Bergur Guðnason fatahönnuður ólst meðal annars upp í Englandi þar sem faðir hans var atvinnumaður í fótbolta. Hann segist hafa upplifað utanaðkomandi pressu á að verða atvinnumaður sjálfur en varð að hætta vegna meiðsla aðeins nítján ára. Þá sótti hann um nám í fatahönnun hjá Listaháskóla Íslands, starfaði meðal annars hjá stórum tískuhúsum í París en er í dag hönnuður hjá 66°Norður. Hann segir íþróttina hafa hjálpað sér í tískuheiminum, samskipti hafi verið hans sterkasta hlið og hann eigi auðvelt með að koma sér áfram, taka upp símann og láta hlutina gerast.
„Ég byrjaði mjög lítill að pæla í hverju fólk var í, hvernig litirnir voru saman settir og forminu á fötunum. Ég byrjaði fjögurra ára í skóla í Englandi, í jakkafötum og með skjalatösku svo alveg frá því ég man eftir mér var ég að spá og spekúlera í þessu,“ segir Bergur. „Það ýtti undir að ég bjó í Englandi, pabbi var atvinnumaður og það var mikill glamúr í kringum það og maður sá ýmislegt fyndið.“
Fjölskyldan flutti heim þegar Bergur var í kringum tíu ára aldur og þá var fótboltinn aðaláhugamálið. „Mér leið eins og ég ætti alltaf að vera í fótbolta. Það var svona utanaðkomandi pressa, alls ekki frá fjölskyldunni, en frá öðrum. Ég fékk aldrei að njóta mín alveg sem barn í fótbolta og ég get rétt ímyndað mér hvað til dæmis synir Eiðs Smára hafa gengið í gegnum.“
Hann vissi snemma að hann yrði ekki atvinnumaður í fótbolta eins og pabbi sinn. „En það er samt svolítið skrýtið að þurfa að pæla í því þegar maður er lítill, maður á ekkert að þurfa þess. En ég ólst auðvitað upp í því umhverfi og þekki það vel.“
Eftir framhaldsskóla skráði hann sig í Tækniskólann í almenna hönnun. Í kjölfarið hóf hann störf hjá Guðmundi Jörundssyni í JÖR.
„Þá vissi ég ekki neitt. Í JÖR lærði ég heilmikið á efni og fylgdist vel með hönnunar- og þróunarferli á flíkum og kom stundum með pælingar á borðið. Þetta var eina tískumerkið á Íslandi sem var með tískusýningar sem kostuðu margar milljónir, meikaði engan sens. En fyrir mér var geðveikt að vera þarna því mig langaði í þetta, flytja jafnvel út og vera í þessu.“
Bergur var 19 ára gamall þegar hann meiddist og neyddist samkvæmt læknisráði til að hætta í fótbolta. „Ég ákvað að kýla á það að fara í fatahönnun. Fyrst ætlaði ég að elta félaga mína í viðskiptafræði, aðallega af því að ég saknaði þessarar klefastemningar sem myndast í fótboltanum. Það er svo félagslegt. Ég hugsaði bara, æi, ég fer með strákunum í viðskiptafræði. En það breyttist og samhliða starfinu hjá JÖR bjó ég til möppu og ákvað að kýla á að sækja um í Listaháskóla Íslands og kemst svo þar inn.“
Hvernig fannst þér námið? „Það var mjög erfitt. Ég kunni ekki að teikna og hafði ekki teiknað frá því ég var barn. Ég var líka bara fótboltastrákur sem hvorki reykti né drakk kaffi. Mér leið eins og ég væri aðeins öðruvísi en flestir þarna,“ játar Bergur.
„Ég var ekki alveg stereótýpan en eftir á var gaman að vera þessi „venjulegi“ fótboltagaur. Oft vísaði ég kannski í eldri fótboltabúninga, frá árinu 1975 sem ég fann heima hjá mér og ég notaði þessi sportáhrif í vinnuna mína. Eitthvað sem ég mundi eftir frá því ég var lítill,“ segir Bergur.
„Sníðagerðin og það að læra að sauma var mér frekar erfitt. Listnám er rosalega krefjandi nám.“
Hann var þó alltaf mjög sterkur félagslega sem kom honum langt. „Ég segi alltaf að það hefur svo geggjuð áhrif á börn að hafa verið í íþróttum og þá helst hópíþróttum. Þegar kom að hópaverkefnum til dæmis þá var ég félagslega sterkur. Ég var mun verri að sauma og teikna en félagslegi hlutinn fleytir manni ansi langt. Það sem hefur alltaf reynst mér vel er að taka bara upp símann og hringja, taka af skarið.“
Á fyrsta árinu í Listaháskólanum er farið út til Parísar í sjö vikna starfsnám. „Ég fékk inngöngu í starfsnám en sagði viljandi nei. Ég vildi frekar fara á PR-skrifstofur til að geta kynnst því fólki sem sér um allar sýningarnar. Svo ég ætlaði að redda þessu sjálfur,“ útskýrir hann.
„Ég sendi fullt af tölvupóstum og fékk á endanum inngöngu hjá einni stofu. Þar byrjaði ég að sniglast í kringum allar sýningarnar í París og kynntist mörgu fólki sem hefur nýst mér vel í dag og ég er enn í góðu sambandi við. Ég var svo ánægður eftir á því margir sem voru í sama áfanga voru bara í einhverri kompu að sauma.“
Eftir þessa reynslu ákvað Bergur að hann yrði að komast aftur út. Hann útskrifast úr Listaháskólanum og pantar sér svo flug út til Parísar. „Ég fer út þegar tískuvikan stendur yfir og ég er með staðfest eitt viðtal. Það er fyndið að hugsa til þess núna en þegar ég kom út var ég með möppuna mína og hleyp á milli sýninga. Ég var eiginlega bara að banka upp á, hitta hönnuði og biðja um að fá að vinna. Ég komst svo inn í starfsnám hjá hátískuhúsinu Haider Ackermann sem var geggjað. Hjá Haider voru verkefnin fjölbreytt. Til dæmis þau að hanna kjól á Naomi Campbell og jakkaföt á Timothée Chalamet.“
Hann starfaði hjá Haider Ackermann í um átta mánuði og fór svo til Acne Studios. „Svo fæ ég tölvupóst frá Louis Vuitton um að hefja umsókn um fastráðningu hjá þeim,“ segir Bergur.
„Ég hafði hitt Virgil Abloh, listrænan stjórnanda Off White, baksviðs á sýningunni hans. Þetta var mánuði áður en hann var kynntur sem listrænn stjórnandi hjá Louis Vuitton. Ég byrja bara að spjalla við hann, veit ekki alveg hvað ég var að gera en ég rétti honum möppuna mína og við flettum saman í gegnum hana. Það var svo næs af honum,“ segir hann.
„Hann var nýbúinn með sýningu og var að fagna með vinum sínum, Kardashian-liðið var þarna, rapparinn Future og fleiri góðir, en hann var mjög mikið að gefa sér tíma í að fletta möppunni minni. Virgil var mjög hógvær og næs. Oft eru listrænir stjórnendur alveg hundleiðinlegir.“
Umsóknarferlið var skemmtileg reynsla að mati Bergs. „Þarna er Margrét Rajani, unnusta mín, orðin ólétt. Við ákveðum þá að ef Louis Vuitton gengur upp þá verðum við áfram í París en ef ekki, þá förum við heim. Það gekk ekki upp og við flytjum heim.“
Það eru hundruð umsækjenda um fastráðningar hjá stóru tískuhúsunum og ráðið inn á hálfs árs fresti. „Ég held að það hafi ekki hjálpað mér að vera úr LHÍ, með fullri virðingu fyrir skólanum og ekki með masterspróf. En svo talaði ég ekki nógu mikla frönsku,“ segir Bergur.
Hann segir starfsnámið hafa verið rosalegan skóla, hann hafi hannað og gert svo margt. „Enn þann dag í dag er ég að sjá vinnu eftir mig á Acne-síðunni. Bergur á Íslandi í starfsnámi sem fékk fimmtíu þúsund krónur útborgað á mánuði,“ segir hann og hlær.
En hvernig er þín sýn á þennan heim eftir að hafa starfað í honum?
„Þetta er frekar klikkað. Það er líka annað, með þessa listrænu stjórnendur, þeir voru einu sinni í þeim sporum að vera nemar. Ef ég væri í þeirra sporum held ég að ég myndi láta nemana vinna minna. Þetta er svo óheilbrigt og það er svo súrt og skrýtið hvað þetta viðhelst. Þetta er ekkert að lagast held ég. Fólk endist ekki lengi í þessum bransa nema það sé heppið með stjórnendur. En þessi glamúr í París tengist kannski smá því sem ég upplifði sem barn í Englandi. Ég ólst svolítið upp í því sem er kannski óheilbrigt.“
Hvað myndirðu segja við ungt fólk sem væri að velta þessum bransa fyrir sér?
„Brutally honest, myndi ég eiginlega ekki mæla með að fara í þetta. Þetta er hálf-vonlaust á Íslandi því tækifærin eru fá. En maður þarf að vera mjög góður að koma sér á framfæri, fara út og nálgast fólk. Þetta er ógeðslega erfitt,“ segir hann.
Bergur hefur starfað sem fatahönnuður hjá íslenska útivistarmerkinu 66°Norður í um fimm ár. Hann segir störf sín þar vera mjög fjölbreytt og að fólk geri sér ekki endilega grein fyrir því hversu stórt fyrirtækið er. Það var mikil breyting að komast í eðlilegra starfsumhverfi eftir að hann flutti til landsins.
„Hjá 66 er húsinu lokað klukkan sex, ég man ég hugsaði, bíddu hvað er þetta? Þetta er mjög fjölskylduvænt. En ég var svo vanur þessu rugli úti svo ef maður þarf að vinna lengur hér þá er það ekkert mál.“
Fyrsta verkefni hans hjá merkinu var að breyta og endurhanna flíkur sem höfðu selst illa. „Svo fer ég að vinna meira í aðallínunni. Mig langaði að geta gert hluti sem voru aðeins meira tískutengdir. Markmið mitt hjá 66 hefur alltaf verið að hanna flíkur sem hafa sömu tæknilegu eiginleikana eins og vatnsheldni og þessar gömlu góðu 66-flíkur en setja þær í einhverskonar tískubúning. Þannig að þú getur labbað upp Esjuna í flíkinni í grenjandi rigningu en á sama tíma farið í sömu flík í fínan kvöldverð eða á listasýningu. Ef maður er að reyna að ýta við hönnuninni þá þarf þetta að virka líka á sama tíma.“
Undanfarin ár hefur hann séð um sérstök verkefni innan fyrirtækisins og samstarfsverkefni við önnur merki. 66°Norður hefur til dæmis verið í samstarfi við danska tískuhúsið Ganni og íslenska merkið Reykjavík Roses. Á síðasta ári kynntu þau nýja samstarfslínu við breska fatahönnuðinn Charlie Constantinou sem lærði í hinum virta Central Saint Martin’s-háskóla í Lundúnum og er á lista yfir tuttugu efnilegustu hönnuði í dag. Á næstu dögum er von á nýrri línu úr því samstarfi.
En hvernig eru Íslendingar að taka í þetta?
„Ég held að þessi venjulegi Íslendingur muni ekkert endilega hoppa til að kaupa þetta, sem er bara jákvætt þar sem Íslendingar eru oftar en ekki frekar hefðbundnir til fara en þetta sýnir hversu fersk og relevant við erum sem merki. Við erum að nappa hönnuð úr Saint Martins og erum að sýna að við séum með puttann á púlsinum,“ segir Bergur.
„En þessi lína fer í Dover Street Market. Það er smá tikk í boxið fyrir mig persónulega því mig hefur alltaf dreymt um að vera með vinnu eftir mig í þeirri verslun. Japanir og Kóreubúar elska allt svona svo þetta verður selt í þeim löndum líka og fleiri stöðum í Evrópu.“
Bergur starfar einnig náið með starfsmönnum 66°Norður í Lettlandi þar sem fyrirtækið á verksmiðjur. „Þar er sérhæft tæknifólk sem er mjög klárt í að þróa flókna stíla eins og Gore-Tex-flíkur því það þarf sérstakar vélar og búnað í það. Það sem ég geri mikið með Lettlandi er að vinna með afgangsefni, koma þeim í umferð til að minnka sóun á efnum. Sem er auðvitað umhverfisvæn leið. Er að nýta afgangsefni í línur sem koma og fara til dæmis. Stundum eru til 50 metrar af efni í ákveðnum lit sem ég geri eitthvað öðruvísi með, svona er hægt að gera föt í takmörkuðu upplagi fyrir okkar eigin verslanir á Íslandi, í Köben og London eða heildsöluaðila eins og MyTheresa, SSENSE eða Mr. Porter. Það er alltaf skemmtilegast að eiga eitthvað sem enginn eða fáir eiga. Við munum gera fleiri samstarfsverkefni með öðrum merkjum og svona sérstakar línur, er að vinna í nokkrum núna sem verður gaman að sjá þróast.“
Bergur ferðast oft til Parísar þar sem fyrirtækið er með sýningarstað, eða „showroom“ eins og það kallast, tvisvar á ári. „Ætli ég sé ekki einn af þeim sem eru mest út um allt af öllum. Kannski af því að ég hef verið að elta bolta frá því ég var lítill, er svo sem einhvern veginn enn að því og er lítið fyrir að sitja í tölvunni allan daginn. Mér finnst oft betra að labba um og hanna í símanum heldur en að sitja í tölvunni. Það hljómar kannski skrýtið.“
Hann segir Íslendinga ekki endilega átta sig á því hversu stórt fyrirtækið er orðið úti í heimi. „Ég hef verið svolítið í því að nota mín persónulegu tengsl erlendis í að koma fötum á þekkt fólk, fótboltamenn, tónlistarfólk og aðila í tískubransanum. Allt hjálpar þetta fyrirtækinu og komast á kortið á þessum mörkuðum sem við erum að reyna að herja á. Svo margt af heimsfrægu fólki á 66-flíkur, við þurfum helst að gera lista og taka þetta saman. Íslendingar myndu elska að sjá það.“
Þá eru fötin frá 66°Norður seld í Harrod’s og Selfridges í London. „Sem er frekar klikkað fyrir íslenskt merki. Það er margt búið að gerast á þessum síðustu árum og það verður gaman að sjá hvar við verðum eftir fimm ár,“ segir hann og brosir.
„Sagan er svo fáránleg. Merkið á 100 ára afmæli eftir tvö ár. Þetta hófst sem skjólfatnaður og við erum enn að framleiða þannig flíkur. Ég veit ekki um neitt merki sem er með þessa sögu, þennan tilgang. Þetta var upphaflega gert til að bjarga mannslífum, sem hljómar kannski frekar dramatískt en 1926 var það bara staðan, þú þurfir alvöru sjóstakk til að lifa af. Þegar fólk úti kynnist sögunni þá finnst þeim hún alveg mögnuð. Íslendingar þurfa þennan fatnað enn í dag í rauninni. Ég segi alltaf, ef 66°Norður heldur rétt á spilunum þá getur þetta orðið að alþjóðlegu skrímsli eins og hin útivistarmerkin eins og North face, Patagonia, Moncler og hvað þetta heitir allt saman. Við erum með grunninn, gæðin, þetta hefur verið prófað hér við verstu aðstæður og þetta virkar. Svo það er alveg spennandi sem Íslendingur að sjá hvað verður úr þessu. Ég hef stundum sagt við Helga eiganda eftir einn til tvo drykki, að mér líði eins og ég eigi þetta líka,“ segir hann og hlær.
Bergur segist fá mikið traust frá eigendum fyrirtækisins til að framkvæma hugmyndirnar sem hann fær. Í dag sinnir hann og vinnur að hönnun, hugmyndavinnu, stíliseringu og vinnur náið með markaðsteyminu. „Það sem ég geri er mjög fjölbreytt.“
Heldurðu að það sé hollt fyrir fatahönnuð að starfa hjá sama merkinu lengi? „Ef maður fær að vaxa og gera það sem maður vill.“