöndlað. Ég er dálítið vakandi yfir þessu af því þegar ég var yngri bjó ég í Sádí-Arabíu í hálft ár. Það var áður en meðvitund um skaðsemi sólar var komin fram. 

Við sem bjuggum þar og vorum að fljúga fyrir Atlanta-flugfélagið bárum á okkur olíur til að verða sem brúnust og hefðum ekki litið við neinu sem myndi draga úr krafti sólarinnar. Ég er ekki viss um að þetta hafi verið mjög heilsusamlegt fyrir húðina.“

Hann er nýbyrjaður að nota sérstaka sápu til að taka farðann af eftir útsendingar en árum saman notaði hann aðeins volgt vatn og þvottapoka. „Svo var ég kynntur fyrir sápubrúsa sem er sérstaklega gerður fyrir þetta og ég þvæ mér upp úr honum á föstudagskvöldum til að taka af mér sjónvarpssminkið. Getur eitthvað sem maður gerir einu sinni í viku kallast húðrútína?“ spyr hann.

„Ég ætla þó að fara að bæta úr þessu og rífa mig í gang.“

Gísli Marteinn Baldursson árið 2008. Hann hefur lítið breyst.
Gísli Marteinn Baldursson árið 2008. Hann hefur lítið breyst. Ljósmynd/Valdís Þórðardóttir
Gísli Marteinn Baldursson árið 2013.
Gísli Marteinn Baldursson árið 2013. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda