Íslenska útivistarmerkið 66°Norður hefur nú í samstarfi við fatahönnuðinn Charlie Constantinou unnið að nýrri vörulínu eftir vel heppnað samstarf á síðasta ári. Charlie hefur á stuttum tíma skapað sér stórt nafn innan tískuheimsins fyrir sérstaka áherslu á tækniefni og litunarferla. Hann er útskrifaður úr einum virtasta listaháskóla í heimi, Central Saint Martins.
Nýja vörulínan endurspeglar það og er afraksturinn útivistarfatnaður sem nýtist við krefjandi aðstæður.
Samstarfið hefur vakið mikla athygli erlendis og rataði meðal annars í eina virtustu hönnunarbúð heims, Dover Street Market í Lundúnum. Það þykir eftirsóknarvert að selja merkið sitt í þeirri verslun.
„Eitt markmiðanna með samstarfinu með Charlie var að komast inn í búðir sem 66°Norður hefur ekki verið í áður. Dover Street Market var efst á lista,“ segir Bergur Guðnason fatahönnuður hjá 66°Norður.
Bergur segir frá því að samstarfið hafi gengið vonum framar. „Við Charlie fengum algjörlega frjálsar hendur í hönnunarferlinu sem endurspeglast í lokaútkomu línunnar. Einnig tókum við þátt í öllu sem við kom myndheim, markaðsmálum og hvernig varan lítur út á búðargólfinu.“
Þá eru flíkurnar í línunni framleiddar úr tæknilegum afgangsefnum að mestum hluta. Með því að vinna með afgangsefni getur það takmarkað niðurstöðu vörunnar en til að gera efnin enn áhugaverðari voru þau handlituð af Charlie í London. Þar var aðalmarkmiðið að nota eins lítið af vatni og mögulegt er í litunarferlinu.
„Endurskin og sýnileiki í myrkri er mikilvægt á Íslandi og hefur spilað mikilvægan hluta í fötum frá 66°Norður í gegnum tíðina. Sérstaklega yfir vetrartímann þar sem dagsbirtan er takmörkuð. Í línunni notum við endurskin töluvert en svo handlitar Charlie þær flíkur til að gefa þeim einkennandi útlit,“ segir Bergur.
Línunni verður fagnað þann 24. október og er opinn viðburður í búð 66°Norður á Hafnartogi frá 21-22.