Alexander farðaði fyrir eitt stærsta tískuhús Parísar

Alexander hefur lagt mikið á sig til að komast langt …
Alexander hefur lagt mikið á sig til að komast langt í förðunarheiminum. Samsett mynd

Alexander Sigurður Sigfússon hefur starfað sem förðunarfræðingur í sjö ár. Eftir förðunarnám fann hann fljótt að bransinn átti vel við hann og tók hann að sér öll þau verkefni sem honum bauðst. Árið 2021 tók hann stökkið og flutti til Lundúna með það að markmiði að vinna fyrir snyrtivörurisann Charlotte Tilbury. Á dögunum var Alexander staddur á tískuvikunni í París þar sem hann farðaði fyrir sýningu franska tískuhússins Nina Ricci.

 „Ég sá fljótt að mín beið miklu stærri heimur í útlöndum með allskonar tækifærum. Fljótt eftir flutning út til Lundúna fékk ég starf í aðalverslun Charlotte Tilbury þar sem ég vann í tvö ár með það að markmiði að vinna mig upp í UK PRO-teymið. Snemma í vor var nýtt starf auglýst innan fyrirtækisins, en titillinn var annar aðstoðarmaður Sofiu Tilbury. Ég sótti um og fór í gegnum fjögurra mánaða umsóknarferli. Að lokum var mér svo boðið starfið sem ég að sjálfsögðu þáði,“ segir Alexander.

Sofia Tilbury er systurdóttir Charlotte Tilbury og er stór hluti af þeim ótrúlega frama sem merkið hefur náð í bransanum á þeim stutta tíma sem það hefur verið til. Tilbury sér um að farða fyrir stórviðburði eins og Óskarinn, Met Gala og skapar flest allar þær farðanir sem eru gerðar á tískuvikum heimsins. Hún farðar einnig stórstjörnur eins og Sölmu Hayek, Celine Dion, Kate Moss og Rita Ora. 

„Ég sé um að fara með Sofiu í þau verkefni sem hún tekur að sér hvort sem það eru tískusýningar, myndatökur, tökudagar fyrir samfélagsmiðla og fleira. Ég er alltaf til taks að aðstoða hana. En þar sem ég er aðstoðarmaður númer tvö þá þarf hún ekki alltaf á mér að halda. Þess á milli er ég í alls konar skemmtilegum verkefnum eins og vöruþróun, myndatökum, tískusýningum og að farða mikilvæga viðskiptavini.“

Fyrirsæta sem hann farðaði í París.
Fyrirsæta sem hann farðaði í París. Ljósmynd/Úr einkasafni

Keyrsla og rafmögnuð stemning

Alexander fékk það tækifæri fyrir nokkrum vikum að vera sendur á tískuvikuna í París. „Sofia var í öðru verkefni og þurfti ekki á mér að halda svo ég fékk að fara til Parísasr. Nina Ricci er þriðja tískusýningin sem við vinnum að síðan í byrjun september. Við förðuðum líka á tískuvikunni í London fyrir Harris Reed en hann er einnig listrænn stjórnandi Nina Ricci. Viku síðar fórum við til Mílanó og förðuðum fyrir Alberta Ferretti og héldum svo til Parísar,“ segir hann.

Tískusýningar eru þau verkefni sem hann hefur hvað mest gaman af. Þetta er mikil keyrsla, stemningin er rafmögnuð og mikið af hæfileikaríku fólki sem kemur að hverri sýningu. „Jafnvel þó þetta sé mikið stress og kaos þá vinn ég mjög vel undir pressu og finnst það gera upplifunina enn skemmtilegri,“ segir Alexander.

„Andrúmsloftið er auðvitað alltaf misjafnt og fer alltaf eftir því hvort fólk er mætt á réttum tíma og hvernig skipulagið er. Þessi ferð var sérstaklega mikið keyrsla þar sem ég var mættur snemma um morguninn á undan öðrum úr Global Pro-teyminu því ég var beðinn um að mæta í prufu daginn fyrir sýningu. Það snerist um að taka þátt í að hanna förðunina með fatahönnuðinum fyrir sýninguna og tók það mest allan daginn. Svo var bara að borða, sofa, vakna og mæta á sýninguna. Svo beint í lestina aftur heim til Bretlands. Sem betur fer var andrúmsloftið á sýningunni mjög gott, allt vel skipulagt og gekk eins og í sögu.“

Hann segist vera óendanlega þakklátur fyrir þau tækifæri sem hann fær við starfið. Næstu verkefni eru ekki af verri endanum en í lok þessarar viku heldur hann til Shanghai í Kína. „Þar munum við vera í viku að vinna að risa tískusýningu með hönnuðinum Mark Gong og yfir fimmtíu fyrirsætum. Þar fara nokkrir dagar í prufu-farðanir og undirbúning og svo heill dagur í sýninguna sjálfa. Ég er ekkert smá spenntur fyrir þessari ferð þar sem ég hef aldrei komið til Kína og förðunarmarkaðurinn þar er allt annar en við þekkjum hér í hinum vestræna heima. Svo það verður margt nýtt sem ég mun sjá og gera sem mun bætast í reynslubankann.“

Fyrirsæta sem hann farðaði á tískuvikunni í París.
Fyrirsæta sem hann farðaði á tískuvikunni í París. Ljósmynd/Úr einkasafni
Alexander Sigurður er óendanlega þakklátur fyrir tækifærin.
Alexander Sigurður er óendanlega þakklátur fyrir tækifærin. Ljósmynd/Úr einkasafni
Stemningin á tískusýningum er rafmögnuð og stressandi.
Stemningin á tískusýningum er rafmögnuð og stressandi. Ljósmynd/Úr einkasafni
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda