Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra mætti til reglulegs fundar starfsstjórnar á dögunum. Það sem vakti hins vegar mestan áhuga tískuáhugafólks var jakkinn sem hún klæddist; stuttur ullarjakki í dökkbrúnum lit með svörtum tölum.
Liturinn á jakkanum hefur verið einn sá vinsælasti í haust. Það er ekki skrýtið því liturinn passar við marga aðra og er frábær tilbreyting frá svarta litnum.
Jakkinn er úr COS á Hafnartorgi og kostar 35.000 krónur. Jakkinn er úr 60% ull á móti 40% Tencel.
Tencel er hálfnáttúrulegt efni sem er orðið mjög vinsælt. Tencel er þekkt fyrir mýktina, það er meðal annars gert úr viðarkvoðu og er því hálfnáttúrulegt efni. Ásamt kvoðunni er notast við lyocell og módal til að búa til Tencel-efnablönduna. Áferðin á jakkanum gæti þess vegna verið svipuð kasmírull viðkomu þó að þessi blanda nái aldrei sömu gæðum. Þessi efnablanda er þó mun ódýrari en kasmírullin sem er líka kostur.