Það að klæða sig fallega er ákveðin listgrein. Fólk með virkara hægra heilahvel er oft töluvert betra í að raða saman litum, efnum og sniðum en fólk með virkara vinstra heilahvel. Vinstra heilahvels týpurnar mala hins vegar oft og tíðum hægra heilahvels týpurnar í maraþonhlaupum, reikningi og þessi hópur missir fókus þegar minnst er á sniðsauma, hálslíningar, snið á boðungum og utanáliggjandi vasa.
Að hafa góðan fatasmekk er huglægt mat en þeir sem velja náttúruleg efni og fatasnið sem lagt er í þykja oftar betur klæddir en þeir sem velja plastsandala, sniðlausar flíspeysur og gerviefni sem límast við líkamann. Það er ekki nóg að velja föt úr góðum efnum því þau þurfa að passa á búkinn og taka mið af handleggjalengd, mittislínu og taka þarf mið af hreyfivídd svo drottningarnar verði ekki eins og fólkið í Silfrinu um daginn.
Alma Möller landlæknir talar um það í viðtali í Smartlandsblaðinu hvað það skipti miklu máli, þegar aldurinn færist yfir, að velja rétt snið. Þegar við hittumst klukkan átta á miðvikudagsmorgni munaði litlu að við hefðum verið eins og tvíburar því Alma tók á móti mér í vínrauðri dragt frá Filippu K.
Vinkona mín kynnti mér þessi föt fyrir meira en áratug þegar hún bjó í Svíþjóð og síðan hef ég keypt jakka og buxur í mismunandi litum. Einu sinni átti ég bæði svarta dragt og dökkbláa. Á köldum vetrarmorgnum var ekki nokkur leið að sjá hvor væri hvað og alls ekki þegar aldurstengd fjarsýni bættist við.
Þegar ég hnaut um nýjan lit, þennan vínrauða, þá festi ég bara kaup á buxunum. Vegna heilaþvottar Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra frestaði ég jakkakaupunum en keypti í staðinn vínrauða silkiskyrtu. Hún var ódýrari en jakkinn en vegna óreiðu í fataherbergi fannst ekki skyrtan á miðvikudagsmorgun. Fólk með virkara hægra heilahvel man stundum ekki hvar á heimilinu það tætir af sér fötin. Ég stórsé eftir að hafa látið Ásgeir Jónsson eyðileggja þessi jakkakaup. Betra hefði verið að kaupa hann og reykspóla svo til móts við BrownSanta (UPS). Þegar ég sagði Ölmu frá þessu sagði hún við mig að ég yrði að reyna að finna jakkann sem fyrst því þessi vínrauði væri að verða uppseldur. Það kom á daginn að hún hafði rétt fyrir sér. Marta María mun því ekki ná að stela stílnum af Ölmu Möller því framleiðsludeild Filippu K misreiknaði vinsældir dragta í vínrauðum lit.
Það er auðvitað ekki heimsendir þótt einn vínrauðan jakka vanti í fataskápinn. Málið er bara að efnið í þessum drögtum hefur að geyma góða efnablöndu. Það er í réttri þykkt, ekki of stíft og ekki of lufsulegt. Dragtir í of linu og lufsulegu efni verða oft svo óskaplega frúarlegar með fullri virðingu fyrir eldri dömum. Það sem er samt fyndið er að kvenlæknar voru ekki ánægðir þegar fréttir fóru að berast á Smartlandi hvað Alma Möller væri smart. Þeim fannst ekki nógu mikill prestís að fjallað væri um fallegar slaufublússur þegar þjóðin var í hálfgerðri lífslokameðferð heima hjá sér og vissi hreinlega ekki hvort hún gæti einhvern tímann litið glaðan dag á ný þegar kórónuveiran geisaði.
Þegar lífið hellist yfir okkur af fullum þunga og óveðursský hrannast upp þá skiptir hver einasta sólarglæta máli. Ef þessi sólarglæta er í formi slaufublússu, má hún ekki bara vera það? Þarf eitt að útiloka annað?